14. ágú. 2014

Umsögn um fyrstu áfangaskýrslu stjórnarskrárnefndar

  • Althingi_300x300p

Sambandið hefur sent forsætisráðuneytinu umsögn um fyrstu áfangaskýrslu stjórnarskrárnefndar sem birt var í júní sl.

Lögfræðingar Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa á undanförnum árum lagt umtalsverða vinnu í að koma á framfæri sjónarmiðum og áherslum sveitarfélaga í tengslum við störf stjórnlagaráðs og umfjöllun á Alþingi um frumvarp til stjórnskipunarlaga.

Þótt í áfangaskýrslu stjórnarskrárnefndar sem skipuð var í nóvember 2013 sé einungis óbeint fjallað um málefni sem snúa að sveitarfélögum þykir sambandinu rétt að koma á framfæri við nefndina ábendingum sem annars vegar snúa að umfjöllunarefnum í áfangaskýrslunni og hins vegar að hugmyndum nefndarinnar um næstu umfjöllunarefni.

Í umsögninni er leitast við að lýsa afstöðu til sumra þeirra spurninga sem settar eru fram í áfangaskýrslunni. Jafnframt er athygli nefndarinnar vakin á því að þörf sé á ítarlegri ákvæðum í stjórnarskrá um stöðu og hlutverk sveitarfélaga og er í umsögninni vísað til tillagna stjórnlagaráðs um nýjan kafla í stjórnarskrá sem fjalla myndi um sveitarstjórnarstigið. Almennt er áréttuð sú afstaða að sá annmarki hafi verið á tillögum stjórnlagaráðs tillagna um ákvæði mannréttindakafla frv. til stjórnskipunarlaga að þær hafi að geyma of ítarleg og jafnframt of óljós efnisákvæði,í stað þess að setja fram skýr og hnitmiðuð markmiðsákvæði.

Loks leggur sambandið áherslu á að hugsanlegar breytingar á stjórnarskránni, sem haft geta áhrif á sveitarfélögin, verði kostnaðarmetnar í samræmi við 129. gr. sveitarstjórnarlaga. Í svo þýðingarmikilli vinnu sé eðlilegt að áhrif fyrirhugaðra breytinga verði metin þegar á vinnslustigi tillagna, sem auðveldar jafnframt samanburð ólíkra leiða sem til greina kunna að koma.