Horizon 2020; Rannsókna- og nýsköpunaráætlun ESB

horizon2020_0Horizon 2020 er rammaáætlun ESB fyrir rannsóknir og nýsköpun (Horizon 2020 - EU Framework Programme for Research and Innovation).

Horizon 2020 er langstærsta og umfangsmesta rannsóknaáætlun ESB hingað til. Áætlunin gildir 2014-2020 og er heildarfjármagn hennar nærri 80 milljarðar €.

Rannís hefur umsjón með Horizon 2020 á Íslandi. Í því felst umsjón með kynningu á áætluninni og aðstoð við umsækjendur, auk þess sem Rannís heldur utan um starf stjórnarnefndarfulltrúa og landstengla fyrir allar undiráætlanir.

Markmið Horizon 2020 er að styðja við rannsóknir og nýsköpun á öllum sviðum vísinda og fræða með það að markmiði að auka samkeppnishæfni Evrópu, skapa störf og stuðla að því að fleiri góðar hugmyndir komist á markað. Áætlunin endurspeglar grundvallarmarkmið stefnu ESB til 2020 um að styðja sjálfbæran hagvöxt í Evrópu. Horizon 2020 er máttarstólpi nýsköpunarsambandsins (e. Innovation Union) sem er eitt af sjö flaggskipum ESB.

Horizon 2020 sameinar undir einum hatti 7. rannsóknaáætlun ESB, nýsköpunarhluta samkeppnisáætlunar ESB (áður CIP) auk þess að fjármagna Evrópsku nýsköpunar- og tæknistofnunina (EIT).

Kynningarbæklingurinn Horizon 2020 - in brief til niðurhals hér.


Horizon 2020 skiptist í fimm meginstoðir, sem skiptast síðan í undiráætlanir eftir viðfangsefnum og fræðasviðum:

1. Öndvegisrannsóknir (e. Excellent Science)

Markmiðið er að stuðla að framúrskarandi rannsóknum í Evrópu með því að styðja bestu hugmyndirnar, veita evrópskum vísindamönnum tækifæri til að þróa hæfileika sína, byggja upp og styrkja rannsóknarinnviði á heimsmælikvarða og auka aðdráttarafl Evrópu sem valkost alþjóðlegra vísindamanna. Heildarfjármagn: 24 milljarðar €. Skiptist í eftirtaldar áætlanir:

 1.       Styrki Evrópska rannsóknaráðsins (ERC)
 2.       Stuðning við framtíðartækni
 3.       Styrki til þjálfunar, starfsþróunar og hreyfanleika ungs vísindafólks
        ( Marie Curie styrkir )
 4.       Stuðning við rannsóknarinnviði í Evrópu

2. Forysta í atvinnulífi (e. Industrial Leadership)

Markmiðið er að efla markaðsdrifnar rannsóknir og nýsköpun. Í þeim tilgangi skal stefnt að því að hraða tækniþróun til uppbyggingar framtíðarfyrirtækja, stuðla að frekari fjárfestingum í rannsóknum og nýsköpun og aðstoða lítil og meðalstór fyrirtæki við að verða leiðandi á alþjóðamarkaði. Heildarfjármagn: 17 milljarðar €.  Skiptist í:

 1. Forysta í tækniþróun
 2. Upplýsingatækni
 3. Örtækni, efnistækni, framleiðslutækni og líftækni
 4. Geimvísindi
 5. Nýsköpun í litlum og meðalstórum fyrirtækjum
 6. Aðgangur að áhættufjármagni

3. Samfélagsáskoranir (e. Societal Challenges)

Innan samfélagsáskorana eru sjö undiráætlanir sem munu styrkja rannsóknir með það að markmiði að auka þekkingu á mismunandi sviðum vísinda. Áhersla verður lögð á að koma niðurstöðum rannsókna á markað með stuðningi við tilraunaverkefni, opinber innkaup og markaðssetningu nýsköpunar. Heildarfjármagn: 29 milljarðar €. Skiptist í eftirtalin rannsóknasvið:

 1. Heilbrigði og lýðheilsa
 2. Fæðuöryggi, landbúnaður og sjávarrannsóknir
 3. Orka
 4. Samgöngur
 5. Umhverfi, loftlagsmál og auðlindir
 6. Evrópskt samfélag í breyttum heimi
 7. Öryggi og samfélag

4. Víðtækari þátttaka ( e. Spreading Excellence and Widening Participation)

Þörf er á að styrkja samstarf í löndum sem hingað til hafa tekið minni þátt í rammaáætlunum um rannsóknir og nýsköpun. Áætlunin miðar að því að leiða þátttakendur í þeim löndum saman við þátttakendur í löndum sem gengið hefur vel til að víkka út samstarfið og dreifa þekkingu sem víðast. Heildarfjármagn: 816 milljónir €.


5. Vísindi í þágu samfélagsins ( e. Science with and for Society)

Þátttaka ýmissa hagsmunaaðila skiptir máli í rannsóknum og nýsköpun. Mikilvægt er að hafa í huga að ábyrgð vísindamanna er mikil. Ábyrg vísindi er lykilorð hér. Verkefni sem stuðla að siðferði í vísindum, jafnrétti, bættir vísindamenntun og ábyrgri stjórnun rannsókna og nýsköpunar geta sótt um styrki. Heildarfjármagn: 462 milljónir €.


Að auki mun Horizon 2020 fjármagna Evrópsku nýsköpunar- og tæknistofnunina (EIT) sem mun hafa 2,7 milljarða € til umráða og Sameiginlegu rannsóknamiðstöðina (e. Joint Research Centre, JRC) sem mun velta 1.9 milljörðum €. Að síðustu veitir Horizon 2020 styrki til rannsókna í kjarnorkuvísindum, en Ísland er ekki aðili að þeim hluta áætlunarinnar.