17. jan. 2014

Opnað fyrir umsóknir í Menntaáætlun Evrópusambandsins

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í Erasmus+, veittir verða styrkir í þremur flokkum: vistaskipti, samstarf og stefnumótun

  • LLP-logo-islensk

Ný samstarfsáætlun ESB, sem sameinar mennta-, æskulýðs- og íþróttamál undir eitt hatt, tók gildi 1. janúar 2014 og stendur hún yfir í sjö ár. Á því tímabili renna tæplega 15 milljarðar evra til fjölbreyttra verkefna sem efla eiga menntun, þjálfun, æskulýðsstarf og íþróttaiðkun í Evrópu. Rannís hefur umsjón með áætluninni á Íslandi.

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í Erasmus+, veittir verða styrkir í þremur flokkum:

1. Vistaskipti (ferða- og uppihaldsstyrkir) — umsóknarfrestur 17. mars 2014

  • Nemendur í starfsmenntun og á háskólastigi (nám og þjálfun á vinnustað).
  • Starfsfólk leik-, grunn- og framhaldsskóla, stofnana og fyrirtækja til náms, þjálfunar og kennslustarfa.
  • Hópar ungmenna í ungmennaskiptum, EVS sjálfboðaliðar í langtímasjálfboðaliðastarf.
  • Starfsfólk í æskulýðsgeiranum.

2. Samstarfsverkefni (samstarf stofnana í a.m.k. tveimur/þremur löndum) — umsóknarfrestur 30. apríl 2014

  • Samstarf skóla, sí- og endurmenntunaraðila, æskulýðsfélaga, fyrirtækja, sveitarfélaga og hagsmunaaðila í menntun og þjálfun
  • Fjölþjóðleg frumkvæðisverkefni ungs fólks.
  • Nýsköpunar- og frumkvöðlaverkefni í samvinnu við atvinnulíf.

3. Stefnumótun á sviði menntunar og æskulýðsmála og samstarf við lönd utan Evrópu — umsóknarfrestur 30. apríl 2014

* Viðbótarumsóknarfrestir eru fyrir æskulýðshlutann. Í umsóknarkallinu (Call for Proposals) er að finna  ítarlegri upplýsingar um umsóknarfresti fyrir alla hluta áætlunarinnar.  Vakin er athygli á þeirri nýbreytni að í menntahluta Erasmus+ geta einungis lögaðilar sótt um styrki en ekki einstaklingar eins og áður var.