02. maí 2018

Frumvarp um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sent atvinnuveganefnd Alþings umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi.  Frumvarpinu er ætlað að skapa aukna sátt um uppbyggingu fiskeldis hér á landi og leggja grunn að því sem öflugri, ábyrgri og sjálfbærri atvinnugrein. Umsögnin er unnin í nánu samráði við Samtök sjávarútvegssveitarfélaga.

Frumvarpið byggist að stærstum hluta á tillögum starfshóps um stefnumótun í fiskeldi, sem settar eru fram í skýrslu til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Fiskeldi, bæði á landi og í sjókvíum, hefur vaxið að umfangi á undanförnum árum og fyrirhuguð er stórfelld aukning á næstu árum sem áhrif mun hafa á einstakar byggðir, stofnanir sveitarfélaga og innviði. Því er talið mikilvægt að styrkja lagaumgjörð fiskeldis og leggja með því móti grunn að öflugu, ábyrgu og sjálfbæru fiskeldi sem grundvallast á skilvirku eftirliti, aukinni upplýsingagjöf, vísindum og rannsóknum.

Þá er frumvarpinu einnig ætlað, að leggja grunn að öflugu og skilvirku eftirliti með fiskeldi, ásamt því að bæta upplýsingagjöf og upplýsingaaðgengi almennings vegna fiskeldis.

Í umsögninni er þó bent á, að sveitarfélög, stéttarfélög og fulltrúar launþega telji, að skilgreina verði betur samfélagsábyrgð fyrirtækja, bæði efnahagsleg og umhverfisleg. Kallað er því eftir, að slíkt ákvæði verði sett í frumvarpið, svo stuðla megi að enn frekari sátt um uppbyggingu greinarinnar.

Einnig er bent á mikilvægi þess að hugað sé vel að högum nærsamfélagsins á hverjum stað og aðkomu staðbundinna stjórnvalda.  Er í því sambandi m.a. lagt til að Hafrannsóknastofnun verði gert skylt að leita álits hjá staðbundnum stjórnvöldum og að við úthlutun eldissvæða verði tekið mið af stöðu einstakra byggða í atvinnulegu tilliti.

Þá er minnt á þá stefnumörkun Sambands íslenskra sveitarfélaga að skipulag strandsvæða, allt að einni sjómílu út frá grunnlínu landhelginnar, verði á forræði sveitarfélaga og að fyrirhugað auðlindagjald af fiskeldi renni, a.m.k. að stærstum hluta, beint til sveitarfélaga.

Helstu breytingar sem frumvarpið mælir fyrir um á lögum nr. 71/2008 um fiskeldi eru eftirfarandi:

 • Hafró skal gefa út áhættumat erfðablöndunar, eigi sjaldnar en á 3 ára fresti.
 • MAST tryggir að leyfilegt magn frjórra laxa samkvæmt rekstrarleyfi sé í samræmi við niðurstöður áhættumats erfðablöndunar á hverjum tíma.
 • Hafró skiptir tilteknu hafsvæði eða firði upp í eitt eða fleiri eldissvæði í samræmi við burðarþol hafsvæðis.
 • Ráðherra ákveður hvenær tilteknir firðir eða tiltekin hafsvæði verða metin til burðarþols.
 • Ráðherra, eða stofnun í hans umboði, úthluta eldissvæðum eftir opinbera auglýsingu og á grundvelli hagstæðasta tilboðs.
 • Starfsemi fiskeldisstöðva er áfram háð starfsleyfi frá Umhverfisstofnun og rekstrarleyfi frá MAST.
 • Umsóknir um rekstrarleyfi sem eru til meðferðar hjá MAST á svæðum sem ekki er búið að burðarþolsmeta, falla niður.
 • Gilt rekstrarleyfi á hafsvæði, sem ekki er búið að burðarþolsmeta, heldur gildi sínu.
 • MAST hættir að sinna umhverfiseftirliti á grundvelli þjónustusamnings við Umhverfisstofnun. Eftirlit verður í höndum Umhverfisstofnunar.
 • Meiri og tíðari upplýsingagjöf fiskeldisfyrirtækja til stjórnvalda.
 • Stjórnvöld fá heimild til að birta opinberlega tilteknar upplýsingar.
 • MAST auglýsir tillögu sína að rekstrarleyfi til fiskeldisfyrirtækja.
 • Rekstrarleyfishafar sem stunda eldi með lokuðum eldisbúnaði, og þeir sem stunda eldi í kvíum á ófrjóum laxi og regnbogasilungi verða undanþegnir árgjaldi í Umhverfissjóð sjókvíaeldis.
  Innra eftirlit fiskeldisstöðva – áhættumiðað eftirlit (vöktun tiltekinna þátta, verklagsreglur og gæðahandbók).
 • Aðgerðir vegna laxalúsar.
 • Heimild til styrkveitinga til veiðiréttarhafa úr Umhverfissjóði sjókvíaeldis felld niður.
 • Rekstrarleyfi fyrir eldi á ófrjóum eldisfiski endurskoðað, 5 árum frá útgáfu.
 • Skylduaðild fiskeldisstöðva að Landssambandi fiskeldisstöðva aflögð.
 • Tímabundnar rannsóknir Hafró.
 • Stjórnvaldssektir.
 • Skylda ráðherra til að leita umsagnar vegna allra reglugerða sem fyrirhugað er að setja skv. lögum nr. 71/2008 um fiskeldi, felld niður.
 • Rekstrarleyfi fyrir eldi á ófrjóum laxi felld niður ef nýting er ekki viðunandi.