9. fundur sveitarstjórnarvettvangs EFTA

Haldinn í Grímsnes- og Grafningshreppi í júní 2014

Loftslags- og umhverfisstefna Evrópusambandsins og málefni Norðurslóða á dagskrá

Sveitarstjórnarvettvangur EFTA fundaði í níunda sinn að Grímsborgum, Grímsnes- og Grafningshreppi, 26-27. júní sl. Vettvangurinn tók til starfa árið 2010 til að gæta hagsmuna sveitarstjórnarstigsins í EES EFTA ríkjunum gagnvart ESB. Í honum eiga sæti allt að sex kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstigi frá Noregi og Íslandi. Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og landshlutasamtök sveitarfélaga tilnefna fulltrúa af hálfu Íslands.

Helstu viðfangsefni vettvangsins að þessu sinni voru ný stefna ESB í orku- og loftslagsmálum og málefni Norðurslóða en vettvangurinn samþykkti ályktanir um þessi tvö mál. Vettvangurinn fjallaði einnig um evrópskar samstarfsáætlanir og kjörnir voru nýr formaður og varaformaður.

Loftslags– og orkumál

Umhverfisreglur Evrópusambandsins eru hluti af EES-samningnum og því ber Íslandi að innleiða tilskipanir Evrópusambandsins þegar þær hafa verið teknar inn í samninginn. Orku- og loftslagsmál koma inn á borð sveitarfélaga og því er brýnt að fylgjast vel með þróun mála á vettvangi ESB.

ESB setur sér m.a. markmið um að hvert land dragi úr losun gróðurhúsaloftegunda um að minnsta kosti 40% þegar reiknað er  frá upphafi til loka 40 ára tímabilsins 1990-2030.  Þá er gert ráð fyrir 27% hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í allri orkunotkun í ESB og að gripið verðið til aðgerða til að auka orkunýtni. Ýmsir aðilar, m.a. Evrópuþingið, telja framkvæmdastjórnina ekki setja sér ekki nægilega háleit markmið, ekki síst vegna þess í tillögurnar vanti bæði markmið fyrir einstök aðildarríki hvað varðar innleiðingu endurnýjanlegra orkugjafa og einnig skorti raunverulega hvata til þess að ráðast í aðgerðir til þess að bæta orkunýtingu.

Ísland og ESB hafa samið um losunarmarkmið Íslands fram til 2020. Ísland þarf að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda um 31% fyrir árið 2020 að undanskilinni losun frá stóriðju. Losun gróðurhúsalofttegunda að undanskilinni stóriðju var 2,78 milljónir tonna árið 2012. Árið 2020 á losunin að vera 1,98 milljónir tonna. Því þarf að draga úr losun um tæplega þriðjung. Stefnt er að því að helmingi markmiðsins verði náð með gróðursetningu trjáa. Hinum helmingnum á að ná með minnkandi losun gróðurhúsalofttegunda og hugsanlega með kaupum á losunarheimildum.

Í ályktun sveitarstjórnarvettvangsins, sem flutt var af Torhild Bransdal, frá sveitarfélaginu Vennesla, er rammáætlun ESB fagnað, einkum markmiðum um að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda um að minnsta kosti 40%. Vettvangurinn dregur í efa að markmið um 27% hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í allri orkunotkun í ESB nægi til að ná markiðum sambandsins um 80% minni losun gróðurhúsalofttegunda árið 2050 miðað við nú. Lögð er áhersla á lykilhlutverk sveitarstjórnarstigsins við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda m.a. kemur að skipulagsmálum, stefnumótun, almannaþjónustu, orkumálum og samgöngum. Vettvangurinn harmar að hin nýja rammaáætlun endurspegli ekki á viðunandi hátt mikilvægi sveitarstjórnarstigsins þegar að kemur að aðgerðum á sviði orku- og loftslagsmála. Loks kallar ályktunin efir að aukunum stuðningi frá ESB, og á landsvísu, til að gera sveitarfélögum kleift að hrinda rammáaætluninni í framkvæmd.

