Evrópuvika svæða og borga (OPEN DAYS) verður 9.-12. október nk. Skráning er hafin

Stærsti árlegi viðburður sveitarstjórnarmanna í Evrópu, Evrópuvika svæða og borga (OPEN DAYS) fer fram í Brussel dagana 9.-12. október nk.  Fulltrúar íslenskra sveitarfélaga geta tekið þátt.

Stærsti árlegi viðburður sveitarstjórnarmanna í Evrópu, Evrópuvika svæða og borga (OPEN DAYS), fer fram í Brussel dagana 9.-12. október nk.  Það eru Svæðanefnd (Committee of the Regions) og byggðadeild (DG Regio) Evrópusambandsins sem standa fyrir viðburðinum en hann er nú haldinn í fimmtánda sinn.

Yfirskriftin í ár er „Svæði og borgir vinna að bjartri framtíð“. Borgir, svæði, sveitarfélög, atvinnulífið, alþjóðastofnanir og háskólasamfélagið standa að rúmlega 130 viðburðum um  undirþemun þrjú: þekkingaruppbyggingu, leiðir til að takast á við áskoranir og borgir og svæði sem burðarása í breytingastjórnun.

Í september, október og nóvember verða svo haldin hundruð viðburða um alla álfuna undir yfirskrift Evrópuvikunnar. Innlendar stofnanir og samtök, s.s. svæði, sveitarfélög, umsjónaraðilar uppbyggingarsjóða, atvinnuþróunarfélög, samtök atvinnulífs og háskólar eru hvött til að taka þátt og til að leggja skipuleggjendum Evrópuvikunnar til hugmyndir að viðburðum.

Skráning á málstofur stendur til 29. september en þeir sem hafa áhuga á að sækja Evrópuvikuna eru hvattir til að skrá sig sem fyrst þar sem reynsla undanfarinna ára sýnir að viðburðir fyllast fljótt. 

Guðrún Dögg Guðmundsdóttir, forstöðumaður Brusselskrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga, veitir nánari upplýsingar.