• SIS_Felagsthjonusta_760x640

Er ríkið að láta sveitarfélögin sjá um velferðarþjónustu sem það ber ábyrgð á?

Á fundi félagsþjónustunefndar sambandsins sem haldinn var 9. október 2013 kynnti Stella Kristín Víðisdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, minnisblað um málefni sem oft hafa verið rædd í velferðarráði borgarinnar og varða  þróun samskipta ríkis og sveitarfélaga, skörun verksviða og grá svæði. Í minnisblaðinu eru nefnd ýmis dæmi um að stefna ríkisins og ákvarðanir um hagræðingu í ríkisrekstri auki þrýsting á þá þjónustu sem sveitarfélögin veita íbúum sínum. Nefna má sem dæmi að eftir flutning þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga árið 2011 hafi Barnaverndarstofa ítrekað vísað ábyrgð á þjónustu við börn með fötlunargreiningar yfir til sveitarfélaga, þrátt fyrir að fötluð börn eigi sama rétt og ófötluð börn til þess að njóta þjónustu og úrræða sem Barnaverndarstofa veitir lögum samkvæmt. Annað dæmi er að sveitarfélögum gengur illa að fá framlög frá ríki til að bæta upp hallarekstur stofnana á sviði öldrunarmála. Daggjöld frá ríkinu duga hins vegar í sífellt minna mæli fyrir rekstri þessara stofnana. Fjölmörg önnur dæmi eru nefnd í minnisblaðinu, svo sem þjónusta borgarinnar við utangarðsfólk og fólk með vímuefnavanda o.m.fl. Ákveðið var að halda umfjöllun um málið áfram á næsta fundi nefndarinnar.

Einnig varð umfjöllun um sama málefni á fundi stjórnar sambandsins sem haldinn var 25. október sl. Niðurstaða þeirrar umræðu var að fela lögfræði- og velferðarsviði sambandsins að taka saman yfirlit sem lagt verði fyrir svonefnda Jónsmessunefnd, sem er samstarfsnefnd ríkis og sveitarfélaga og starfar á grundvelli 128. gr. sveitarstjórnarlaga í þeim tilgangi að vera vettvangur fyrir reglulega umfjöllun um samskiptamál ríkis og sveitarfélaga.