• Skolaskyrsla

Skólaskýrslan komin út

Skólaskýrsla 2013 er nýkomin út hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Í skýrslunni er bæði fjallað um leikskóla og grunnskóla og má þar finna ýmsar magntölur yfir nemendur, skóla, starfsfólk og rekstrarkostnað.

Meðal annars kemur fram að heilsdagsígildum barna í leikskólum hefur fjölgað um 65% frá 1998 á meðan leikskólabörnum fjölgaði um 30%. Árið 2012 eru heilsdagsígildi leikskólabarna í fyrsta sinn fleiri en fjöldi þeirra. Þessi þróun gefur skýra vísbendingu um lengingu viðveru barna á leikskóla.

Hlutfall starfandi leikskólakennara er 37% af þeim er sinna uppeldis- og menntastörfum árið 2012 sem er einu prósentustigi lægra en árið 2011. Þjónustutekjur vegna leikskóla jukust um 9% að raungildi árið 2012 m.v. fyrra ár og eru 18% af rekstrarkostnaði leikskóla. Heildarrekstrarkostnaður leikskóla dróst saman um 1% að raungildi á sama tíma.

Grunnskólanemendum í heild fer lítillega fækkandi frá árinu 2004. Fjöldi grunnskólakennara stendur nokkuð í stað árið 2012 m.v. fyrra ár, en kennurum án kennsluréttinda fækkar um 10%. Í heildina fækkar starfsfólki við kennslu um 1% milli ára. Árið 2012 er hlutfall starfandi grunnskólakennara 97% á Íslandi og hefur aldrei verið hærra.

Heildar rekstrarkostnaður vegna grunnskóla lækkaði að raungildi um 3% árið 2012 m.v. fyrra ár. Þróunin frá árinu 2009 er sú að kostnaður hefur lækkað að raungildi milli ára.

Til viðbótar þessu eru birtar töflur í fylgiskjölum aftast í skýrslunni þar sem valdar lykiltölur eru birtar fyrir hvert sveitarfélag fyrir sig. Vakin er athygli á því að í fyrsta sinn er fjallað um innri leigu í skýrslunni og henni gerð sérstök skil í fylgiskjölum 8 og 17.

Skýrsluna vann Valgerður Freyja Ágústsdóttir, sérfræðingur á hag- og upplýsingasviði Sambands íslenskra sveitarfélaga (valgerdur@samband.is).

Skólaskýrsla 2013 er fáanleg í prentuðu formi hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga gegn 3.000 kr. gjaldi. Sigríður Inga Sturludóttir tekur á móti pöntunum í síma 515 4900 eða í gegnum netfangið sigridur@samband.is.