Sveitarstjórnarvettvangur EFTA ályktar um almannaþjónustu og orkunýtni

EFTA-FORUM-2011Sveitarstjórnarvettvangur EFTA hélt fjórða fund sinn í Brussel, 14.-15. nóvember sl. Vettvangurinn tók til starfa árið 2010 til að gæta hagsmuna sveitarstjórnarstiganna í EES EFTA löndunum gagnvart ESB. Í honum eiga sæti allt að sex kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstigi frá Noregi og Íslandi. Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og landshlutasamtök sveitarfélaga tilnefna fulltrúa af hálfu Íslands.

Helstu viðfangsefni að þessu sinni voru þjónusta í almannaþágu og orkunýtni, sem vettvangurinn sendi frá sér ályktanir um, en auk þess fundaði vettvangurinn með þingmannanefnd EFTA og ráðgjafarnefnd EFTA. 

Ályktun um þjónustu í almannaþágu

Þjónusta í almannaþágu (e. service of general interest, SGI) er sú þjónusta sem hið opinbera veitir borgurum sínum til þess að uppfylla grunnþarfir þeirra. Þjónustan er veitt annað hvort beint af hinu opinbera eða í gegnum einkageirann og er frábrugðin annarri þjónustu að því leyti að hún er talin hafa svo mikla grundvallarþýðingu fyrir almenning að stjórnvöld hafa ákveðnar skyldur til að veita hana. Til almannaþjónustu teljast t.d. vatnsveita, orkuveita, fjarskiptamál, samgöngur, heilbrigðis- og félagsþjónusta, menntun og póstþjónusta. Þjónusta í almannaþágu greinist annars vegar í þjónustu, sem ekki eru talin rök fyrir að reka á samkeppnismarkaði vegna eðlis þjónustunnar og rekstrarumhverfis, og hins vegar þjónustu sem hægt er að reka á samkeppnismarkaði (e. service of general economic interest, SGEI). Það er breytilegt eftir löndum og pólitískum áherslum hvaða þjónusta er talin hafa almenna efnahagslega þýðingu (SGEI) og hvaða þjónusta telst hrein almannaþjónusta (SGI) sem evrópsk löggjöf um innri markaðinn á ekki við um.

ESB hefur boðað breytingar á evrópskri löggjöf sem snertir þjónustu í almannaþágu. Þessar breytingar munu verða teknar upp í íslenska löggjöf á grundvelli EES-samningsins.  Í ályktuninni er tekið undir viðleitni framkvæmdastjórnar ESB til að einfalda regluverk og  minnka stjórnsýslubyrðar en áhersla lögð á sjálfsstjórn sveitarfélaga og mikilvægi þess að þau hafi forræði á því hvernig þessi þjónusta er rekin. Ennfremur er vakin athygli á sérstöðu íslenskra og norskra sveitarfélaga m.a. vegna fámennis, landfræðilegrar staðsetningar og erfiðra samgangna. Þá áréttar vettvangurinn að það sé ekki hlutverk ESB að skilgreina hvað telst til SGEI annars vegar og SGI hins vegar; það eigi að vera á færi stjórnvalda í hverju landi. Vettvangurinn leggur áherslu á mikilvægi samstarfs sveitarfélaga og lýsir áhyggjum af drögum að nýjum reglum um lágmarksfjölda íbúa sem viðmiði um hvort ríkisaðstoðarreglur eigi við. Dyba Wojciech, sérfræðingur kynnti ályktun Héraðanefndar ESB um tillögur ESB að nýjum reglurm um ríkisaðstoð og SGEI  en Sveinn Kristinsson sagði frá aðstæðum á Íslandi í þessu samhengi. Ályktunina og umræðuskjöl er að finna hér til hliðar.

Ályktun um drög að tilskipun ESB um orkunýtni

Energy_Efficiency_LRG_FOCFlutningsmaður tillögu um orkunýtni var Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga. Í ályktuninni er lögð áhersla á algera sérstöðu Íslands og Noregs að því er varðar notkun endurnýjanlegrar orku og losun gróðurhúsalofttegunda vegna húshitunar. Ályktunin tekur undir sjónarmið Héraðanefndar ESB um að skyldubundin endurnýjun 3% opinberra bygginga á ári, sem hinar nýju tillögur fela í sér, sé of íþyngjandi fyrir sveitarstjórnarstigið og að brýnt sé að sveitarfélög hafi frelsi til að velja þær orkusparnaðarleiðir sem henta á hverjum stað og tíma. Vettvangurinn er einnig andvígur því að ESB leggi þá skyldu á herðar sveitarfélögum að kaupa aðeins orkunýtna þjónustu og vörur en slíkt eigi að vera á valdi sveitarstjórnarstigsins að ákveða. Sama gildir um ákvæði er snerta skipulagsmál sem vettvangurinn telur of ítarleg og að brjóti mögulega gegn sjálfstjórnarrétti sveitarfélaga.

Ályktunina og umræðuskjöl er að finna hér til hliðar.

Ályktununum verður komið á framfæri við stofnanir EFTA og Héraðanefndina.