Sveitarstjórnarvettvangur EFTA fundar í Bergen

Halldór Halldórsson kjörinn formaður vettvangsins. Reglur um ríkisaðstoð, Þróunarsjóður EFTA og stefna ESB í hafnarmálum á dagskrá

Sveitarstjórnarvettvangur EFTA hélt sjöunda fund sinn í Bergen 21-22. júní sl. Á fundinum var Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, kjörinn forseti vettvangsins en helstu verkefni að þessu sinni voru reglur um ríkisaðstoð, Þróunarsjóður EFTA og stefna ESB í hafnarmálum en vettvangurinn samþykkti ályktanir um þessi þrjú mál.Sveitarstjórnarvettvangur EFTA hélt sjöunda fund sinn í Bergen 21-22. júní sl. Vettvangurinn tók til starfa árið 2010 til að gæta hagsmuna sveitarstjórnarstigsins í EES EFTA ríkjunum gagnvart ESB. Í honum eiga sæti allt að sex kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstigi frá Noregi og Íslandi. Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og landshlutasamtök sveitarfélaga tilnefna fulltrúa af hálfu Íslands.

Á fundinum var Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, kjörinn forseti vettvangsins en helstu verkefni að þessu sinni voru reglur um ríkisaðstoð, Þróunarsjóður EFTA og stefna ESB í hafnarmálum en vettvangurinn samþykkti ályktanir um þessi þrjú mál.

image003

Þátttakendur á fundinum í Bergen.

Ályktun um endurskoðun Evrópureglna um ríkisaðstoð

Evrópureglur um ríkisaðstoð (e. state aid) eru teknar upp í íslensk lög á grundvelli EES-samningsins. Reglurnar ná til stuðnings ríkis og sveitarfélaga á Íslandi en megintilgangur reglnanna er að koma í veg fyrir röskun á samkeppnisstöðu fyrirtækja. Í nágrannalöndum okkar er algengt að upp komi álitamál um hvort sveitarfélög hafi brotið reglur um ríkisaðstoð, sem ætti e.t.v. frekar að kalla reglur um opinbera aðstoð. Þessi mál hafa t.d. komið upp þegar sveitarfélög eru að markaðsvæða þjónustu sína, s.s. að breyta rekstri yfir í hlutfélagaform og þá hafa komið upp álitamál um hvort söluverð endurspegli markaðsverð. Ríkisaðstoðarmál hér á landi er snerta sveitarfélög eru fá en nýlega komst Eftirlitsstofnun EFTA að þeirri niðurstöðu að afsláttur sem Reykjanesbær hefur veitt Verne gagnaveri af fasteigna- og gatnagerðargjöldum frá árinu 2009 sé ósamræmanlegur EES-samningnum og skuli því mismunurinn endurheimtur. Stofnunin hefur einnig hafið formlega rannsókn á hugsanlegri ríkisaðstoð í tengslum við fjármögnun á starfsemi tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu.

Í maí 2012 kynnti framkvæmdastjórn ESB nútímavæðingu reglna ESB um ríkisaðstoð. Hanne S. Torkelsen, frá lögmannsstofunni Wahl-Larsen, kynnti tillögurnar á fundinum. Markmiðið er að einfalda og skýra regluverkið, fækka kærumálum, stytta málsmeðferð og stuðla að sem betri nýtingu opinbers fjár. Nútímavæðing regluverksins á að ýta undir hagvöxt og styrkja samkeppni á innri markaðnum. Sjónum er einkum beint að umfangsmiklum stuðningi sem getur raunverulega skekkt samkeppni en lagt er til að regluverkið fyrir lægri upphæðir verði einfaldað. Framkvæmdastjórnin hefur nú kynnt ýmsar tillögur og óskað eftir umsögnum hagsmunaðila um endurskoðaðar leiðbeinandi reglur um svæðisbundna ríkisaðstoð, rannsóknir og þróun, aðstoð vegna umhverfismála, aðstoð vegna áhættufjármagns, breiðband o.fl. Regluverkið hefur einnig verið endurskoðað en birt hafa verið drög að reglugerð um beitingu 92. og 93. gr. stofnsáttmála Evrópubandalagsins gagnvart tilteknum flokkum altækrar ríkisaðstoðar og reglugerð um beitingu 93. gr. EB-sáttmálans, reglugerð um lágmarksaðstoð, reglugerð um almenna hópundanþágu auk tillagna um mat á ríkisaðstoð. Á fundinum var sérstaklega fjallað um tillögur er snerta svæðisbundna ríkisaðstoð, lágmarksaðstoð og almennar hópundanþágur. Héraðanefnd ESB ályktaði un efnið í nóvember sl. og Evrópuþingið í janúar, þar sem það styður tillögurnar í meginatriðum.

