Tólfti fundur sveitarstjórnarvettvangs EFTA

Loftslagsmál, flóttamannavandinn og fyrirhugaður fríverslunarsamningur ESB og Bandaríkjanna (TTIP)  til umræðu

Sveitarstjórnarvettvangur EFTA fundaði í tólfta sinn í Brussel 16.-17. nóvember sl. Helsta viðfangsefni vettvangsins að þessu sinni var loftslagsráðstefnan í París (COP21) og hlutverk sveitarfélaga og aðgerðir til að stemma stigu við loftslagsbreytingum, sem vettvangurinn ályktaði um. Einnig var fjallað um fyrirhugaðan fríverslunarsamning ESB og Bandaríkjanna (TTIP), samningaviðræður um fjölþjóðlegan samning um þjónustu-viðskipti (TiSA) og flóttamannavandann í Evrópu

Sveitarstjórnarvettvangur EFTA fundaði í tólfta sinn í Brussel 16.-17. nóvember sl. Vettvangurinn tók til starfa árið 2010 til að gæta hagsmuna sveitarstjórnarstigsins í EES EFTA samstarfinu. Vettvangurinn tók til starfa árið 2010 til að gæta hagsmuna sveitarstjórnarstigsins í EES EFTA samstarfinu. Í honum eiga sæti allt að sex kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstigi frá Noregi og Íslandi og tveir áheyrnarfulltrúar frá Sviss. Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og landshlutasamtök sveitarfélaga tilnefna fulltrúa af hálfu Íslands.

Helsta viðfangsefni vettvangsins að þessu sinni var loftslagsráðstefnan í París (COP21) og hlutverk sveitarfélaga og aðgerðir til að stemma stigu við loftslagsbreytingum, sem vettvangurinn ályktaði um. Einnig var fjallað um fyrirhugaðan fríverslunarsamning ESB og Bandaríkjanna (TTIP), samningaviðræður um fjölþjóðlegan samning um þjónustu-viðskipti (TiSA) og flóttamannavandann í Evrópu. Þá fundaði sveitarstjórnar-vettvangurinn með þingmannanefnd EFTA en viðfangsefnið var fríverslunarsamningur ESB og Bandaríkjanna (TTIP).

2015-11-16-hd3-eea-efta-forum-politicians

Sveitarfélög gegna mikilvægu hlutverki í að ná alþjóðlegum markmiðum í loftslagsmálum og þau geta dregið verulega úr losun

Sveitarfélög gegna lykilhlutverki þegar kemur að aðgerðum til að bregðast við neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga enda bera þau ábyrgð á mikilvægum málaflokkum í þessu samhengi, s.s. skipulagsmálum, almenningsamgöngum, mennta-málum, úrgangs- og orkumálum og umhverfisvernd. Brýnt er að ríki og sveitarfélög móti sér stefnu í loftslagsmálum og tryggi fjármuni til að skipuleggja aðgerðir, innleiða þær og fylgja þeim eftir. Samkvæmt skýrslu Norðurlandaráðs er fjárstuðningur ríkisvaldsins forsenda þess að styrkja megi loftslagsvinnu í sveitarfélögum, til að innleiða stefnumið og til að geta ráðið samræmingaraðila og annað starfsfólk.

Borgarstjórasáttmálinn er sáttmáli sveitarfélaga um nýtingu sjálfbærrar orku og aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Með aðild skuldbinda borgir og bæir sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um meira en 40% til ársins 2030. Sáttmálinn felur í sér greiningu, aðgerðaáætlun um takmörkun á losun gróðurshúsalofttegunda og eftirlit með framkvæmdinni. Aðilar skuldbinda sig einnig til að stuðla að vitundarvakningu meðal borgaranna og til að deila fyrirmyndarverkefnum. Reykjavíkurborg er aðili að sáttmálanum.

Á fundinum sagði Ulla Hegg, umhverfissérfræðingur fastanefndar Noregs, frá fyrirhugaðri loftslagsráðstefnu í París og sjónarmiðum ESB og Noregs í málaflokknum. Kata Tutto, ungverskur fulltrúi í Svæðanefnd ESB og sérstakur skýrslugjafi um Borgarstjórasáttmálann, kynnti ályktanir Svæðanefndarinnar um efnið og Frederic Boyer, framkvæmdastjóri skrifstofu Borgarstjórasáttmálans, sagði frá nýjum sáttmála um loftslags- og orkumál. Stig Bang-Andersen, sérfræðingur norska sveitarfélaga-sambandsins, kynnti áhugavert reiknilíkan sem ætlað er að aðstoða sveitarfélög við stefnumótun í loftslagmálum og mæla áhrif aðgerða. Loks sagði Björn Blöndal borgarfulltrúi frá aðgerðum Reykjavíkurborgar í loftslagsmálum.

