Fimmtándi fundur sveitarstjórnarvettvangs EFTA

Deilihagkerfið og framtíð Evrópusamstarfsins á dagskrá

Sveitarstjórnarvettvangur EFTA fundaði í fimmtánda sinn í Skien, Noregi 15.-16. júní sl. Vettvangurinn tók til starfa árið 2010 til að gæta hagsmuna sveitarstjórnarstigsins í EES EFTA samstarfinu. Í honum eiga sæti allt að sex kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstigi frá Noregi og Íslandi og tveir áheyrnarfulltrúar frá Sviss. Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og landshlutasamtök sveitarfélaga tilnefna fulltrúa af hálfu Íslands. 

Sveitarstjórnarvettvangur EFTA fundaði í fimmtánda sinn í Skien, Noregi 15.-16. júní sl. Vettvangurinn tók til starfa árið 2010 til að gæta hagsmuna sveitarstjórnarstigsins í EES EFTA samstarfinu. Í honum eiga sæti allt að sex kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstigi frá Noregi og Íslandi og tveir áheyrnarfulltrúar frá Sviss. Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og landshlutasamtök sveitarfélaga tilnefna fulltrúa af hálfu Íslands. 

Helsta viðfangsefni vettvangsins að þessu sinni var deilihagkerfið sem vettvangurinn ályktaði um. Einnig var framtíð Evrópusamstarfsins og útganga Breta úr ESB (Brexit) til umræðu. 

EFTA-FORUM-15-fundur

Deilihagkerfinu fylgja bæði tækifæri og áskoranir

Sveitarstjórnarvettvangurinn samþykkti ályktun um deilihagkerfið sem flutt var af Nils Røhne frá Noregi. Vettvangurinn fagnar þeim efnahagslega ábata sem deilihagkerfið getur haft í för með sér og þeim tækifærum á sviði hagræðingar, nýsköpunar og atvinnusköpunar sem því fylgja. Vettvangurinn telur deilhagkerfið geta stuðlað að bættri nýtingu gæða, skapað störf og aukið úrval og lækkað verð neytendum til hagsbóta. Vakin er athygli á að deilhagkerfið hefur umbylt hefðbundnum viðskiptaaðferðum, einkum á sviði farþegaflutninga og útleigu húsnæðis til ferðamanna. Vettvangurinn áréttar því að nauðsynlegt er að vakta þróun á þessu sviði og að viðeigandi lagaumhverfi er nauðsynlegt til að tækifæri sem deilhagkerfið hefur í för með sér verði nýtt til fulls og komið sé í veg fyrir skattsvik. Einnig er vakin athygli á að ýmislegt eftirlit og leyfisveitingar er tengjast deilihagkerfinu er á forræði sveitarfélaga og að deilihagkerfið hefur umtalsverð áhrif á þau, m.a. á húsnæðismarkaðinn, neytenda- og vinnuvernd, og farþegaflutninga. Vettvangur styður hugmyndir um stofnun vefseturs þar sen neytendur og veitendur þjónustu í deilihagkerfinu geta fræðst um réttindi sín og skyldur. Loks hvetur vettvangurinn ESB til samráðs við EES EFTA ríkin þegar unnið er að EES-tækri löggjöf á þessu sviði.   

Ályktuninni verður komið á framfæri við stjórnvöld EES-ríkjanna, stofnanir EFTA og ESB, og Svæðanefndina. 

Framtíðarsýn fyrir Evrópu og ESB

Framtíð Evrópusamstarfsins var einnig til umræðu á fundinum. Í mars birti framkvæmdastjórn ESB hvítbók um framtíð sambandsins þar sem útlistaðar eru fimm ólíkar sviðsmyndir um hvernig Evrópusamstarfið gæti þróast. Ekki stendur til að kjósa um valkosti heldur er markmiðið að skapa umræðu og í haust mun framkvæmdastjórnin kynna frekari hugmyndir. Eftirfarandi sviðsmyndir voru kynntar:

Fastir liðir eins og venjulega – Aðeins smávægilegar breytingar á sambandinu í kjölfar útgöngu Bretlands.

  • Innri markaðurinn einn og sér – Áhersla lögð á að styrkja fjórfrelsið en samstarf á öðrum sviðum minnkað, s.s. á sviði innflytjenda- og umhverfismála.
  • Ríki sem vilja nánara samstarf geri meira saman – Aðildarríki, sem það hugnast, auka samstarf á ýmsum sviðum, til dæmis á sviði vinnumarkaðsmála og löggæslu.
  • Skilvirkara starf en á færri sviðum – Áhersla á náið samstarf þegar kemur að viðskiptum, öryggis- og varnarmálum, innflytjendamálum en aðrir málaflokkar – til að mynda lýðheilsa, neytendavernd, umhverfis- og vinnumarkaðsmál – verði á valdi aðildarríkjanna.
  • Nánara samstarf á fjölda sviða – Til að mynda með því að setja á fót varnarbandalag, auka miðstýringu í flóttamannamálum og að sambandið taki upp eigin skattheimtu.

Tillögur um aukna samvinnu og dýpri samruna hafa mætt talsverðri andstöðu Austur-Evrópuríkja, svo sem Póllands og Ungverjalands, sem óttast að verða undir í Evrópusamstarfinu en Frakkar, Þjóðverjar, Spánverjar og Ítalir þrýsta á um að aðildarríkjum verði boðið upp á að ákveða sjálf að hve miklu leyti og á hvaða hraða þau taki þátt í Evrópusamstarfinu. Aukin samvinna ESB á sviðum sem snerta innri markaðinn gæti haft áhrif á íslensk sveitarfélög.

Evrópusamtök sveitarfélaga (CEMR) hafa samið stefnumótunarskjal um sama efni en forstöðumaður Brussel-skrifstofu sambandsins tók þátt í samningu textans.

Á fundinum sagði Andrew Byrne, sendiráðsfulltrú hjá sendinefnd ESB í Noregi, frá hvítbók framkvæmdastjórnarinnar og mögulegum áhrifum Brexit og Dag Einar Thorsen, aðstoðarprófessor við Háskóla Suðaustur-Noregs rakti sögu Evrópusamstarfsins. Loks sagði Frode M. Lindtvedt, yfirmaður deildar norska sveitarfélagasambandsins sem fjallar um staðbundið lýðræði, frá stefnumótunarskjali CEMR og áhugaverðri könnun sem gerð var á lýðræði í Noregi sem birt verður á næstunni.

Á fundinum var Halldór Halldórsson kjörinn nýr formaður Sveitarstjórnarvettvangs EFTA og Hilde Onarheim varaformaður.