10. fundur sveitarstjórnarvettvangs EFTA í Brussel

Fríverslunarsamningur ESB og Bandaríkjanna og græn störf á dagskrá

Sveitarstjórnarvettvangur EFTA fundaði í tíunda sinn í Brussel, 24.-25. nóvember sl. Vettvangurinn tók til starfa árið 2010 til að gæta hagsmuna sveitarstjórnarstigsins í EES EFTA ríkjunum gagnvart ESB. Í honum eiga sæti allt að sex kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstigi frá Noregi og Íslandi og tveir áheyrnarfulltrúar frá Sviss. Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og landshlutasamtök sveitarfélaga tilnefna fulltrúa af hálfu Íslands.

Helstu viðfangsefni vettvangsins að þessu sinni voru mögulegur fríverslunarsamningur ESB og Bandaríkjanna og græn störf en vettvangurinn samþykkti ályktanir um þessi tvö mál. Vettvangurinn fjallaði einnig um helstu mál á döfinni hjá EFTA, Eftirlitsstofnun EFTA og nýtt Evrópuþing og nýja framkvæmdastjórn ESB.

Sveitarstjórnarvettvangur EFTA fundaði í tíunda sinn í Brussel, 24.-25. nóvember sl. Vettvangurinn tók til starfa árið 2010 til að gæta hagsmuna sveitar-stjórnarstigsins í EES EFTA ríkjunum gagnvart ESB. Í honum eiga sæti allt að sex kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstigi frá Noregi og Íslandi og tveir áheyrnarfulltrúar frá Sviss. Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og landshlutasamtök sveitarfélaga tilnefna fulltrúa af hálfu Íslands.

Helstu viðfangsefni vettvangsins að þessu sinni voru mögulegur fríverslunarsamningur ESB og Bandaríkjanna og græn störf en vettvangurinn samþykkti ályktanir um þessi tvö mál. Vettvangurinn fékk einnig kynningu á Eftirlitsstofnun EFTA og málum sem stofnunin hefur fengið til úrlausnar og tengjast sveitarfélögum. Helga Jónsdóttir fyrrverandi bæjarstjóri í Fjarðabyggð, sem er ein þriggja yfirstjórnenda stofnunarinnar, flutti kynninguna, ásamt samstarfsmanni sínum.

Fríverslunarsamningur ESB og Bandaríkjanna

Samningaviðræður um víðtækan fríverslunarsamning milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna (TTIP) standa nú yfir. Slíkur samningur gæti m.a. haft umtalsverð áhrif á innkaupamál sveitarfélaga og rekstrarform þjónustu þeirra. Markmið samningsins er að auðvelda gagnkvæman aðgang fyrirtækja samningsríkjanna að mörkuðum þeirra og hann myndi fela í sér samræmingu á regluverki ríkjanna. Talið er að hann geti haft í för með sér aukinn þrýsting á einkavæðingu almannaþjónustu, s.s.  vatnsveitu, fráveitu, úrgangsmála, almenningssamgangna, félagsþjónustu, heilbrigðis- og menningarmála.  Einnig er talið að hann gæti haft í för með sér breytingar á umhverfislöggjöf ESB, á reglum um neytendavernd og matvælaeftirlit. 

EES EFTA löndin verða ekki beinir aðilar að samningum en hann myndi óbeint hafa mikil áhrif á þau, vegna breytinga sem gera þyrfti á ESB löggjöf sem heyrir undir EES samninginn. Ennþá er langt í land með að samningur sé höfn en gagnrýnt hefur verið að samningsferlið sé ógagnsætt og að lýðræðislega kjörin stjórnvöld í aðilarríkjunum hafi ekki fengið nægjanlegar upplýsingar um stöðu samningaviðræðna, m.a. vegna þess að í Bandaríkjunum tíðkast meiri leynd í kringum svona samningaviðræður en í Evrópu. Fundarmenn hlýddu á kynningar Georges Baur, aðstoðarframkvæmdastjóra EFTA og Simonu Wolesa, forstöðumanns Brussel-skrifstofu austurríska sveitarfélagasambandsins um efnið og samþykktu í kjölfarið ályktun.

Í ályktun sveitarstjórnarvettvangsins, sem flutt var af Gry Anette Rekanes Amundsen, frá sveitarfélaginu Nome í Noregi, er markmiðum fyrirhugaðs fríverslunarsamnings um eflingu hagvaxtar og atvinnusköpun fagnað. Vettvangurinn lýsir ánægju með áform um að auðvelda litlum og meðalstórum fyrirtækjum aðgang að mörkuðum þvert á landamæri samnings-ríkjanna. Vakin er athygli á að samningurinn geti haft umtalsverð áhrif á sveitarfélög; mikilvægi aðkomu lýðræðislega kjörinna fulltrúa að viðræðunum er áréttað og að staðinn sé vörður um sjálfstæði og sjálfstjórn sveitarfélaga og gagnsæi sé tryggt. Það verði áfram að vera á forræði þjóðríkja og staðbundinna stjórnvalda að setja varúðarreglur og  reglur um hvernig staðið verði að veitingu almannaþjónustu og er í því sambandi vakin athygli á meginreglunni um sjálfsstjórn sveitarfélaga sem er viðurkenndur í sáttmálum ESB og Sveitarstjórnar-sáttmála Evrópuráðsins. Þannig verði t.d. að vera tryggt að sveitarfélög sem hafi úthýst þjónustu sinni hafi fullt forræði á því að hverfa aftur til þess að veita sjálf þjónustuna en þróunar í þá átt hefur gætt að undanförnu, einkum í Þýskalandi. Vettvangurinn leggur áherslu á að ekki verði slakað á  Evrópukröfum á sviði umhverfisverndar, neytenda- og vinnuréttar og kallar eftir því að reglur Alþjóðavinnumálastofnunarinnar verði lagðar til grundvallar í viðræðunum. Þá er tillögum um viðskiptagerðardóma, sem standa utan við hið almenna réttarkerfi,  mótmælt. Jafnframt er áréttað að tryggja verður jafnræði aðila; í dag eru 83% opinberra útboða í Evrópu aðgengileg bandarískum fyrirtækjum á meðan aðeins 32% bandarískra útboða eru opin evrópskum aðilum.


