• Skotland

Námsferð til Skotlands

Sambandið stóð fyrir námsferð til Skotlands í byrjun september sl. Ferðin var opin fyrir alla sveitarstjórnarmenn en við skipulagningu voru sérstaklega hafðir í huga framkvæmdastjórar sveitarfélaga og stjórnendur á fjármála- og stjórnsýslusviðum. Þátttakendur í ferðinni voru 33. Skoska sveitarfélagasambandið, COSLA, aðstoðaði við skipulagningu. Hópurinn hitti fulltrúa sveitarstjórnarráðuneytis Skotlands, forsvarsmenn COSLA og SOLACE Scotland sem eru samtök æðstu ráðinna stjórnenda skoskra sveitarfélaga. Hann heimsótti einnig Þróunarstofnun skoskra sveitarfélaga, „Improvement Service“, og forsvarsmenn West Lothian Council tóku á móti hópnum, en þetta nágrannasveitarfélag Edinborgar hefur hlotið margar viðurkenningar fyrir framúrskarandi þróunarverkefni í stjórnsýslu sinni og þjónustu.

Skosk sveitarfélög beita margs konar árangursstjórnunarverkfærum sem íslensk sveitarfélög þekkja lítið til og njóta í því sambandi aðstoðar Þróunarstofnunar sveitarfélaga. Það var einnig einkar áhugavert að kynnast því hvernig skosk sveitarfélög taka heildstæða ábyrgð á velferð íbúa sinna og leggja áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir í samstarfi við þjónustustofnanir ríkisins, þriðja geirann og atvinnulífið til að draga úr kostnaði við velferðarkerfið og veita íbúum skilvirkari þjónustu. Ramminn fyrir þessar aðgerðir, „Community Planning“, er í sveitarstjórnarlögum. Samantekt um ferðina með upplýsingum um skosk sveitarfélög má finna á vef sambandsins.