Ályktunin

Málefni norðurslóða

Á undanförnum árum hefur mikil alþjóðleg umræða átt sér stað um þær breytingar sem nú eru að verða á norðurslóðum vegna hlýnunar jarðar og bráðnunar íss, sem leiða mun til aukinnar skipaumferðar og vaxandi sóknar í náttúruauðlindir. Íslensk sveitarfélög eiga verulegra hagsmuna að gæta að stemmt verði stigu við þeim hættum fyrir umhverfi og efnahag sem kunna að vera samfara þessari þróun. Um leið er nauðsynlegt að sveitarfélög fylgist vel með því hvaða tækifæri felast í þessum breytingum fyrir byggðir landsins. Umtalsverðir möguleikar eru að skapast á norðurslóðum sem geta skapað skapað skilyrði fyrir endurnýjun og eflingu íslensks efnahags og framtíðarhagvöxt verði rétt á málum haldið.

Evrópusambandið leggur nú síaukna áherslu á málefni norðurslóða og vinnur að stefnu í norðurslóðamálum.  Fundarmenn hlýddu á kynningar Joan Nyman Larsen, prófessors við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, Þorsteins Ingólfssonar sendiherra og Eiríks Björns Björgvinssonar, bæjarstjóra á Akureyri um efnið og samþykktu í kjölfarið ályktun um efnið sem flutt var af Geir Kr. Aðalsteinssyni.

Vettvangurinn fagnar auknum áhuga ESB á málefnum norðurslóða og áherslu sambandsins á vernd, sjálfbæra þróun og alþjóðasamstarf. Vettvangurinn hvetur til þess að sjónum sé beint að menningarlegri, félagslegri og tæknilegri framþróun sem við á harðbýlum svæðum. Vettvangurinn fagnar því að Northern Periphery áætlunin nær nú einnig til norðurslóða sem eykur tækifæri sveitarfélaga í EES-ríkjunum til samstarfs við sveitarfélög í þriðju ríkjum, m.a. til að bregðast við umhverfisverndaráskorunum og félagslegum áskorunum tilkomnum vegna breytinga á norðurslóðum. Fagnað er áherslum sambandsins á samgöngumál og hvatt er til þess að Connecting Europe Facility áætlunin, TEN-T verði einnig látin ná til norðurslóða. Lögð er áhersla á tækifæri til efnahagslegrar og félagslegrar framþróunar sem breytingar á norðurslóðum geta haft í för með sér, m.a. vegna nýrra siglingaleiða og námavinnslu og að norðurslóðasvæði á Íslandi og í Noregi eru ólík norðurslóðasvæðum í  Ameríku og á Grænlandi, t.d. að því er varðar hagvöxt og fólksfjölda. Framkvæmdastjórnin hvött til að tryggja að ríkisaðstoðarreglur geri sveitarfélögum á norðlægum slóðum áfram kleift að styðja atvinnu- og nýsköpun og vakin er athygli á því að lofslagsbreytingar og mengun getur haft neikvæð áhrif á fiskistofna sem mörg samfélög í Noregi og Íslandi byggja atvinnulíf sitt á og að breyttar siglingaleiðir auka hættu  á umhverfisslysum. Af þeim sökum er brýnt að byggja upp öryggis- og björgunarmiðstöðvar. Vettvangurinn leggur áherslu á sjálfbæra þróun og réttindi frumbyggja og hvetur stjórnvöld í EES ríkjum að nýta tækifæri til framleiðslu  endurnýjanlegrar orku á norðurslóðum með rannsóknum og þróun. Loks kallar vettvangurinn eftir samstarfi og samráði við sveitarstjórnarstigið í allri stefnumótun um málefni norðurslóða og aukinni þátttöku þess í Norðurskautsráðinu. 

Ályktun


Ályktununum verður komið á framfæri við stjórnvöld EES-ríkjanna, stofnanir EFTA og Héraðanefndina.

Á fundinum var einnig fjallað um evrópskar samstarfsáætlanir og tækifæri sveitarfélaga til þátttöku í þeim, einkum Horizon2020 og Uppbyggingarsjóði EFTA.