Sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins fjallar um stöðu íslenska sveitarstjórnarstigsins

Sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins er pólitískur samstarfsvettvangur evrópskra sveitarfélaga og svæða. Ísland á þrjá fulltrúa á þinginu sem stjórn sambandsins tilnefnir til fjögurra ára í senn. Þingið kemur saman tvisvar á ári, að vori og hausti í Evrópuráðshöllinni í Strassborg. Eitt af meginverkefnum þingsins er að hafa eftirlit með stöðu Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga. Á vorþingi ráðsins 2017, 28.-30. mars, var fjallað um skýrslu um stöðu íslenska sveitarstjórnarstigsins gagnvart Evrópusáttmálanum um sjálfsstjórn sveitarfélaga.

Niðurstöður skýrslunnar eru í megindráttum jákvæðar. Þó er vakin athygli á gráum svæðum á milli ríkis og sveitarfélaga, að endurskoða þurfi jöfnunarkerfið og ófullnægjandi fjárveitingum til að standa undir nýjum verkefnum og öðrum verkefnum en lögbundnum. Halldór Halldórsson formaður íslensku sendinefndarinnar tók undir niðurstöður skýrslunnar. Jón Gunnarsson ráðherra sveitarstjórnarmála lýsti í ræðu sinni yfir vilja til að ráðast gegn gráum svæðum og að fara yfir fjárhagsstöðu sveitarfélaga í ljósi ábendinga í skýrslunni í samvinnu við sambandið. Hann sagði einnig frá því að hann hefði kynnt fyrir landsþingi sambandsins hugmyndir um endurskoðun jöfnunarkerfisins í þá átt að betur megi styðja við sameiningar sveitarfélaga.