• EFTA-FORUM2

Sveitarstjórnarvettvangur EFTA fundar á Ísafirði

Staða EES-samningsins og Evrópureglur um mat á umhverfisáhrifum á dagskrá

Sveitarstjórnarvettvangur EFTA hélt fimmta fund sinn á Ísafirði 21-22 .júní sl. Vettvangurinn tók til starfa árið 2010 til að gæta hagsmuna sveitarstjórnarstiganna í EES EFTA löndunum gagnvart ESB. Í honum eiga sæti allt að sex kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstigi frá Noregi og Íslandi. Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og landshlutasamtök sveitarfélaga tilnefna fulltrúa af hálfu Íslands.

Sveitarstjórnarvettvangur EFTA hélt fimmta fund sinn á Ísafirði 21-22. júní sl. Vettvangurinn tók til starfa árið 2010 til að gæta hagsmuna sveitarstjórnarstigsins í EES EFTA ríkjunum gagnvart ESB. Í honum eiga sæti allt að sex kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstigi frá Noregi og Íslandi. Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og landshlutasamtök sveitarfélaga tilnefna fulltrúa af hálfu Íslands.

Helstu viðfangsefni að þessu sinni voru staða EES-samningsins frá sjónarhóli sveitarstjórnarstigsins og Evrópureglur um mat á umhverfisáhrifum, en vettvangurinn samþykkti ályktanir um þessi tvö mál.

Ályktun um stöðu EES-samningsins

EES-samningurinn er til skoðunar í öllum þremur EES-EFTA-ríkjunum. Ítarleg norsk úttekt var birt í byrjun árs og Liechtenstein hefur gert álíka rannsókn sem kynnt var árið 2010. EES-samningurinn er augljóslega til athugunar á Íslandi þar sem landið hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu og aðildarviðræður standa yfir. Þess ber einnig að geta að Sviss, sem er aðili að EFTA en ekki EES, á í viðræðum um framtíðarfyrirkomulag samstarfs síns við ESB. Ráð ESB hefur kallað eftir breytingum á tvíhliða samstarfi sínu við Sviss en nú eru í gildi um 120 tvíhliða samningar milli Sviss og ESB.

Í ályktun vettvangsins, sem flutt var af Christian Haugen frá Hedmark-fylki, er vakin athygli á því að Lissabon-sáttmálinn hafi haft það í för með sér að það eru ekki lengur skýr skil á milli EES-tækrar löggjafar um innri markaðinn og annarra sviða ESB. Sveitarfélög í ESB geta í auknum mæli nýtt sér uppbyggingarsjóði sambandsins til að ná markmiðum í löggjöf innri markaðarins á meðan hliðstæður stuðningur stendur ekki til boða í EES-ríkjunum vegna sömu löggjafar. Hvatt er til þess að EES-EFTA-löndin láti framkvæma rannsókn á samspili innri markaðarins og byggðastefnu ESB, með það fyrir augum að kanna áhrif á sveitarstjórnarstigið í EES-EFTA-ríkjunum. Vakin er athygli á því að EES-samningurinn hefur skapað nýtt stjórnsýslustig og þar með ný úrlausnarefni í hefðbundnum samskiptum sveitarstjórnarstigsins og ríkisvaldsins. Jafnframt hafi skortur á pólitískri þátttöku í EES-starfinu, sem var ein af niðurstöðum norsku úttektarinnar, leitt af sér einskonar lýðræðishalla þar sem embættismenn taka mikilvægar ákvarðanir um EES-mál án afgerandi pólitískrar leiðsagnar. Kallað er eftir aukinni pólitískri þátttöku til að rétta lýðræðishallann og til að tryggja hagsmuni og sjálfsstjórnarrétt sveitarfélaga. Einnig er kallað eftir samráði við sveitarstjórnarstigið þegar ný löggjöf er tekin inn í samninginn, við mat á hvort þörf er á tæknilegri aðlögun eða undanþágum og í ferlinu almennt. Þá biður vettvangurinn EES-EFTA-ríkin um að taka tillit til áhrifa ESB-löggjafar á sveitarstjórnarstigið við innleiðingu innanlands, m.a. með kostnaðargreiningu, og hvetur til stofnunar samráðshópa skipuðum fulltrúum allra stjórnsýslustiga í þessu skyni. Að auki er löggjafinn hvattur til að forðast svokallaða gullhúðun þegar kemur að innleiðingu Evrópureglna innanlands, svo komið verði í veg fyrir óþarfa skriffinnsku og til að verja sjálfstjórnarrétt sveitarfélaga. Einnig er viðurkennd þörf á þekkingaruppbyggingu á EES-samstarfinu innan sveitarstjórnarstigsins og betri skilningi innan ríkisvaldsins á því hvaða áhrif EES-samstarfið hafi á sveitarstjórnarstigið.

