21. mar. 2017

Tvö ný frumvörp frá ráðherra sveitarstjórnarmála

Athygli sveitarfélaga er vakin á því að ráðherra sveitarstjórnarmála hefur lagt fram á Alþingi tvö ný frumvörp.

Frumvarpið felur í sér heimild til sveitarstjórna til að setja reglur um notkun stöðureita og gjaldtöku fyrir hana á landi í umráðum hennar, þar með talið á þjóðlendum innan marka sveitarfélagsins. Gjaldinu er ætlað að standa straum af kostnaði við gerð, viðhaldi og rekstri bílastæða eða bifreiðageymslna, þ.m.t. launum bílastæðavarða. Einnig fellur undir gjaldtökuheimildina kostnaður við uppbyggingu, viðhald og rekstur á þjónustu í tengslum við bílastæði, svo sem salernisaðstöðu, göngustígum og tengingu við önnur samgöngumannvirki.

Lagasetningin ætti að nýtast vel þeim sveitarfélögum sem fara með umsjá ferðamannastaða víða um land og auka möguleika þeirra til þess að hraða uppbyggingu á þeim. Frumvarpið er í öllum meginatriðum í góðu samræmi við ábendingar sem fram koma í skýrslu starfshóps sambandsins um leiðir til að auka tekjur sveitarfélaga af ferðamönnum.

Vert er að hafa í huga að reglur um notkun stöðureita þurfa samþykki lögreglustjóra í viðkomandi umdæmi. Reglur um notkun stöðureita í þjónlendum skulu samþykktar af ráðherra sem fer með málefni þjóðlendna.

Tilgangur frumvarpsins er að vega á móti þeim áhrifum sem lög nr. 40/2014, um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar, hafa haft á útsvarstekjur sveitarfélaga. Er það gert með því að úthluta sérstöku framlagi úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem samsvarar þeim auknu tekjum sem fallið hafa til sjóðsins vegna svonefnds bankaskatts, frá miðju ári 2014 til ársloka 2016, eða sem nemur 1,3 milljörðum króna. Miðað er við að þessum fjármunum verði skipt milli sveitarfélaga í réttu hlutfalli við hlutdeild þeirra í álögðu útsvari áranna 2013, 2014 og 2015. Verði frumvarpið að lögum setur ráðherra í reglugerð nánari ákvæði um fyrirkomulag greiðslna og uppgjör á hinu sérstaka framlagi, að fenginni umsögn ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.