Fjórtándi fundur sveitarstjórnarvettvangs EFTA

Ný áætlun ESB um færni (New Skills Agenda), þátttaka EFTA ríkja í stofnunum ESB og Brexit á dagskrá

Sveitarstjórnarvettvangur EFTA fundaði í fjórtánda sinn í Brussel 14.-15. nóvember sl. Vettvangurinn tók til starfa árið 2010 til að gæta hagsmuna sveitarstjórnarstigsins í EES EFTA samstarfinu. Í honum eiga sæti allt að sex kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstigi frá Noregi og Íslandi og tveir áheyrnarfulltrúar frá Sviss. Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og landshlutasamtök sveitarfélaga tilnefna fulltrúa af hálfu Íslands.

Helsta viðfangsefni vettvangsins að þessu sinni var ný áætlun ESB um færni (New Skills Agenda), sem vettvangurinn ályktaði um. Einnig var fjallað um þátttöku EFTA ríkja í stofnunum ESB og brottför Breta úr Evrópusambandinu (Brexit).

EEA-EFTA-Forum-1Brýnt að efla færni og styrkja mannauðinn í Evrópu

Um 70 milljónir Evrópubúa eru illa læsir og skrifandi og enn fleiri skortir færni á sviði upplýsingatækni og tölulæsi. Þessi hópur glímir við atvinnuleysi og hætta er á að hann lendi utangarðs. Að auki sinna margir í ESB störfum sem henta hvorki færni þeirra né áhugasviði, einkum ungt háskólamenntað fólk. Á sama tíma eiga 40% atvinnurekanda erfitt með að finna fólk með hæfni sem er nauðsynleg til þess að fyrirtæki þeirra vaxi og nýsköpun eigi sér stað. Þá eru frumkvöðlar of fáir, svo og þeir sem eru færir um að stofna og reka eigið fyrirtæki og laga sig að síbreytilegum kröfum atvinnulífsins. Til að bregðast við þessum vanda samþykkti ESB nýja stefnu um færni í júní sl. („New Skills Agenda“). Markmiðið er að auka færni og efla mannauðinn í Evrópu til að gera fleirum kleift að taka virkan þátt á vinnumarkaði, efla samkeppnishæfni álfunnar og auka hagvöxt í aðildarríkjunum. Ætlunin er að hrinda tíu aðgerðum í framkvæmd á næstu tveimur árum, m.a.:

 • Að koma á ek. færnitryggingu til að bæta læsi, skrift, tölulæsi og upplýsingatæknifærni hjá fólki með litla menntun til að gera því kleift að hefja nám á framhaldsskólastigi.
 • Endurskoðun á evrópska viðmiðarammann um menntun til að skilgreina betur færni og virkja betur færni sem er til staðar á evrópskum vinnumarkaði.
 • Að stofna bandalag aðila sem vinna að stafrænni færni og stafrænum atvinnutækifærum þar sem saman koma menntastofnanir, atvinnulífið og aðilar vinnumarkaðarins til að sjá til þess að vinnuafl í Evrópu búi yfir þeirri stafrænu færni sem vinnumarkaður nútímans þarf á að halda.
 • Að þróa sérstakt tæki til að leggja mat á og viðurkenna færni fólks frá löndum utan Evrópu, m.a. hælisleitenda, flóttamanna og annarra innflytjenda.
 • Aðgerðir til að greina ástæður og koma í veg fyrir spekileka.
 • Styrkja stöðu verknáms til að fjölga tækifærum til starfsnáms og vekja athygli á atvinnutækifærum tengdum verkmenntun.
 • Endurskoðun á stefnumörkun um lykilhæfni (grunnleikni og ný grunnleikni) sem nauðsynleg er til að lifa í nútíma þekkingarsamfélagi. Í gildandi tilmælum um lykilhæfni til ævináms eru settir fram átta flokka lykilhæfni:
- samskipti á móðurmálinu;
- samskipti á erlendum málum;
- færni í stærðfræði, vísindum og tækni;
- stafræn færni;
- að læra að læra
- samskipti við annað fólk, fólk frá öðrum menningarheimum og félagsfærni, félagsleg og borgaraleg færni,
- frumkvöðlastarfsemi
- tjáning menningar

