• rusl

Úrgangsmál á döfinni hjá Evrópusambandinu

Úrgangsreglur Evrópusambandsins eru hluti af EES-samningnum og því ber Íslandi að innleiða tilskipanir ESB þegar þær hafa verið teknar inn í samninginn. Meðhöndlun úrgangs er að stórum hluta á ábyrgð sveitarfélaga og því er brýnt að fylgjast vel með úrgangsmálum á döfinni hjá ESB.

Úrgangsreglur Evrópusambandsins eru hluti af EES-samningnum og því ber Íslandi að innleiða tilskipanir ESB þegar þær hafa verið teknar inn í samninginn. Meðhöndlun úrgangs er að stórum hluta á ábyrgð sveitarfélaga og því er brýnt að fylgjast vel með úrgangsmálum á döfinni hjá ESB.

Innleiðing rammatilskipunar um meðhöndlun úrgangs

rammatilskipun Evrópusambandsins um úrgang tók gildi 12. desember 2008 (2008/98/EB). Tilskipunin leysir af hólmi þrjár eldri tilskipanir um úrgang, spilliefni og olíuúrgang. Áhersla í nýrri tilskipun er meðal annars á að styrkja aðgerðir til að minnka úrgagnsmyndun og innleiða lífferilshugsun. Markmiðið er að vernda umhverfi og heilsu með því að minnka neikvæð áhrif úrgangsmeðhöndlunar ásamt því að minnka heildaráhrif auðlindanotkunar og auka hagkvæmni.

Aðildarríkjum ESB bar að innleiða tilskipunina fyrir 12. desember 2010 en framkvæmdastjórnin hefur nú sent átta ríkjum sem enn hafa ekki lokið innleiðingu áminningu en ríki eiga m.a. yfir höfði sér sektir innleiði þau ekki tilskipunina innan tilskilins frests. Aðildarríki glíma við ýmis álitamál við innleiðinguna, t.d. að því er varðar túlkun ákvæða.  Dæmi um þetta er 2. mgr. 11. gr. um  50% markmið um endurnotkun og endurvinnslu pappírs, plasts, málma og glers frá heimilum fyrir 2020 og 70%  endurnotkun og endurvinnslu C&D úrgangs og ákvæði viðauka II um lágmarksorkunýtni í brennslustöðvum.

Á grundvelli skýrslna aðildarríkja, sem skila ber árið 2014, mun framkvæmdastjórnin leggja mat framkvæmd tilskipunarinnar og leggja til breytingar á henni ef þörf er á. Endurvinnslumarkmið gætu þannig t.d. verið endurskoðuð eftir 2014. 

Gert er ráð fyrir að tilskipunin verði tekin inn í EES-samninginn í haust og verður hún þá innleidd á Íslandi í samræmi við reglur samningsins.

Endurskoðun tilskipunar um raftækjaúrgang

tvAðeins um þriðjungur raftækjaúrgangs (33%) er meðhöndlaður í Evrópu og tilkynntur í samræmi við lög. Meira en helmingur (54%) er meðhöndlaður á annan máta – innan eða utan ESB – sem samræmist ekki reglum Evrópusambandsins. Það sem eftir stendur (13%) er urðað. Ólögleg viðskipti með raftækjaúrgang til landa utan ESB eru enn mikil. Því er ljóst að sé miðað við núverandi söfnunar- og endurvinnsluhlutfall þá verður markmiðum núgildandi tilskipunarinnar á sviði lýðheilsu og umhverfisverndar ekki náð á næstunni. Þá hefur ólík útfærsla á ákvæðum um framleiðendaábyrgð leitt til mjög mismunandi kerfa á söfnun og endurnýtingu á þessum úrgangi í löndum ESB.

Til að bregðast við þessum vanda er tilskipun um raftækjaúrgang nú til endurskoðunar hjá ESB. Ýmis álitamál eru til skoðunar, t.d. tillögur um frekari afmörkun þess hvaða vörur falla undir tilskipunina, samræmda skráningu, markmið um að auka sérsöfnun á raf- og rafeindatækjaúrgangi úr 45% í 65% árið 2016, o.fl. Mörg þessara atriða er umdeild hjá aðildarríkjunum, t.d. er aukið söfnunarmarkmið talið vera óraunhæft fyrir nýjustu aðildarríki ESB, sem hafa þess vegna lýst andstöðu sinni við þessa aukningu. Þá eru sum aðildarríki einnig mótfallin framleiðendaábyrgðinni. Sveitarstjórnarmenn á Íslandi og í Noregi, sem og CEMR og MWE, leggja mikla áherslu á fulla framleiðendaábyrgð, þ.e. að framleiðendur/innflytjendur beri fjárhags- og framkvæmdalega ábyrgð á allri meðhöndlun raftækjaúrgangs sem skila má án endurgjalds á söfnunarstöðvar sveitarfélaga, frá söfnun til endurnýtingar og svo til förgunar. Lesa má frekar um þetta mál hér.

