16. apr. 2018

Frumvarp til laga um veitinga, gististaði og skemmtanahald

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sent atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti umsögn vegna breytinga á ákvæðum laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, en lögin taka m.a. til löggæslukostnaðar á skemmtunum.

Sambandið fékk viðbótarfrest frá ráðuneytinu til að ljúka kostnaðarmati á áhrifum frumvarpsins. Fylgir kostnaðarmatið umsögninni sem minnisblað sérfræðings hjá sambandinu.

Þær meginbreytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir eru að útihátíðir, bæjarhátíðir, útitónleikar, íþróttaviðburðir, skóladansleikir og tjaldsamkomur gætu fallið undir leyfisskyldar einstakar skemmtanir og atburði. Gangi það að óbreyttu eftir, telur sambandið að lögregla fái þar með lagaheimild til að krefjast greiðslu á löggæslukostnaði vegna viðburða sem hafa fram að þessu verið undanþegnir slíkri gjaldtöku.

Sambandið minnir í þessu sambandi á vilji löggjafans, eins og hann kemur fram í lögskýringargögnum, er sá að bæjarhátíðir séu undanþegnar kröfu um löggæslukostnað og ásamt þeim æskulýðs- og íþróttahátíðum sem ekki eru haldnar í atvinnuskyni.

Þá gæti frumvarpið, gangi það óbreytt eftir, valdið sveitarfélögum liðlega 60 m.kr. viðbótarkostnaði á ári vegna löggæslu á bæjarhátíðum, skv. kosntaðarmati sambandsins.

Sambandið leggst því eindregið gegn þeim breytingum sem frumvarpið ráðgerir og haft geta slíkan viðbótarkostnað í för með sér fyrir sveitarfélagöin vegna áðurnefndra viðburða.