Sveitarfélög gegna lykilhlutverki þegar kemur að menntakerfinu. Sveitarstjórnarvettvangurinn samþykkti ályktun um „New Skills Agenda“ sem flutt var af Jon Askeland Haugen frá Noregi. Vettvangurinn áréttar m.a. mikilvægi þess að efla færni allra, einnig innflytjenda frá löndum utan Evrópu, til að mæta kröfum þekkingarsamfélags nútímans, til að efla atvinnuþátttöku og stuðla að aðlögun og þátttöku allra í samfélaginu. Virkt samstarf menntastofnana, aðila vinnumarkaðarins, atvinnulífsins og ríkis og sveitarfélaga er nauðsynlegt í þessu samhengi. Lögð er áhersla á hlutverk gunnskóla og endurmenntunarstofnana og að kennarar fái þá menntun og endurmenntun sem nauðsynleg er til að þeir geti kennt nemendum nýja færni. Þá er lögð áhersla á að auka veg verkmenntunar, fjölga starfsnámstækifærum og að vekja athygli á atvinnutækifærum sem fylgja starfsnámi. Einnig er vakin athygli á færniskorti og aðgerðum til að bregðast við honum á landsbyggðinni og mikilvægi stafrænnar færni og fjarnáms í þessu samhengi. Þá lýsir vettvangurinn ánægju með fyrirhugaða endurskoðun tilmæla um lykilhæfni til ævináms til að leggja frekari áherslu á frumkvöðla, nýsköpun og nýja færni sem er nauðsynleg í þekkingarsamfélaginu. Loks styður vettvangurinn hugmyndir um skjóta viðurkenningu og mat á færni innflytjenda og hvetur EES EFTA ríkin til samstarfs á þessu viði. Einnig styður vettvangurinn endurskoðun evrópska viðmiðarammans um menntun en leggur að sama skapi áherslu á að ríkjum sé veitt ákveðið frelsi í þessu samhengi.

Ályktuninni verður komið á framfæri við stjórnvöld EES-ríkjanna, stofnanir EFTA og ESB, og Svæðanefndina. 

Áhrif úrgöngu Breta úr ESB á sveitarfélög

Á fundinum sagði Dominic Rowles,  ESB sérfræðingur hjá enska sveitarfélagasambandinu, frá mögulegum áhrifum Brexit á ensk sveitarfélög. Regluverk ESB hefur áhrif á fjölmörg starfssvið sveitarfélaga, m.a. á:

 • Umhverfis-, úrgangs- og orkumál, þ. á m. loftmengun, líffræðilegan fjölbreytileika og urðun úrgangs
 • Vinnuveitendamál og vinnuvernd
 • Innkaupamál og t.d. sérleyfissamninga
 • Ríkisaðstoð
 • Eftirlit, t.d. á sviði neytendaréttar og hollustuhátta
 • Fjármál sveitarfélaga og fjárfestingar
 • Meðferð persónuupplýsinga
 • Samgöngu og skipulagsmál, t.d. hvernig sveitarfélög reka almenningssamgöngur og gatnakerfi

Starfshópur enska sambandsins hefur greint um 400 gerðir sem geta haft áhrif á sveitarfélög. Þar sem málum er skipað með ákvörðunum og reglugerðum ESB, sem hafa bein réttaráhrif, þar mun Brexit skilja eftir sig lagalegt tómarúm. Þegar um er að ræða tilskipanir sem hafa verið innleiddar í landsrétt þá er minni hætta á óvissu og tækifæri gefst til að vinda ofan af „gullhúðaðri“ löggjöf, breyta reglum eða fella úr gildi úrelta löggjöf. Ensk sveitarfélög hafa áhyggjur af því hvernig fjármagn verður tryggt til ýmissa málaflokka þegar Evrópustyrkja nýtur ekki lengur við (Bretland átti von á 5,3 milljörðum punda úr uppbyggingarsjóðum ESB á árunum 2014-2020) og einnig er óvissa um kjör hjá Evrópska fjárfestingabankanum í framtíðinni en bankinn hefur fjárfest í fjölda stórra verkefna á sviði endurnýjanlegra orkugjafa í Bretlandi. Ýmsar stjórnskipulegar spurningar vakna einnig, s.s. um aðkomu sveitarstjórnarstigsins að samningaviðræðum um framtíðartengsl Englands við ESB. Ensk sveitarfélög hafa einnig kallað eftir að valdsvið sveitarstjórnarstigsins verði styrkt ef að úrsögn verður, t.d. þegar kemur að fjármálum, skattheimtu, húsnæðis- og skipulagsmálum, samgöngum, heilbrigðismálum og löggæslu og fangelsismálum. Í tengslum við Brexit hyggjast sveitarfélögin skoða sérstaklega möguleg samfélagsleg áhrif, t.d. áhrif á vinnumarkaðinn ef erfiðara verður fyrir útlendinga að fá dvalarleyfi í Bretlandi, aukna útlendingaandúð og hatursglæpi.

