Sextándi fundur sveitarstjórnarvettvangs EFTA

Sveitarstjórnarvettvangur EFTA fundaði í sextánda sinn í Brussel 16.-17. nóvember sl. Vettvangurinn tók til starfa árið 2010 til að gæta hagsmuna sveitarstjórnarstigsins í EES EFTA samstarfinu. Í honum eiga sæti allt að sex kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstigi frá Noregi og Íslandi og tveir áheyrnarfulltrúar frá Sviss. Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og landshlutasamtök sveitarfélaga tilnefna fulltrúa af hálfu Íslands.

Gagnahagkerfið, Erasmus fyrir sveitarstjórnarmenn og framtíð Evrópusamstarfsins á dagskrá

Helstu mál á dagskrá voru gagnahagkerfið og Erasmus fyrir kjörna fulltrúa sem vettvangurinn ályktaði um. Einnig var framtíð Evrópusamstarfsins og útganga Breta úr ESB (Brexit) til umræðu.

Vettvangur-mynd

Gagnahagkerfið

Á fundinum sagði Trond Helge Bårdsen, upplýsingatæknisérfræðingur fastanefndar Noregs gagnvart ESB frá upplýsingatæknimálum á döfinni Í ESB og rafrænni stjórnsýslu. Þá sagði Kieran McCArthy, sveitarstjórnarmaður frá Cork og skýrslugjafi Svæðanefndar ESB um gagnahagkerfið frá ályktun sinni um efnið.

Evrópusambandið vill vinna að framgangi gagnahagkerfisins (e. data economy) sem byggir á markvissri hagnýtingu gagna til hagsbóta fyrir atvinnulífið og samfélagið allt. Það vill styrkja reglur um gagnavernd en jafnframt aflétta óþarfa takmörkunum sem  koma í veg fyrir opnun og nýtingu gagna sem ekki eru persónugreinanleg eða viðkvæm.

Sveitarstjórnarvettvangurinn samþykkti ályktun um gagnahagkerfið sem flutt var af Birni Blöndal. Vettvangurinn fagnar þeim efnahagslega ábata sem gagnahagkerfið getur haft í för með sér og þeim nýsköpunarmöguleikum sem því fylgja í rafrænni þjónustu og notkun gagna. Þessi möguleikar geta nýst til að auka skilvirkni og draga úr stjórnsýslubyrðum. Þeir geta stuðlað að auknum hagvexti, leitt til aukins og hagkvæmara framboðs fyrir neytendur, skapað ný atvinnutækifæri og verið hvatning til nýsköpunar. Lögð er áhersla á að sveitarfélög og svæði skipta sköpun til að stafrænn innri markaður og gagnahagkerfið verði að veruleika því að þau veita almenningi og fyrirtækjum stóran hluta opinberrar þjónustu, bera ábyrgð á stafrænum innviðum, meðhöndla og safna gögnum og stuðla að stafrænni færni íbúanna.

Snjallborgaverkefni og bætt notkun ganga geta stuðlað að nýsköpun og meiri skilvirkni í mörgum málaflokkum sveitarfélaga, s.s. í umhverfis-, orku- og samgöngumálum. Vettvangurinn kallar eftir stuðningi til að aðstoða dreif- og strjálbýl svæði  þar sem tæknilegar hindranir standa í vegi fyrir framþróun rafrænnar almannaþjónustu. Til að hægt sé að nýta þau tækifæri sem gagnahagkerfinu fylgja þarf miðlægan stuðning og samstillt átak allra stjórnsýslustiga. Samvirkni, stafræna innviði og netöryggi verður að efla, breyta þarf verkferlum innan stjórnsýslunnar og byggja upp nauðsynlega þekkingu.

Vettvangurinn styður nýjar persónuverndarreglur þar sem þær eru nauðsynlegar til að gagnahagkerfið geti skilað ávinningi. Hann lýsir einnig yfir stuðningi við fyrirhugaða endurskoðun tilskipunar um friðhelgi einkalífsins og rafræn fjarskipti og fyrirhugaðar aðgerðir framkvæmdastjórnar ESB til að stuðla að frjálsu flæði upplýsinga. Lögð er áhersla á virkt samráð við sveitarfélög á öllum stigum mála til að koma í veg fyrir óþarfa kostnað og skrifræði.