Fyrstu umræðu um endurskoðun tilskipunarinnar um rafrænan úrgang(tillaga frá 2008) er nú lokið en Evrópuþingið ályktaði um frumvarpið 3. febrúar sl. Ráðherraráðið komst svo að samkomulagi um efnið 14. mars 2011.  12. grein ályktunar þingsins, um framleiðendaábyrgð, byggir á tillögum frá Evrópusamtökum sveitarfélaga (CEMR) sem Samband íslenskra sveitarfélaga á aðild að. Sveitarfélög telja þó að ganga eigi lengra, þ.e. að tryggja eigi að  framleiðendaábyrgð sé skyldubundin og að kostnaður við söfnun og geymslu falli ávallt á framleiðendur. Önnur umræða um endurskoðunina er nú að hefjast en CEMR mun leita leiða til að koma breytingartillögum sem miða að aukinni framleiðendaábyrgð við Evrópuþingið. Gert er ráð fyrir að þingið og framkvæmdastjórnin semji um tilskipunina á haustmánuðum og að hún verði samþykkt af þinginu 30. nóvember 2011. 

Meðhöndlun lífræns úrgangs í framtíðinni

Undanfarið hefur endurvinnsla lífræns úrgangs verið mikið til umræðu á vettvangi ESB en hér er átt við lífrænan úrgang frá heimilum og sambærilegan úrgang úr rekstri, svo sem matarleifar og garðaúrgang. Pappír, timbur og álíka telst þó ekki til lífræns úrgangs í þessum skilningi  heldur teljast til lífræns niðurbrjótanlegs úrgangs. Munurinn á þessu tvennu er að verða mikilvægur vegna þeirrar umræðu um sérstaka meðhöndlun lífræns úrgangs sem nú fer fram á vettvangi ESB. Framkvæmdastjórnin gaf út grænbók um lífrænan úrgangí desember 2008 til að örva umræðu og ákvarðanatöku um hvort sértækt regluverk um þennan úrgang sé æskilegt. Framkvæmdastjórnin og Evrópuþingið deila um það hvort þörf sé á nýrri löggjöf til að tryggja viðunandi vinnslu lífræns úrgangs. Framkvæmdastjórnin telur ekki að þörf sé á frekari löggjöf á meðan Evrópuþingið er á annarri skoðun og telur nauðsynlegt að setja sérstaka tilskipun til að auka endurvinnslu lífræns úrgangs.

Í orðsendingu sem birt var í maí 2010 leggur framkvæmdastjórnin til úrbætur og forgangsverkefni en áréttar að hún telji ekki þörf á frekari stefnumótun á vettvangi ESB til að tryggja að aðildarríki geti gripið til viðeigandi ráðstafana til að bæta meðhöndlun á lífrænum úrgangi. Framkvæmdastjórnin telur að frekari rannsókna sé þörf, sérstaklega með vísan til nálægðarreglunnar, áður en hún leggur til bindandi markmið um meðferð lífræns úrgangs. Af þeim sökum óskaði framkvæmdastjórnin í desember-janúar 2011 eftir upplýsingum frá hagsmunaaðilum um það hvort þeir telji bindandi markmið um endurvinnslu lífræns úrgangs æskileg. Hagsmunaðilar eru ekki sammála um markmiðin en margar skoðanir eru uppi um hvernig þau gætu verið úr garði gerð. Deilt er m.a. um það hvort æskilegt sá að setja eitt eða fleiri markmið, aðlögunartímabil fyrir „mjúk“ markmið áður en bindandi markmið yrðu sett, möguleika á því að velja milli markmiða, o.fl. Ráðgjafi framkvæmdastjórnarinnar leggur til að sett verði mismunandi landsmarkmið sem tryggi sveigjanleika fyrir sveitarfélög til að laga þau að aðstæðum á hverjum stað. Rannsókn á endurvinnslumarkmiðum og mat á áhrifum þeirra er í farvatninu hjá framkvæmdastjórninni en ákvörðun um markmið í endurvinnslu lífræns úrgangs verður tekin samhliða endurskoðun rammatilskipunar um úrgang árið 2014.

Sveitarstjórnarvettvangur EFTA ályktaði um endurvinnslu lífræns úrgangs á öðrum fundi sínum í nóvember sl. Þar eru sjónarmið framkvæmdastjórnar ESB áréttuð, þ.e. að núgildandi löggjöf sé fullnægjandi; aðeins þurfi að tryggja bætta framfylgd hennar. Á Íslandi mun meðhöndlun lífrænt niðurbrjótanlegs úrgangs vera þungamiðja nýframkvæmda enda munu brátt gerðar auknar kröfur um endurnýtingu þessa úrgangs. Verið er að ræða stjórnsýslu endurnýtingu lífræns úrgangs þar sem málið heyrir bæði undir umhverfisráðuneytið og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Verkaskipting milli þeirra er óljós og hafa sveitarfélög farið fram á skýrar og sameiginlegar reglur sem gilda um meðhöndlun lífræns úrgangs. Lesa má nánar um þetta mál hér.