Hlutverk sambandsins

Samband íslenskra sveitarfélaga vinnur að eflingu íslenskra sveitarfélaga og að hvers konar hagsmunamálum þeirra. Verulegur hluti starfseminnar felst í hagsmunagæslu fyrir sveitarfélögin gagnvart ríkisvaldinu og öðrum innlendum og erlendum aðilum. Sambandið mótar stefnu sveitarfélaganna til einstakra mála og hefur því náin samskipti við ríkisstjórn og Alþingi. Í sveitarstjórnarlögum er Samband íslenskra sveitarfélaga viðurkennt sem sameiginlegur málsvari sveitarfélaganna og í gildi er sérstakur samstarfssáttmáli við ríkisstjórn Íslands, þar sem með formlegum hætti er kveðið á um samskipti þessara tveggja stjórnvalda.

Í lögum Sambands íslenskra sveitarfélaga er tilgangi þess skipt upp í fimm meginþætti, sem eru:

  • Að vera sameiginlegur málsvari sveitarfélaganna í landinu og vinna að sameiginlegum hagsmunamálum þeirra og samstarfi.
  • Að þjóna sveitarfélögum á sviði vinnumarkaðsmála, annast kjarasamningsgerð og hafa fyrirsvar í kjaramálum fyrir þau sveitarfélög sem veita umboð sitt til þess, hafa frumkvæði að rannsóknum og sinna upplýsingagjöf, eftir því sem við á.
  • Að vera fulltrúi íslenskra sveitarfélaga gagnvart ríkisvaldinu og öðrum innlendum aðilum, eftir því sem við á.
  • Að vera fulltrúi íslenskra sveitarfélaga gagnvart erlendum samtökum um sveitarstjórnarmál, alþjóðastofnunum og öðrum þeim aðilum erlendis, er láta sig sveitarstjórnarmálefni skipta.
  • Að vinna að almennri fræðslu um sveitarstjórnarmál með ráðstefnu-, námskeiða- og fundahaldi og útgáfu- og upplýsingastarfsemi fyrir sveitarstjórnarmenn og starfsmenn sveitarfélaga.