• skipulag_minni

Samráðsfundur sveitarfélaga og Mannvirkjastofnunar

Allt frá gildistöku mannvirkjalaga í ársbyrjun 2011 hefur verið unnið að því að þróa reglubundið samstarf Mannvirkjastofnunar og byggingarfulltrúa sveitarfélaga. Í þessu skyni var ákveðið að halda samráðsfund sem gæti verið vísir að árlegum viðburði, þar sem sérfræðingar og stjórnendur Mannvirkjastofnunar (MVS) hittu byggingarfulltrúa til þess að fara yfir sameiginleg málefni. Fyrirmynd að slíkum vettvangi er til staðar í öðrum málaflokkum, m.a. í skipulagsmálum þar sem hefð og góð reynsla er komin á árlega samráðsfundi milli Skipulagsstofnunar, skipulagsfulltrúa sveitarfélaga og kjörinna fulltrúa.

Þessi fyrsti samráðsfundur MVS og byggingarfulltrúa fór fram í Reykjavík dagana 17. og 18. október sl. og var fundað eftir hádegi fyrri daginn og fyrir hádegi þann síðari. Félag byggingarfulltrúa stóð að skipulagningu fundarins ásamt MVS og var vel mætt til fundarins. Til umræðu voru ýmis málefni, m.a. hvort grá svæði væru milli hlutverks MVS og hlutverks sveitarfélaga við byggingareftirlit. Þá var ennfremur fjallað um vottanir, og gæðakerfi í byggingariðnaði. Mesta umfjöllun fengu hins vegar þær skoðunarhandbækur sem MVS vinnur að því að þróa og munu fyrirsjáanlega verða mikilvægur liður í starfi byggingarfulltrúa. Fóru fram líflegar umræður í hópum um form og efni skoðunarhandbóka og þá framtíðarsýn að byggingareftirlit á vettvangi verði í síauknum mæli rafrænt, m.a. með aðstoð spjaldtölva.

Stuðningur við byggingarfulltrúa

Þá kom fram á fundinum að MVS væri komin vel áleiðis með að þróa rafræna byggingargátt fyrir móttöku á byggingarleyfisumsóknum í gegnum vefinn. Þessi lausn stendur þeim sveitarfélögum til boða sem ekki hafa þróað aðrar leiðir í rafrænni stjórnsýslu byggingarmála.

Fundarmenn voru almennt mjög ánægðir með það hvernig til tókst með þennan fyrsta reglubundna samráðsfund og verður að telja líklegt að hann muni festa sig í sessi. Sambandið hefur lagt áherslu á að þessi nýi vettvangur verði nýttur til fræðslu og til þess að veita byggingarfulltrúum á landsvísu stuðning í störfum.