18. apr. 2017

Frumvarp um afnám laga um orlof húsmæðra

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sent velferðarnefnd Alþingis umsögn um frumvarp um afnám laga um orlof húsmæðra, 119. mál. Málið er endurflutt á þinginu og hefur sambandið oftsinnis lýst þeirri afstöðu til málsins að fella beri lög um orlof húsmæðra, nr. 53/1972 úr gildi.

Fyrir þeirri skoðun liggja margvíslegar ástæður og má nefna:

  • Lögin eru tímaskekkja vegna gjörbreyttra aðstæðna húsmæðra, sem flestar eru virkir þátttakendur á vinnumarkaði.
  • Í áliti Jafnréttisstofu kemur fram að ákvæði laganna gangi í berhögg við ákvæði um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
  • Fráleitt má telja að í íslenskum lögum sé ákvæði um að það sé verkefni sveitarfélaga að fjármagna ferðalög tiltekins hóps íbúa.

Það er því eindregin afstaða Sambands íslenskra sveitarfélaga, og margra sveitarfélaga sem ályktað hafa um málið, að mæla með því að frumvarpið verði að lögum. Um leið tekur sambandið heils hugar undir umsagnir þeirra sveitarfélaga sem sent hafa Alþingi umsögn um málið.