Hvað ber framtíðin í skauti sér fyrir Evrópu?

Evrópuþingið rekur sk. hugveitu til að greina framtíðaráskoranir og helstu mál á döfinni. Eamonn Noonan, sérfræðingur hjá hugveitunni, sagði frá helstu þáttum sem munu móta Evrópu og heiminn á næstu áratugum. Meðalaldur hækkar stöðugt um allan heim og ef ekkert er að gert mun þessi þróun grafa undan velferðarkerfum eins og við þekkjum þau í dag og fólk mun þurfa að vinna talsvert lengur fram eftir aldri en nú. Hækka verður framlög til heilbrigðiskerfa umtalsvert og viðskiptamódel munu gerbreytast. Innflytjendamál verða áfram ofarlega á döfinni; vegna skorts á vinnuafli vegna lágrar fæðingartíðni, vegna aukinnar misskiptingar og vopnaðra átaka og jafnvel vatnsskorts. Tækninýjungar munu umbreyta heiminum á öllum sviðum;  t.d.  fjölmiðlum, lýðræðismálum og heilbrigðisþjónustu, vélmenni munu vinna sífellt fleiri störf sem nú er sinnt af fólki og þorri mannkyns mun búa í þéttbýli í framtíðinni. ESB telur brýnt er að móta langtímastefnu til að bregðast við ofangreindum áskorunum.

Þátttaka EES EFTA-ríkjanna í sérstofnunum ESB

Frá gerð EES-samningsins hefur sérhæfðum ESB stofnunum fjölgað umtalsvert. Slíkar sérstofnanir eru nú 39 talsins og hafa ólíku hlutverki að gegna. Sumar hafa eftirlitshlutverk, aðrar vinna sem upplýsinganet og enn aðrar sjá um framkvæmd áætlana ESB á einstökum sviðum. Ekki er kveðið á um þátttöku EES EFTA-ríkjanna í stofnunum og semja þarf sérstaklega um þátttöku hverju sinni.  EFTA/EES-ríkin taka þátt í starfi um 20 sérstofnana og hafa jafnframt aðkomu að stjórnum þeirra - án atkvæðisréttar - á grundvelli ákvaðarðana sameiginlegu EES nefndarinnar en einnig geta ríkin samið tvíhliða við ESB um þátttöku í einstökum stofnunum.

Fjölgun stofnana ESB og styrkt valdsvið þeirra getur haft áhrif á starf sveitarfélaga þar sem sumar setja nú bindandi reglur sem geta haft áhrif á EES EFTA-ríkin. Reglusetningarstarfið byggir gjarnan á nánu samstarfi við systurstofnanir í aðildarríkjum og án aðgangs að slíkum stamstarfsnetum verður hagsmunagæsla EES EFTA-ríkjanna erfiðari en ella. Annað áhyggjuefni er að stofnanir hafa í síauknum mæli tekið yfir svið sem áður lutu alþjóðasamstarfi sem EES EFTA-ríkin tóku beinan þátt í en einnig eru samningaviðræður um þátttöku í sífellt fleiri stofnunum tímafrekt og flókið ferli. Brýnt er að tryggja hagsmuni EES EFTA-ríkjanna gagnvart stofnunum ESB og að rödd þeirra heyrist þar sem við á. Íslensk stjórnvöld hafa þó ekki sett sér stefnu um þátttöku í stofnunum ESB. Til stóð að fjölga íslenskum „lánssérfræðingum“ (e. seconded national experts) en enn sem komið er starfar aðeins einn fulltrúi Íslands hjá framkvæmdastjórn ESB.

Vettvangurinn hlýddi einnig á kynningu á starfsáætlun framkvæmdastjórnar ESB fyrir árið 2016 og fundaði með Þingmannanefnd EFTA þar sem fjallað var um Brexit