Fjárhagsaðstoð og félagsleg ráðgjöf

Fjárhagsaðstoð

Almennt er hverjum manni skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Hins vegar er sveitarfélögum skylt að veita íbúum sínum þjónustu og aðstoð sé þörf á því. Því geta einstaklingar undir ákveðnum viðmiðunarmörkum eða einstaklingar án framfærslu átt rétt á því að sækja um fjárhagsaðstoð hjá sínu sveitarfélagi.  Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga er veitt samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og reglum hvers sveitarfélags fyrir sig, en sveitarfélög skulu setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar. Fjárhagsaðstoð skal ávalt veitt til þess að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. 

3.3.4. Sambandið beiti sér fyrir því að í vinnu við heildarendurskoðun á lagaramma um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga verði lögð áhersla á samspil opinberra framfærslukerfa og hlutverk ólíkra greiðslna skilgreint. Framkvæmd fjárhagsaðstoðar til framfærslu verði til þess að styðja við virkni og þátttöku sem flestra með valdeflingu að leiðarljósi og í samráði við einstaka notendur.

3.3.5. Sambandið beiti sér fyrir því að eftirlit með greiðslum úr bóta- og greiðslukerfi ríkis, sveitarfélaga og lífeyrissjóða verði aukið sem og samvinna milli stofnana m.a. með miðlun upplýsinga

Úr stefnumörkun Sambands íslenskra sveitarfélaga 2018-2022

Félagsleg ráðgjöf

Samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga eiga félagsmálanefndir sveitarfélaganna að bjóða upp á félagslega ráðgjöf. Markmiðið með félagslegri ráðgjöf er m.a. að veita upplýsingar og leiðbeiningar um félagsleg réttindamál einstaklinga og veita þeim einstaklingum stuðning sem eiga við félagslegan, fjárhagslegan og/eða persónulegan vanda að stríða. Hið flókna nútímasamfélag kallar sérstaklega á aðgang fólks að ráðgjöf um almenn félagsleg réttindi ásamt leiðbeiningum og ráðgjöf í einkamálum. Félagsleg ráðgjöf er því eitt af mikilvægustu úrræðum félagsþjónustu sveitarfélaganna en henni skal ætið beitt í eðlilegu samhengi við aðra þjónustu, svo sem skóla og heilsugæslustöðvar eftir því sem við á. Í lögum um félagsþjónustu sveitarfélag skulu sveitarfélög hafa á að skipa félagsráðgjöfum til að annast félagslega ráðgjöf. Þar sem þörf krefur skal ráða aðra sérfræðinga til starfa, og skal starfsfólki gefin kostur á að viðhalda og bæta við þekkingu sína. Skipulagðar félagsþjónustuskrifstofur eru 32 á landinu.