• EYVCmyk-EN

2011 - Evrópuár sjálfboðaliðastarfs

Ár hvert tilnefnir ESB þema sem lögð er sérstök áhersla á í evrópsku samstarfi. Framkvæmdastjórn ESB telur sjálfboðaliðstarf mikilvægan hluta borgaralegrar þátttöku og til þess fallið að styrkja samevrópsk gildi s.s. samstöðu og félagslega samheldni.

Löng hefð er fyrir sjálfboðaliðastarfi Evrópu. Sjálfboðastarf af ýmsu tagi styrkir samfélagið og velferðarmál með fjölbreyttum hætti og léttir þannig á hlutverki hins opinbera. Milljónir Evrópubúa eru virkir í sjálfboðavinnu en rannsóknir á Íslandi gefa til kynna að um 40% landsmanna sinni sjálfboðaliðastarfi af einhverju tagi. Fólk á öllum aldri gefur frítíma sinn æskulýðsfélögum, umhverfissamtökum, mannúðarsamtökum, sjúkrahúsum, skólum, íþróttafélögum, o.fl. Sjálfboðaliðastarf gegnir mikilvægu hlutverki á öllum sviðum mannlífsins en rauði þráðurinn er að hvar sem fólk tekur höndum saman til að hjálpa hvert öðru og styðja þá sem minna mega sín, þá hagnast þjóðfélagið í heild sinni en einnig sjálfboðaliðarnir sem öðlast þekkingu og tengslanet sem getur oft leitt til nýrra eða betri atvinnutækifæra og persónulegs og félagslegs þroska.

Evrópuári sjálfboðaliðastarfs er ætlað að vekja athygli á starfi sjálfboðaliða, hvetja fleiri til sjálfboðavinnu og bregðast við vanda sem sjálfboðaliðar glíma við. Evrópuárið hefur fjögur meginmarkmið, að:

  • Ryðja úr vegi hindrunum sem standa í vegi fyrir auknu sjálfboðaliðastarfi í Evrópu;

  • Styrkja samtök sjálfboðaliða og auka gæði sjálfboðaliðastarfs;

  • Verðlauna og veita sjálfboðaliðum viðurkenningu fyrir mikilvægt framlag þeirra til samfélagsins;

  • Auka skilning á gildi og mikilvægi sjálfboðaliðastarfs fyrir samfélagið allt.

Framkvæmdastjórn ESB hvetur evrópsk sjálfboðaliðasamtök og stjórnvöld til að skiptast á upplýsingum um fyrirmyndarverkefni til þess að markmiðum Evrópuársins verði náð. Áhersla verður lögð á þjálfun sjálfboðaliða, faggildingu og gæðastjórnun sjálfboðaliðastarfs og þróun skilvirkra aðferða til að leiða saman þá sem hyggja á sjálfboðaliðastarf og stofnanir og samtök sem þarfnast sjálfboðaliða. Framkvæmdastjórnin mun einnig ýta af stokkunum átaksverkefni til að hvetja til sjálfboðaliðastarfs milli landa og samstarfs sjálfboðaliðasamtaka við aðra geira, einkum atvinnulífið.

Af viðburðum og verkefnum ársins má nefna :

  • EYV2011 Tour þar sem sjálfboðaliðar ferðast um Evrópu og kynna starf sitt almenningi og stjórnvöldum.
  • EYV Relay: Sjálfboðaliðar úr röðum fjölmiðlafólks munu fylgjast með 54 sjálfboðaliðasamtökum og vinna fréttir um starf þeirra til birtingar í ljósvaka- og prentmiðlum. Í lok ársins verður svo unnin heimildamynd um Evrópuárið úr þessu efni.
  • Fjórar ráðstefnur um sjálfboðaliðastarf.

Þá mun framkvæmdastjórnin beina sjónum að sjálfboðastarfi ungs fólks; European Voluntary Service styður þúsundir ungmenna til að taka þátt í sjálfboðaliðastarfi á erlendri grund.

Framkvæmd verkefna Evrópuársins er í nánu samstarfi við helstu sjálfboðaliðasamtök í Evrópu, Evrópuráðið og Sameinuðu þjóðirnar.

Nánari upplýsingar fást á heimasíðu Evrópuársins.