Í kjölfarið samþykkti vettvangurinn ályktun um efnið sem flutt var af Christian Haugen frá Hedmark í Noregi. 2015-11-16-hd1-christian-haugen Í ályktuninni er hlutverk sveitarfélaga og mikilvægi aðgerða þeirra til að bregðast við loftslagsbreytingum áréttað. Hnykkt er á nauðsyn staðlaðra reikniaðferða til að leggja mat á útblástur og aðgerðir og að komið verði á kerfi þar sem sveitarfélög geti selt ríksvaldinu losunarheimildir sem myndi verða þeim hvatning til að minnka losun og verða lofslagsvænni. Þá er í ályktuninni kallað eftir auknu fjármagni til að gera sveitarfélögum kleift að grípa til aðgerða til að minnka losun og bregðast við afleiðingum loftslagsbreytinga og áhersla lögð á samráð við þau þegar gerðar áætlanir í loftslagsmálum, í samræmi við nálægðarregluna. 

Ályktuninni verður komið á framfæri við stjórnvöld EES-ríkjanna, stofnanir EFTA og ESB, og Svæðanefndina. 

Fríverslunarsamningur ESB og Bandaríkjanna og fjölþjóðlegur samningur um þjónustuviðskipti

Á tíunda fundi og ellefta fundi vettvangsins var fjallað um samningaviðræður um víðtækan fríverslunarsamning milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna (TTIP) sem standa nú yfir. Samningaviðræður um víðtækan fríverslunarsamning milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna (TTIP) standa nú yfir. Slíkur samningur gæti m.a. haft umtalsverð áhrif á innkaupamál sveitarfélaga og rekstrarform þjónustu þeirra. Markmið samningsins er að auðvelda gagnkvæman aðgang fyrirtækja samningsríkjanna að mörkuðum þeirra og hann myndi fela í sér samræmingu á regluverki ríkjanna. Talið er að hann geti haft í för með sér aukinn þrýsting á einkavæðingu almannaþjónustu, s.s.  vatnsveitu, fráveitu, úrgangsmála, almenningssamgangna, félagsþjónustu, heilbrigðis- og menningarmála.  Einnig er talið að hann gæti haft í för með sér breytingar á umhverfislöggjöf ESB, á reglum um neytendavernd og matvælaeftirlit.

EES EFTA löndin verða ekki beinir aðilar að samningum en hann myndi óbeint hafa mikil áhrif á þau, vegna breytinga sem gera þyrfti á ESB löggjöf sem heyrir undir EES samninginn. Ennþá er langt í land með að samningur sé höfn en gagnrýnt hefur verið að samningsferlið sé ógagnsætt og að lýðræðislega kjörin stjórnvöld í aðildarríkjunum hafi ekki fengið nægjanlegar upplýsingar um stöðu samningaviðræðna, m.a. vegna þess að í Bandaríkjunum tíðkast meiri leynd í kringum svona samningaviðræður en í Evrópu. Samningaviðræður um fjölþjóðlegan samning um þjónustuviðskipti (TiSA) eru einnig yfirstandandi en Ísland tekur þátt í þeim viðræðum. Samningurinn mun byggja á GATS reglum og fjalla sérstaklega um sjóflutninga, orkumál, fjármagnsþjónustu, póstþjónustu, fjarskipti, aðgang þjónustuveitenda og rafræn viðskipti. Markmiðið er að fækka hindrunum sem standa í vegi fyrirtækjum sem starfa á vettvangi þjónustuviðskipta. Ísland hefur kynnt samningstilboðs sitt þar sem lögð er megináhersla á að ná sem bestum kjörum fyrir fyrirtæki á sviði hátækni- og orkumála og á sviði alþjóðlegra sjóflutninga.

Fundarmenn hlýddu á kynningu Roberts Ronström, frá Svæðanefnd ESB um TTIP og TiSA og ræddu í kjölfarið efnið. Fram kom að ESB leggi nú áherslu aukið gagnsæi í samningaferlinu og að almannaþjónusta verði líkast til undanþegin.

