• inno_union_logo2

Nýsköpunarsambandinu – Innovation Union ýtt úr vör

Framkvæmdastjórn ESB hefur nú kynnt aðgerðaáætlun er nefnist Nýsköpunarsambandið (e. Innovation Union ), sem er ein af sjö aðgerðaráætlunum í stefnumörkun Evrópu til ársins 2020.

Framkvæmdastjórn ESB hefur nú kynnt aðgerðaáætlun er nefnist Nýsköpunarsambandið (e. Innovation Union ), sem er ein af sjö aðgerðaráætlunum (e. flagship initiatives) í stefnumörkun Evrópu  fyrir árið 2020 (e. Europe 2020 Strategy, EU2020). EU2020 byggir á hugvitsamlegum og sjálfbærum hagvexti fyrir alla (e. smart, sustainable and inclusive growth).

Nýsköpunarsambandinu er ætlað að breyta hugmyndum í störf, grænan hagvöxt og félagslegar framfarir. Hér hefur í fyrsta sinn verið mótuð samþætt heildarstefna um nýsköpun fyrir Evrópu. Markmiðið er að bæta aðbúnað og aðgengi að fjármunum fyrir rannsóknir og nýsköpun í Evrópu og tryggja að nýjar hugmyndir og nýjar vörur komist á markað og þar með aukist hagvöxtur og fleiri störf verði til.  

Nýsköpunarsambandinu
er ætlað að takast á við áskoranir er tengjast loftlagsbreytingum, orkumálum, fæðuöryggi og lýðheilsu. Með nýsköpun er ekki aðeins átt við tækni heldur einnig viðskiptahugmyndir, hönnun, vörumerkjaþróun,  þjónustu o.fl. Frumkvöðlastarf í atvinnulífi, jafnt sem í opinberri þjónustu, mun eiga kost á stuðningi í gegnum áætlunina.

Helstu stefnumið Nýsköpunarsambandsins eru:

  • Að gera Evrópu að rannsóknasamfélagi á heimsmælikvarða.
  • Að umbylta samvinnu opinberra aðila og einkageirans í gegnum Nýsköpunarsamvinnu (e. Innovation Partnerships t.d. á sviði öldrunarmála, vatnsverndar og “ smart cities”).
  • Að ryðja úr vegi hindrunum sem koma í veg fyrir að hugmyndir nái á skömmum tíma út á almennan markað.

Nýsköpunarsambandið felur í sér 32 áætlanir sem sumar hverjar eru útfærðar nánar í öðrum aðgerðaráætlunum sem heyra undir EU2020 stefnumörkunina. Mælanleg markmið hafa verið sett fram, s.s. 3% af VÞF skuli varið til rannsókna og nýsköpunar en lagt verður mat á framvindu áætlunarinnar á árlegri nýsköpunarráðstefnu (e. Innovation Convention).