Jan Ole Gudmundsen, sérfræðingur í norska utanríkisráðuneytinu kynnti skýrslu Norðmanna og Dr Eiríkur Bergmann, prófessor við Háskólann á Bifröst sagði frá áhrifum EES-samningsins á Íslandi en hann vann íslenskan kafla í norsku skýrslunni. Hann telur að íslensk og norsk stjórnvöld hafi haft gerólíka afstöðu til EES-samningsins. Norsk stjórnvöld hafi á margan hátt tekið þá stefnu að haga sér eins og Noregur sé aðili að ESB og nýtt sér öll tækifæri til að taka þátt í undirbúningi ákvarðana um löggjöf og stefnumótun og tækifæri til þátttöku í byggðaáætlunum ESB. Afstaða íslenskra stjórnvalda hafi á hinn bóginn beinst að því að reyna að lágmarka kostnað við þátttöku í EES-samningnum, m.a. með því að fara fram á aðlaganir vegna íþyngjandi ákvæða, sérstaklega á sviði umhverfismála

Ályktun um Evrópureglur um mat á umhverfisáhrifum

Mati á umhverfisáhrifum er ætlað að tryggja að umhverfisáhrif framkvæmda hafi verið metin áður en leyfi er veitt fyrir þeim. Matinu er ætlað að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og stuðla að samvinnu þeirra aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig málið varða. Nú stendur yfir endurskoðun á gildandi regluverki um mat á umhverfisáhrifum bæði innanlands en jafnframt á vettvangi ESB. Einnig þarf að skoða að Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur gert athugasemdir við innleiðingu evrópskra reglna um mat á umhverfisáhrifum í Noregi og á Íslandi.

Flutningsmaður ályktunarinnar var Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarness en Guðjón Bragason, sviðsstjóri lögfræðisviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga flutti erindi um efnið. Í ályktun vettvangsins er hvatt til þess að löggjafinn innleiði ekki ESB löggjöf um skipulagsmál með óhóflega flóknum hætti og áréttað að tímafrestir séu nú þegar hæfilega langir og forðast eigi að lengja þá með nýrri löggjöf. Að auki er löggjafinn hvattur til að forðast gullhúðun þegar kemur að innleiðingu Evrópureglna, svo komið verði í veg fyrir óþarfa skriffinnsku og til að verja sjálfstjórnarrétt sveitarfélaga. Lagt er til að EES-EFTA-ríkin leiti ráða hjá ESA um það hvort það geti ekki samræmst tilskipun ESB um mat á umhverfisáhrifum að sveitarfélög leggi eftir atvikum sjálf mat á minniháttar verkefni. Jafnframt er mælt með því að endurskoðun tilskipunar um mat á umhverfisáhrifum hafi einföldun og skýrleika að leiðarljósi og taki sérstaklega á þáttum er varða matsaðferðir, þátttöku almennings og samspili við aðrar tilskipanir og stefnumið á sviði umhverfisverndar. Loks eru EES-EFTA-ríkin og sveitarfélög hvött til að fylgjast náið með endurskoðun tilskipunar ESB um mat á umhverfisáhrifum, en brýnt er að skýra nánar ákvæði um gildissvið hennar, í samræmi við nálægðarregluna.

Ályktununum verður komið á framfæri við stjórnvöld EES-ríkjanna, stofnanir EFTA og Héraðanefndina.