Vettvangurinn telur æskilegt að sveitarfélög fái aðgang að gögnum sem almannahagur er af því að deila og getur nýst þeim til að bæta þjónustuna, s.s. til að bæta umferðarstjórnun með notkun gagna úr GPS-tækjum bifreiða. Hvatt er til að gögn geti flætt óhindrað á milli stjórnsýslustiga þannig að hægt sé að innleiða meginregluna um einslátt, „Once only“, og hann áréttar þörfina fyrir stafræna innviði, aðgerðir og regluverk til að bregðast við  nýjum áskorunum tengdum Interneti hlutanna (e. Internet of Things), samvirkni kerfa og persónuvernd.  Vettvangurinn telur einnig gagnlegt að opna gögn til að koma í veg fyrir kostnaðarsamar gagnafyrirspurnir. Gögn geta nýst til að bæta opinbera umræðu og ákvarðanatöku, rekstur, eftirlit og stefnumótun hjá sveitarfélögum.

Loks hvetur vettvangurinn ESB til samráðs við EES EFTA ríkin þegar unnið er að EES-tækri löggjöf á þessu sviði.  

Ályktuninni verður komið á framfæri við stjórnvöld EES-ríkjanna, stofnanir EFTA og ESB, og Svæðanefndina.

Erasmus-áætlun fyrir kjörna fulltrúa

Hugmyndir um Erasmus áætlun fyrir kjörna fulltrúa á sveitarstjórnarstigi hafa verið á lofti um nokkurt skeið. Svæðanefnd ESB hefur samið drög að ályktun um efnið sem Ase Erdal, forstöðumaður Brussel-skrifstofu norska sveitarfélagasambandsins kynnti.  Sveitarstjórnarvettvangurinn ályktaði um málið þar sem lýst er stuðningi við hugmyndir um Erasmus fyrir kjörna fulltrúa en vettvangurinn áréttar að sveitarfélög hafa grundvallarhlutverki að gegna í framkvæmd Evrópulöggjafar og þurfa til þess þekkingu og reynslu.  Áætlun af þessum toga gæti styrkt sveitarstjórnarmenn til að skiptast á reynslu og kynna fyrirmyndarverkefni á lykilsviðum, s.s. að því er varðar orkunýtni, umhverfismál, rafræna þjónustu, samgöngur, atvinnusköpun o.fl. sem gæti stuðlað að bættri framkvæmd Evrópulöggjafar, nýsköpun og tengslamyndum þvert á landamæri. Vettvangurinn hvetur jafnframt EES EFTA ríkin til að styðja stofnun Erasmus-áætlunar fyrir kjörna fulltrúa á sveitarstjórnarstigi.

Framtíð Evrópusamstarfsins og Brexit

Á fundinum sagði Eamonn Noonan, sérfræðingur hjá hugveitu Evrópuþingsins, frá hvítbók framkvæmdastjórnarinnar, framtíðarsýn fyrir Evrópu og mögulegum áhrifum Brexit og David Simmonds, varaframkvæmdastjóri Enska sveitarfélagsambandsins, fulltrúi í Svæðanefnd ESB og Sveitarstjórnarþingi Evrópuráðsins,  sagði frá helstu málum á döfinni fyrir sveitarfélög í Englandi í tengslum við útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. 

Í mars birti framkvæmdastjórn ESB hvítbók þar sem útlistaðar eru fimm ólíkar sviðsmyndir um hvernig Evrópusamstarfið gæti þróast. Eftirfarandi sviðsmyndir eru settar fram í hvítbókinni:

 • Halda áfram á sömu braut – Aðeins smávægilegar breytingar á sambandinu í kjölfar útgöngu Bretlands.
 • Innri markaðurinn einn og sér – Áhersla lögð á að styrkja fjórfrelsið en samstarf á öðrum sviðum minnkað, s.s. á sviði innflytjenda- og umhverfismála.
 • Ríki sem vilja nánara samstarf geri meira saman – Aðildarríki, sem það hugnast, auka samstarf á ýmsum sviðum, til dæmis á sviði vinnumarkaðsmála og löggæslu.
 • Skilvirkara starf en á færri sviðum – Áhersla á náið samstarf þegar kemur að viðskiptum, öryggis- og varnarmálum, innflytjendamálum en aðrir málaflokkar – til að mynda lýðheilsa, neytendavernd, umhverfis- og vinnumarkaðsmál – verði á valdi aðildarríkjanna.
 • Nánara samstarf á fjölda sviða – Til að mynda með því að setja á fót varnarbandalag, auka miðstýringu í flóttamannamálum og að sambandið taki upp eigin skattheimtu.

