Þrettándi fundur sveitarstjórnarvettvangs EFTA

Ályktarnir um hringrásahagkerfið og EES uppbyggingarsjóðina

Sveitarstjórnarvettvangur EFTA fundaði í þrettánda sinn í Stykkishómi 6.-7. júní sl. Helstu umfjöllunarefni vettvangsins að þessu sinni voru áhrif stefnumótunar ESB um hringrásarhagkerfið á sveitarstjórnarstigið í EES EFTA löndunum og nýtt styrkjatímabil 2014-2021 fyrir EES uppbyggingarsjóðina en vettvangurinn ályktaði um þessi tvö mál. Einnig var fjallað um fyrirhugaðan fríverslunarsamning ESB og Bandaríkjanna (TTIP), samningaviðræður um fjölþjóðlegan samning um þjónustuviðskipti (TiSA) og flóttamannavandann í Evrópu

Sveitarstjórnarvettvangur EFTA fundaði í þrettánda sinn í Stykkishómi 6.-7. júní sl. Helstu umfjöllunarefni vettvangsins að þessu sinni voru áhrif stefnumótunar ESB um hringrásarhagkerfið á sveitarstjórnarstigið í EES EFTA löndunum og nýtt styrkjatímabil 2014-2021 fyrir EES uppbyggingarsjóðina en vettvangurinn ályktaði um þessi tvö mál. Einnig var fjallað um fyrirhugaðan fríverslunarsamning ESB og Bandaríkjanna (TTIP), samningaviðræður um fjölþjóðlegan samning um þjónustuviðskipti (TiSA) og flóttamannavandann í Evrópu


EES EFTA Sveitarstjórnarvettvangurinn tók til starfa árið 2010 til að gæta hagsmuna sveitarstjórnarstigsins í EES EFTA samstarfinu. Í honum eiga sæti allt að sex kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstigi frá Noregi og Íslandi og tveir áheyrnarfulltrúar frá Sviss. Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og landshlutasamtök sveitarfélaga tilnefna fulltrúa af hálfu Íslands. Auk fastra fulltrúa tóku þátt í fundinum Matthias Brinkmann sendiherra ESB á Ísland sem fór yfir þær áskoranir sem ESB stendur frammi fyrir og kynnti stöðu samningaviðræðna ESB við Bandaríkin um TTIP og viðhorf ESB gagnvart TiSA og Georges Baur, aðstoðarframkvæmdastjóri EFTA sem fór yfir stöðu EES mála.

Sveitarfélög gegna mikilvægu hlutverki til að ná markmiðum um hringrásarhagkerfið

Sveitarstjórnarvettvangurinn hefur áður fjallað um stefnu ESB um hringrásarhagkerfið en þá með áherslu á græn störf, sjá umfjöllun um 10. fund vettvangsins, þar sem líka er hægt að kynna sér hvað liggur að baki stefnu ESB um hringrásarhagkerfið. Á fundinum núna var áherslan á tillögur ESB um markmið í úrgangsmálum sem þátt í hringrásarhagkerfinu.

Babette Winter, sem er ráðherra fyrir Thüringen svæðið í Þýskalandi og talsmaður Svæðanefndar ESB um hringrásarhagkerfið, fór yfir markmið stefnunnar , áhrif á evrópsk sveitarfélög og svæði og afstöðu Svæðanefndar ESB. Lúðvík E. Gústafsson umhverfissérfræðingur sambandsins kynnti íslensku stöðuna , hver áhrifin munu verða á íslensk sveitarfélög og hvernig þau geti undirbúið sig. Unnur Valborg Hilmarsdóttir varaformaður SSNV og oddviti Húnaþings vestra flutti tillögu að ályktun sem var samþykkt.

Í ályktuninni er stefnu ESB um hringrásarhagkerfið fagnað og tilgreint að hvaða leyti sveitarfélög geti gegnt hlutverki til að ná markmiðum, ekki síst í úrgangsmálum, og hvaða stuðningsaðgerðir þurfi til að koma. Bent er á að aðstæður séu mismunandi á milli sveitarfélaga, því þurfi að tryggja sveigjanleika og m.a. taka tillit til stöðunnar í dreifbýlissveitarfélögum þar sem er langt í úrvinnslustaði. Einnig er bent á að grípa þurfi til aðgerða varðandi úrgang sem aðrir en sveitarfélög bera ábyrgð á eins og iðnaðarúrgang. Í ályktuninni er bent á mikilvægi skýrra og samræmdra úrgangsskilgreininga. Kallað er eftir stuðningsaðgerðum til þekkingaruppbyggingar hjá sveitarfélögum og meðal almennings. Einnig er bent á að ríkisstjórnir í EES EFTA löndunum þurfi að styðja sveitarfélög í sínum ríkjum þar sem evrópskur stuðningur á grundvelli EES samningsins er ekki nægilegur. Ályktunin er aðgengileg í heild sinni hér á síðunni, svo og kynningar Babette og Lúðvíks.

Samstarfsmöguleikar á milli sveitarstjórnarstigsins í EES EFTA löndunum og  í löndum sem njóta styrkja úr EES uppbyggingarsjóðunum

Uppbyggingarsjóðirnir eru tveir, þ.e. norskur sjóður og EES sjóður. EES EFTA löndin greiða háar fjárhæðir í sjóðina til að stuðla að uppbyggingu í ESB löndum sem standa höllum fæti í félagslegu og efnahagslegu tilliti. Norska sveitarfélagasambandið og norsk sveitarfélög hafa lagt áherslu á tækifæri til samstarfsverkefna með sveitarstjórnarstiginu í löndum sem njóta styrkja en mun minna hefur verið um hliðstæð íslensk samstarfsverkefni.

Gunnbjørg Nåvik, sérfræðingur norska sveitarfélagasambandsins í málefnum sjóðanna, kynnti bakgrunn sjóðanna og áherslur fyrir nýtt styrkjatímabil. Roland Krimm starfsmaður Svissneska kantónusambandsins kynnti hliðstætt svissneskt stuðningsfyrirkomulag vegna tvíhliða samninga Sviss við ESB. Hilde Onarheim borgarfulltrúi í Bergen og varaformaður sveitarstjórnarvettvangsins flutti ályktun um málið sem var samþykkt. Í henni eru ríkisstjórnir EES EFTA landanna, ESB stofnanir og stjórnvöld í styrkþegalöndunum hvött til að tryggja þátttöku sveitarstjórnarstigsins í komandi samningaviðræðum við styrkþegalöndin og í verkefnaútfærslum og -vali.

Kynning Gunnbjargar og ályktunin í heild sinni eru aðgengileg hér á síðunni.

Fundurinn fjallað líka um flóttamannavandann og áhrif hans á sveitarfélög í Evrópu. Óttarr Proppé alþingismaður kynnti stöðuna á Íslandi og ný lög um málefni útlendinga sem Alþingi samþykkti rétt fyrir þinglok í vor. Kynning hans er einnig aðgengileg á síðunni.

Halldór Halldórssonar formaður sambandsins hefur verið formaður vettvangsins undanfarið ár og stýrði fundinum. Hilde Onarheim var í lok fundarins kjörinn formaður í stað hans til eins ár en Halldór varaformaður.

Ályktunum fundarins verður komið á framfæri við stjórnvöld í EES EFTA löndunum, stofnanir EFTA og ESB.