Í ályktun vettvangsins, sem flutt var af Nils Amund Røhne frá sveitarfélaginu Stange, er ánægju lýst með þau markmið endurskoðunar regluverksins um ríkisaðstoð að stuðla að hagvexti og bæta samkeppni á innri markaðinum, að einfalda ferla og beina sjónum að stærri verkefnum sem hafa augljós áhrif á samkeppni. Vettvangurinn lýsti einnig ánægju með endurskoðun og útvíkkun reglugerðarinnar um hópundanþágur og kallaði eftir því að félags-, mennta, heilbrigðis- og breiðbandsmál yrðu einnig felld undir hana. Vettvangurinn fagnar auknu svigrúmi varðandi lágmarksaðstoð og áréttar að það sé brýnt nú þegar skórinn kreppir að sveitarfélög geti veitt aðstoð til að skapa og vernda störf. Vettvangurinn kallar jafnframt eftir því að viðmiðið varðandi lágmarksaðstoð verði hækkað úr 200.000 í 500.000 evrur til einföldunar og í samræmi við nýtt viðmið fyrir þjónustu sem hefur almenna efnahagslega þýðingu. Vettvangurinn fagnar drögum að nýjum leiðbeinandi reglum um svæðisbundna ríkisaðstoð nema nýju banni við aðstoð til stórfyrirtækja á þróaðri svæðum, sem gæti t.d. haft áhrif varðandi ívilnanir sveitarfélaga á Íslandi til stóriðjufyrirtækja og á aðstoð ríkisins sem skiptir sköpum. Loks kallar vettvangurinn eftir auknum upplýsingum og leiðbeiningum frá ríkisvaldinu til að tryggja að sveitarfélög geti beitt reglum um ríkisaðstoð og farið að þeim sem skyldi.

Ályktun um Þróunarsjóð EFTA

Í EES-samningnum er kveðið á um fjárhagslegan stuðning EFTA/EES-ríkjanna við ríki sem eiga aðild að Evrópska efnahagssvæðinu og standa illa í efnahagslegu tillit. Markmiðið er að jafna samkeppnisstöðu ríkjanna sem standa að innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins með því að draga úr efnahagslegri og félagslegri misskiptingu innan svæðisins. Þróunarsjóði EFTA er einnig ætlað að styrkja tengsl EFTA/EES-ríkjanna við styrkþegaríkin og skapar hann tækifæri fyrir sveitarfélög til að miðla af reynslu sinni og taka þátt í félagslegum og efnahagslegum umbótum í styrkþegaríkjunum. Elita Cakule, yfirmaður alþjóðaverkefnasviðs hjá Norska sveitarfélagasambandinu (KS) sagði frá Þróunarsjóðunum og þátttöku norska sambandsins í verkefnum styrktum af honum. Íslensk sveitarfélög hafa enn sem komið er ekki tekið virkan þátt í Þróunarsjóðsverkefnum en Samband íslenskra sveitarfélaga hefur kynnt sveitarfélög sem mögulega samstarfsaðila á vettvangi sjóðsins og vonir standa til aukinnar þátttöku. Áætlanagerð stendur yfir fyrir næsta styrkjatímabil sem hefst árið 2015 en brýnt er að tryggja aðkomu sveitarstjórnarstigsins  að stefnumótuninni. Í ályktun um efnið, sem flutt var af Christian Haugen frá Hedmark-héraði, er lögð áhersla á samráð við sveitarfélög og héruð um áherslur næsta tímabils og kallað eftir því að sérstaklega verði kveðið á um sveitarfélög sem þátttakendur í styrkþegalöndunum.  Þá er lagt til að sérstök áætlun fyrir sveitarfélög verði hluti af sjóðnum á næsta tímabili og hnykkt er á mikilvægi tvíhliða samstarfi sveitarfélaga í samningum við styrkþegaríkin fyrir tímabilið sem hefst árið 2015.

Ályktun um hafnamál

Í maí sl. kynnti framkvæmdastjórn ESB nýja stefnu og reglugerðardrög sem miða að því að bæta starfsemi hafna og sjóflutninga í Evrópu.  Framkvæmdastjórnin telur margt mega fara betur, t.d. til að koma í veg fyrir einokun og að því er varðar gagnsæi fjármögnunar, skilvirkni, samráð við hagsmunaaðila, aukinn aðgang þjónustuaðila og starfsmannamál.

Pia von Farstad, sérfræðingur hjá norska sveitarfélagasambandinu, kynnti tillögurnar en framkvæmdastjórn ESB telur hina nýju reglugerð hafa EES vægi. Flestar norskar og íslenskar hafnir eru í eigu sveitarfélaga en áhrif tillagnanna verða fyrst ljós þegar EFTA ákveður hvort og þá hvernig regluverkið verður innleitt í EES samninginn.  

Vettvangurinn ályktaði um efnið en flutningsmaður ályktunarinnar var Gunnar Þórarinsson, bæjarfulltrúi Reykjanesbæjar. Í ályktun vettvangsins er lögð áhersla á mikilvægi hafna í efnahagslegri og félagslegri framþróun sveitarfélaga og mikilvægan hafna til að tryggja skilvirka og umhverfisvæna vöruflutninga í Evrópu. Vettvangurinn fagnar tillögum framkvæmdastjórnarinnar í átt að einföldun, skilvirkni og bættri hafnaþjónustu og auknu forræði hafnaryfirvalda á tileknum sviðum. Vettvangurinn efast þó um nauðsyn lagasetningarinnar og lýsir áhyggjum af því að með henni færist vald á sviði hafnarmála til annarra aðila og að í reglugerðardrögunum sé að finna ákvæði sem grafi undan frelsi hafna til að kjósa sér rekstrarfyrirkomulag sem hentar á hverjum stað, heimildum þeirra til fjárfestinga og stjórnsýsluskyldum. Vettvangurinn telur lagasetningu á þessu sviði óþarfa, einkum í ljósi þess að enn hafi gildandi hafnastefna ekki komið til fullrar framkvæmdar, t.d. hafi leiðbeinandi reglur um ríkisaðstoð til hafna enn ekki litið dagsins ljós. 

Ályktununum verður komið á framfæri við stjórnvöld EES-ríkjanna, stofnanir EFTA og Héraðanefndina.