Framkvæmdastjórnin birti einnig umræðuskjal um ESB og hnattvæðingu, annað um styrkingu efnahags og myntbandalagsins, það fjórða um varnarmál og hið fimmta um fjármál sambandsins.

Tillögur um aukna samvinnu og dýpri samruna hafa mætt talsverðri andstöðu Austur-Evrópuríkja, svo sem Póllands og Ungverjalands, sem óttast að verða undir í Evrópusamstarfinu en Frakkar, Þjóðverjar, Spánverjar og Ítalir þrýsta á um að aðildarríkjum verði boðið upp á að ákveða sjálf að hve miklu leyti og á hvaða hraða þau taki þátt í Evrópusamstarfinu. Aukin samvinna ESB á sviðum sem snerta innri markaðinn gæti haft áhrif á íslensk sveitarfélög.

Sýn Enska sveitarfélagasambandsins á Brexit

Enska sveitarfélagasambandið hefur greint málið en regluverk ESB hefur áhrif á fjölmörg starfssvið sveitarfélaga, m.a. á:

 • Umhverfis-, úrgangs- og orkumál
 • Vinnuveitendamál og vinnuvernd
 • Innkaupamál og t.d. sérleyfissamninga
 • Ríkisaðstoð
 • Eftirlit, t.d. á sviði neytendaréttar og hollustuhátta
 • Fjármál sveitarfélaga og fjárfestingar
 • Meðferð persónuupplýsinga
 • Samgöngu og skipulagsmál, t.d. rekstur almenningssamgangna og gatnakerfi

Enska sveitarfélagasambandið valdi að taka hvorki afstöðu með eða á móti Brexit og nálgast úrlausnarefnin á praktískan hátt en ekki út frá hugmyndafræði. Þar sem málum er skipað með ákvörðunum og reglugerðum ESB, sem hafa bein réttaráhrif, mun Brexit skilja eftir sig lagalegt tómarúm. Þegar um er að ræða tilskipanir sem hafa verið innleiddar í landsrétt þá er minni hætta á óvissu og tækifæri gefst til að vinda ofan af „gullhúðaðri“ löggjöf, breyta reglum eða fella úr gildi úrelda löggjöf. Starfshópur enska sambandsins hefur greint um 500 Evrópugerðir sem snerta sveitarfélög og þarf að viðhalda en sér sóknarfæri í að unnt verði að létta á stjórnsýslubyrðum s. s. í reglum um opinber innkaup. Ensk sveitarfélög hafa áhyggjur af því hvernig fjármagn verður tryggt til ýmissa málaflokka þegar Evrópustyrkja nýtur ekki lengur við (Bretland átti von á 5,3 milljörðum punda úr Uppbyggingarsjóðum ESB á árunum 2014-2020) og einnig er óvissa um kjör hjá Evrópska fjárfestingabankanum í framtíðinni en bankinn hefur fjárfest í fjölda stórra verkefna á sviði endurnýjanlegra orkugjafa í Englandi. Ýmsar stjórnskipulegar spurningar vakna einnig, s. s. um aðkomu sveitarstjórnarstigsins að samningaviðræðum um framtíðartengsl Englands við ESB. Ensk sveitarfélög hafa einnig kallað eftir að valdsvið sveitarstjórnarstigsins verði styrkt ef af úrsögn verður, t.d. þegar kemur að fjármálum, skattheimtu, húsnæðis- og skipulagsmálum, samgöngum, heilbrigðismálum og löggæslu og fangelsismálum. Í tengslum við Brexit hyggjast sveitarfélögin skoða sérstaklega möguleg samfélagsleg áhrif, t.d. áhrif á vinnumarkaðinn ef erfiðara verður fyrir útlendinga að fá dvalarleyfi í Bretlandi, aukna útlendingaandúð og hatursglæpi.

Loks sagði Marius Vahl, skrifstofustjóri EES samræmingarmála, frá helstu málum á döfinni í EES-samstarfinu.