• accounts

Endurskoðun innkaupareglna Evrópusambandsins

Endurskoðun innkaupareglna ESB er ein tólf forgangsaðgerða sem settar eru fram í áætlun um endurskoðun innri markaðarins sem samþykkt var á síðasta ári.  Opinber innkaup telja um 18% af vergri landsframleiðslu ESB en tilgangur innkaupareglnanna er að tryggja jafnræði fyrirtækja á EES-svæðinu, stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri með virkri samkeppni og efla nýsköpun og þróun við innkaup hins opinbera á vörum, verkum og þjónustu.

Endurskoðun innkaupareglna ESB er ein tólf forgangsaðgerða sem settar eru fram í áætlun um endurskoðun innri markaðarins sem samþykkt var á síðasta ári.  Opinber innkaup telja um 18% af vergri landsframleiðslu ESB en tilgangur innkaupareglnanna er að tryggja jafnræði fyrirtækja á EES-svæðinu, stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri með virkri samkeppni og efla nýsköpun og þróun við innkaup hins opinbera á vörum, verkum og þjónustu. Núgildandi innkaupareglur, aðallega tilskipanir 2004/17/EB og 2004/18/EB, skylda opinbera aðila á EES-svæðinu til þess að bjóða út vöru- og þjónustukaup og framkvæmdir sem ná tiltekinni lágmarksupphæð og kveða á um hvernig standa ber að útboðum, samningsgerð o.fl. Hafa verður í huga að á Íslandi eru verkefni sveitarfélaga sjaldnast nægjanlega stór til þess að þau veki áhuga þjónustuaðila í öðrum löndum. Á hinn bóginn hefur komið fram greinileg tilhneiging við innleiðingu EES-gerða hér á landi að ganga lengra en texti tilskipana gerir ráð fyrir hvað varðar opinber innkaup.

Drög að endurkoðuðum innkaupareglum kynnt

Í lok síðasta árs kynnti framkvæmdastjórnin dög að endurskoðum innkaupareglum sem ætlað er að einfalda kerfið og gera það sveigjanlegra. Framkvæmdastjórnin leggur m.a. til:

  • að auka svigrúm opinberra aðila til að gera samninga um  kaup á vörum og þjónustu sem henta þörfum þeirra á besta verðinu;
  • aukna notkun rafrænna innkaupa – og almenna notkun í framtíðinni – sem grundvallarforsendu til einföldunar útboðsferla;
  • að dregið verði umtalsvert úr skrifræðiskröfum, til mikillar einföldunar fyrir atvinnulífið og ákvæði til að auka aðgengi lítilla og meðalstórra fyrirtækja að opinberum innkaupasamningum;
  • ákvæði sem miða að því að bæta verklag og koma í veg fyrir spillingu, hagsmunárekstra o.þ.u.l;
  • að sett verði á fót sérstakt stjórnvald  í hverju landi sem hafi með höndum eftirlit og framkvæmd til að tryggja að reglum um opinber innkaup sé fylgt í reynd.

Þá er ætlunin að greiða fyrir „samfélagslega ábyrgri innkaupastefnu“ þ.e. að aukið tillit sé tekið til félags- og umhverfismála í innkaupum; og hugað sé að nýta opinber innkaup, þegar það er mögulegt, sem verkfæri til að stuðla að umhverfivernd og bæta hag samfélagshópa sem eiga undir högg að sækja. Almennt er markmið endurskoðunarinnar að tryggja gagnsæi, jafnt aðgengi og aukna samkeppni um opinberra samninga en einnig er lögð mikil áhersla á þátt innkaupastefnu í að ná markmiðum Evrópu2020-áætlunarinnar. Evrópusamtök sveitarfélaga tóku þátt í umsagnarferlinu sem var undanfari tillagnanna.

Endurskoðaðar innkaupareglur eru nú til umræðu hjá Ráðherraráðinu og í Evrópuþinginu en gert er ráð fyrir að löggjöfin verði samþykkt fyrir árslok 2012.

Hagsmunir íslenskra sveitarfélaga

Evrópulöggjöf um opinber innkaup er tekin upp í íslensk lög á grundvelli EES-samningsins. Íslensk og norsk sveitarfélög hafa sérstakra hagsmuna að gæta vegna evrópskra innkaupareglna vegna fjölda fámennra og strjálbýlla sveitarfélaga, sem búa sum við erfiðar samgöngur. Því var endurskoðun innkaupareglna til umræðu á þriðja fundi sveitarstjórnarvettvangs EFTA og samþykkt ályktun þar að lútandi. Sjá nánari umfjöllun um efnið í skýrslu Brussel-skrifstofu, fyrri hluti 2011. Evrópsk sveitarfélög og héruð hafa gagnrýnt evrópskar innkaupareglur fyrir að vera of ósveigjanlegar og fela í sér of mikla og dýra skriffinnsku. Þau telja mörg hver að ekki sé nógu langt gengið í tillögum framkvæmdastjórnarinnar. Danska sveitarfélagasambandið hefur lagt áherslu á að danska ríkisstjórnin beit sér fyrir umbótum á löggjöfinni í formennskutíð sinni.  

Rafræn innkaup

Í tenglsum við endurskoðun innkaupareglna hefur framkvæmdastjórnin beintsjónum að rafrænum innkaupum sem hún telur til þess fallin að spara, auka skilvirkni, bæta stjórnsýslu og styrkja markaðinn fyrir samninga hins opinbera. Í kjölfar samráðs um grænbók um aukin rafræn innkaup hefur framkvæmdastjórnin kynnt ýmsar aðgerðir sem miða að því að auka rafræn innkaup á EES-svæðinu. Meðal þess sem liggur fyrir:

  • stofnun sérfræðingateymis til að fjalla um rafræn útboð. Teymið mun gera tillögur að sam-evrópsku útboðskerfi fyrir árslok 2012;
  • framkvæmdastjórnin mun hefja rannsókn á rafrænum innkaupum í aðildarríkjum með það að markmiði að greina og kynna góða starfshætti;
  • niðurstöður samráðsferlisins um grænbókina verða greindar ítarlega en samráðið leiddi m.a. í ljós almennan stuðning við tillögur framkvæmdastjórnarinnar um að gera rafræn innkaup skyldubundin í ESB.

Markmið tillagna framkvæmdastjórnarinnar er að stuðla að því að rafræn innkaup verði electronicalmenn og gera birgjum kleift að taka þátt í útboðum á innri markaðnum öllum. Ljóst er að rafræn innkaup bjóða upp á mikla hagræðingarmöguleika, ekki aðeins með því að  draga úr pappírsfargani heldur geta þau hraðað og einfaldað innkaupaferla, til hagsbóta fyrir kaupendur, birgja og skattgreiðendur. Deutsche Bank áætlar að 50-70 milljarðar evra geti sparast með því að gera opinber innkaup í ESB alfarið rafræn.

Vert er að vekja athygli á PEPPOL-verkefninu (Public e-Procurement On Line), tilraunaverkefni sem ætlað er að stuðla að auknum rafrænum innkaupum milli ríkja á EES-svæðinu. Íslensk sveitarfélög geta tekið þátt í verkefninu. Öll Norðurlöndin fyrir utan Ísland eru formlegir aðilar að verkefninu.