Græn störf og hringrásarhagkerfið

Auðlindir heimsins eru takmarkaðar og vaxandi áhersla er lögð á svokallað hringrásarhagkerfi þar sem einblínt er á að draga úr sóun auðlinda. Aukin áhersla á hringrásarhagkerfi getur hvort tveggja hlíft umhverfinu og stuðlað að hagvexti með sköpun nýrra grænna starfa. Evrópusambandið vinnur að því hörðum höndum að ná jafnvægi á milli nýtingar auðlinda og verndunar umhverfisins. Sambandið hefur sett sér metnaðarfull markmið um að draga úr gróðurhúsalofttegundum, auka orkuskilvirkni og efla endurnýjanlega orkugjafa ásamt því að minnka úrgang. Þetta hefur leitt til vaxtar í fjölbreyttum grænum störfum - störfum sem fela í sér nýsköpun til að vernda umhverfið eða færa það aftur í fyrra horf. Áætlun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins 2020 leggur áherslu á að vöxtur sé sjálfbær og að byggja upp hagkerfi sem notar lítið af kolefni og nýtir auðlindir með skilvirkum hætti. Til þess að aðstoða við að þetta verði að veruleika hefur Evrópusambandið sjálft sett sér markmið við að draga úr gróðurhúsagastegundum, auka hlutfall endurnýjanlega orkugjafa þegar kemur að því að uppfylla orkuþarfir Evrópu og auka orkuskilvirkni. Að ná þessum markmiðum mun leiða til örs vaxtar í „græna hagkerfinu“ - til dæmis er búist við því að markmiðið um að auka endurnýjanlega orku og orkuskilvirkni um 20% samanborið við árið 1990 leiði til 1 milljón nýrra starfa í Evrópusambandinu. Sólarorka, vindorka, lífmassatækni og endurvinnsla á úrgangi eru þau svið innan græna hagkerfisins þar sem vöxturinn er hvað mestur.

Græn störf eru tengd hreinni tækni eða stuðla að bættri umhverfisvitund og draga úr umhverfisáhrifum hefðbundinna starfa. Græn störf byggja á því að fjárfesta í aukinni framleiðni með betri nýtingu, t.d. orku og hráefna, og komast þannig hjá sóun á aðföngum og fjármagni. Áhersla er á skilvirkni framleiðsluferla, notagildi og skilvirkni í notkun, fjárfest er í lokuðum kerfum og búin eru til verðmæti úr úrgangi. Horft er til náttúrunnar sem byggir á hringrás og afurðir eins verða að aðföngum annars.

Fundarmenn hlýddu á kynningar Radosławs Owczarzak sérfræðings á skrifstofu atvinnumála hjá framkvæmdastjórn ESB og Satu Tietari fulltrúa Svæðanefndar ESB og samþykktu í kjölfarið ályktun um græn störf og hringrásarhagkerfið sem flutt var af Birni Blöndal.

Vettvangurinn fagnar áherslu ESB á hringrásarhagkerfið og vistvæna atvinnusköpun, og leggur áherslu á hlutverk sveitarfélaga í þessu samhengi  vegna skipulags-  og þróunarhlutverks þeirra, og vegna möguleika þeirra á að gera þjónustu sína græna, t.d. almenningssamgöngur, veitur,úrgangsmál og innkaup. Lögð er áhersla á að „græn störf“ séu skýrt skilgreind en það auðveldar samanburð og stefnumótun. Einnig er vakin athygli á hlutverki sveitarfélaga í vitundarvakningu meðal almennings og í skólakerfinu.  Mikilvægi samstarfs alla stjórnsýslustiga og einkageirans um vistvæna atvinnusköpun er áréttað en einnig er vakin athygli á hlutverki sveitarfélaga sem atvinnurekanda og áskoranir þær sem fólgnar eru í að þjálfa starfsfólk til vistvænna starfa og að halda í það. Einnig er lögð áhersla á að sveitarfélög eru ekki öll eins þegar kemur að framboði á vinnafli, auðlindum og innviðum og að gera verði ráð fyrir þessari fjölbreytni  og koma reynslu og fyrirmyndarverkefnum á framfæri. Loks kallar vettvangurinn eftir frekari stuðningi frá ESB og innanlands til vistvænnar atvinnusköpunar; fjárhagsstuðningi en einnig stuðningi til þekkingaruppbyggingar og samstarfs.

Ályktununum verður komið á framfæri við stjórnvöld EES-ríkjanna, stofnanir EFTA og Svæðanefndina.

Á fundinum var Eftirlitsstofnun EFTA einnig kynnt þar sem Helga Jónsdóttir og Gjermund Mathisen sögðu frá helstu málum á döfinni hjá stofnuninni sem snerta sveitarfélög. Atle Leikvoll sendiherra Noregs gagnvart ESB sagði fundarmönnum frá nýlegum breytingum á vettvangi ESB; nýju Evrópuþingi, nýrri framkvæmdastjórn o.fl. og Georges Baur, aðstoðarframkvæmdastjóri EFTA gaf yfirlit eftir helstu nýmæli hjá EFTA.