• korn

Endurskoðun sameiginlegar landbúnaðarstefnu ESB stendur fyrir dyrum

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins birtir í næsta mánuði tillögur um endurskoðun landbúnaðarstefnu sambandsins frá 2013. Leggur stjórnin til að beinum stuðningi við bændur verði haldið áfram en sett verði þak á hæstu styrkina.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins birtir í næsta mánuði tillögur um endurskoðun landbúnaðarstefnu sambandsins frá 2013. Leggur stjórnin til að beinum stuðningi við bændur verði haldið áfram en sett verði þak á hæstu styrkina.

Takmörkun styrkja til bænda myndi gera það að verkum að landbúnaðarframleiðsla myndi takmarkast við fá svæði og minna samkeppnishæf svæði myndu þurfa að glíma við samdrátt og atgerfisflótta," segir í drögum að orðsendingu framkvæmdastjórnar ESB sem komist hafa í hámæli. „Þetta myndi leiða til aukins álags á umhverfið sem hefði alvarlegar efnahagslegar og félagslegar afleiðingar í för með sér," segir enn í drögunum en þetta sjónarmið mun líkast til ekki gleðja þá sem barist hafa fyrir mun markaðsmiðaðri stefnu fyrir næsta tímabil en umræða um framtíðarstefnu sambandsins hefur þegar valdið árekstrum. Skipting styrkja milli „nýrri“ og „eldri aðildarríkja“ er helsti ásteytingarsteinninn. Landbúnaðarráðherrar deildu um þetta í september en Frakkland og Þýskaland höfnuðu tillögu Póllands um styrkjagreiðslur á hektara.  Bændur í nýrri ESB ríkjum fá styrki á grundvelli bústærðar á meðan önnur fá styrki á grundvelli flókins kerfis sem byggir á fjölda búpenings og uppskeru í gegnum tíðina. Af þessu leiðir að „gömul“ aðildarríki eins og Grikkland geta fengið meira en 500 evrur á hektara á meðan Litháen fær minna en 100 evrur í sinn hlut og vill eðlilega að kerfið sé endurskoðað. Framkvæmdastjórnin viðurkennir þörf á endurskoðun styrkjakerfisins en virðist ekki sérlega hlynnt hugmyndum Póllands því nýtt kerfi verði að endurspegla þá staðreynd að aðstæður bænda í Evrópu eru afar mismunandi.  Orðsendingin leggur því til greiðslur til bænda sem eru mismunandi eftir löndum auk sérgreiðslna vegna umhverfisverndar.

Orðsendingin leggur einnig til takmörkun stærri beinna styrkja, m.a. vegna umræðna um „styrkjamilljónamæringa“ sem leitt hafa til neikvæðra viðhorfa almennings til landbúnaðarstefnunnar. Samkvæmt félagsamtökunum Farmsubsidy fengu á annað þúsund aðila styrki sem námu milljón evrum eða meira árið 2009.

Endurskoðun landbúnaðarstefnunnar er nátengd umræðu um fjárlög ESB fyrir næsta tímabil. Enda þótt breskir og hollenskir stjórnmálamenn vonist til að geta minnkað framlög landa sinna til sambandsins þá áætlar framkvæmdastjórnin að 55 milljörðum evra verði ráðstafað til að framkvæma stefnuna. Þetta eru um 40% heildarfjárlaga en framkvæmdastjórnin telur að fé sem veitt er til stefnunnar sé vel varið. 

Orðsendingin er fyrirrennari lagafrumvarps sem lagt verður fram í júlí 2011. Til þess að frumvarpið verði að lögum þurfa bæði Evrópuþingið og aðildarríkin að samþykkja það.   

Byggðaþróunarstefna ESB og sveitarfélög

Samkvæmt landbúnaðarstofnun ESB verða þrjú meginmarkmið nýrrar byggðaþróunarstefnu samkeppnishæfur landbúnaður, varðveisla náttúruauðlinda og byggðaþróun í dreifbýli (fjölbreytilegt hagkerfi og þróun staðbundinnar grunngerðar). Landbúnaðarstofnunin leggur áherslu á að stefnan tengist náið Evrópu 2020, að uppbyggingu dreifbýlissjóðsins verði breytt og aukin samræming verði við aðrar áætlanir og sjóði sambandsins. Í júní sendu Evrópusamtök sveitarfélaga - sem Samband íslenskra sveitarfélaga á aðild að - ESB stefnuplagg um framtíð byggðaþróunarstefnunnar sem er einn hluti landbúnaðarstefnu ESB. Samtökin leggja m.a. áherslu á að sveitarstjórnarstigið, sem framkvæmdaraðili, skuli hafa grundvallaráhrif á mótun nýrrar stefnu og framkvæmd hennar. Framtíðarstefnan verði að leggja minni áherslu á landbúnað - taka heildstætt á byggðaþróun - og miða að sjálfbærri félagslegri og efnahagslegri byggðaþróun þar sem einkageirinn, sveitarfélög og ríkið starfi saman. Þá sé brýnt að umsýsla sjóða og framkvæmd verkefna sé einfölduð til muna því óhóflegt skrifræði komi í veg fyrir að fé sé nýtt á sem hagkvæmastan máta.

Um sameiginlega landbúnaðarstefnu ESB

Landbúnaðarstefna ESB hefur löngum verið umdeild en sameiginlegur innri markaður, sameiginlegur ytri tollur og sameiginleg fjármögnun liggja henni til grundvallar. Stefnan gerir það verkum að flytja má landbúnaðarvörur óhindrað innan ESB án þess að á þær séu lagðir tollar og önnur gjöld og án niðurgreiðslna. Heimilt að styrkja landbúnað með sértækum aðgerðum ef framkvæmdastjórn ESB metur það svo að stuðningurinn hafi ekki samkeppnishamlandi áhrif og né brjóti í bága við reglur innri markaðarins. Markaðnum er þó stýrt að ákveðnu marki þar sem ESB tryggir lágmarksverð á flestum landbúnaðarvörum. Ytri tollur á tilteknar innfluttar landbúnaðarafurðir gerir það að verkum að evrópskur landbúnaður er verndaður fyrir samkeppni frá löndum utan ESB. Stefnan er  fjármögnuð sameiginlega af öllum aðildarríkjum ES. Skiptar skoðanir eru um það hversu stór hluti útgjalda ESB skuli fara til landbúnaðar en á síðustu árum hefur rétt undir 50% útgjalda sambandsins verið til þessa málaflokks. Ríki eins og Bretland og Þýskaland, sem borga mun meira til stefnunnar en þau fá til baka í formi styrkja, eru hlynnt takmörkun útgjalda til landbúnaðar, á meðan t.d. Frakkar, sem stunda mikinn landbúnað,  eru helstu stuðningsmenn hennar.