Flóttamannavandinn og viðbrögð sveitarfélaga

Á fundinum var fjallað um flóttamannavandann í Evrópu en fjöldi flóttamanna á ferð um álfuna er sá mesti síðan í seinni heimstyrjöldinni og talið er að meira en 3000 manns hafi farist á Miðjarðarhafinu það sem af er ári. Evrópuríkjum hefur reynst erfitt að koma sér saman um hvernig á að bregðast við vandanum og syðri og eystri landamæraríki Evrópusambandsins (ESB) ráða alls ekki við að veita öllu því fólki sem þangað kemur hæli eða viðunandi aðstoð. Samkvæmt Dyflinnar-reglugerðinni er flóttafólk á ábyrgð yfirvalda í því EES-ríki sem það kemur fyrst til á flótta sínum. Malta, Ítalía og Grikkland, og ríkin á eystri landamærunum bera þannig hitann og þungann af flóttamanna-straumnum en þar dvelja nú hundruð þúsunda í yfirfullum búðum. Á fundinum sagði Toryll Myhren, Schengen-sérfræðingur fastanefndar Noregs gagnvart ESB, frá helstu viðbrögðum ESB í málaflokknum. Framkvæmdastjórn ESB birti aðgerðaáætlun í málefnum flóttafólks og farenda í maí en aðildarríki hafa m.a. skuldbundið sig til er að deila ábyrgð á móttöku 160.000 sýrlenskra og eritreskra flóttamanna á næstu tveimur árum til að létta á Ítalíu og Grikklandi. Einnig stendur til að efla landamæragæslu, veita fjárhagsaðstoð til landamæraríkja og auka mannúðaraðstoð til Sýrlands og nærliggjandi svæða þar sem finna má þúsundir flóttamanna, m.a. til Líbanons, Tyrklands, Jórdaníu og Íraks. Áhersla verður lögð á menntun, lífsviðurværi og fæðuöryggi og sjónum sérstaklega beint að börnum og ungmennum. Einnig er ætlunin að koma á nýju kerfi sem auðveldar hæfu fólki að komst til Evrópu löglega, án aðkomu mansala, og að endurskoða Dyflinnar-reglugerðina og stefnu sambandsins í flóttamannamálum almennt.  

Hælismál falla utan við EES-samninginn en Ísland er aðili að Dyflinnar-reglugerðinni sem kveður m.a. á um að ábyrgð á hælisleitanda hvíli á því ríki þar sem viðkomandi hefur komið fyrst ólöglega inn í sambandið eða þar sem sótt hefur verið fyrst um hæli. Þorri hælisumsókna á Íslandi fellur undir Dyflinnar-reglugerðina og breytingar á henni á grundvelli hinnar nýju innflytjendastefnu gætu haft áhrif á meðferð hælisumsókna á Íslandi.

Sveitarfélög hafa lykilhlutverki að gegna í móttöku flóttmanna og á fundinum sagði sérfræðingur Evrópusamtaka sveitarfélaga (CEMR), Nathalie Noupadja, frá rannsókn samtakanna á móttöku víðsvegar í Evrópu. Afar mismunandi er hvernig staðið er að verki en víða er öflun viðeigandi húsnæðis meginvandinn. Á fundinum sögðu Björn Blöndal, borgarfulltrúi og Rakel Óskarsdóttir, bæjarfulltrúi Akranesbæ, frá reynslu sveitarfélga sinna af móttöku flóttafólks og Gry Annette Rekanes Amundsen, frá Nome í Noregi, sagði frá reynslu norskra sveitarfélaga.   

Þess má geta að 25. nóvemer sl. undirrituðu Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogsbæjar, Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Akureyrarkaupstaðar og Haraldur Líndal Haraldsson bæjarstjóri Hafnarfjarðarkaupstaðar, samninga um móttöku 55 sýrlenskra flóttamanna sem væntanlegir eru til landsins í desember. Undirbúningur móttöku flóttafólksins hefur verið í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNCHR) en hópurinn samanstendur af tíu fjölskyldum; 20 fullorðnum einstaklingum og 35 börnum og dvelur fólkið allt í flóttamannabúðum í Líbanon. Af hópnum munu 23 setjast að á Akureyri, 17 í Hafnarfirði og 15 í Kópavogi. Móttökuverkefnið tekur til tveggja ára í stað eins áður. Gert er ráð fyrir að greiðslur ríkisins til sveitarfélaganna á samningstímanum nemi samtals 173,4 milljónum króna.