• kjarasamninga

Skýrslur samstarfsnefndarinnar um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga

Með samkomulagi sl. vor stofnuðu stærstu aðilar á vinnumarkaði Samstarfsnefnd um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga (SALEK). Að nefndinni standa fern heildarsamtök launafólks, þ.e. ASÍ, BSRB, BHM og KÍ og af hálfu vinnuveitenda eru það SA, Samband íslenskra sveitarfélaga og fjármála- og efnahagsráðuneytið. Nefndin hefur það hlutverk að bæta þekkingu og vinnubrögð við undirbúning kjarasamninga og auka skilvirkni við gerð þeirra. Nefndin hefur nú þegar gefið út tvær skýrslur með upplýsingum til undirbúnings komandi kjaraviðræðum.

Í maí 2013 kom út skýrslan „Kjarasamningar og vinnumarkaður á Norðurlöndum“. Þar er leitað í smiðju systursamtaka annars staðar á Norðurlöndunum og skoðað hvernig aðilar vinnumarkaðarins í hverju landi standa að undirbúningi kjaraviðræðna. Annars staðar á Norðurlöndum felst undirbúningur kjarasamninga m.a. í mótun sameiginlegrar sýnar aðila vinnumarkaðarins á efnahagsmál og á þróun launa og þær launabreytingar sem samrýmast stöðugleika í efnahagsmálum.

Í október 2013 kom út skýrslan „Í aðdraganda kjarasamninga,  efnahagsumhverfi og launaþróun“. Í skýrslunni koma fram upplýsingar um þróun launa á árunum 2006 til 2013 og ýtarleg greining á helstu efnahagsforsendum kjarasamninga. Við gerð skýrslunnar var leitað samstarfs við Hagstofu Íslands, Seðlabanka Íslands, fjármálaráðherra og fleiri aðila um upplýsingar og úrvinnslu.

Upplýsingar úr skýrslunni „Í aðdraganda kjarasamninga,  efnahagsumhverfi og launaþróun.“

Launaskrið á almennum vinnumarkaði meiri en hjá ríki og sveitarfélögum

Á öllu tímabilinu 2006-2013 hefur launaskriðið hjá ríki og sveitarfélögum verið jafnt, en laun á almennum markaði hækkað nokkru meira en hjá hinu opinbera. Þannig hækkuðu laun á almennum vinnumarkaði um 3,8% umfram laun hjá ríkinu og um 4,3% umfram laun hjá sveitarfélögum. Ef litið er til áranna 2006 til 2009 hækkuðu laun á almenna markaðnum minna en á hinum opinbera, en frá 2009 til 2013 hækkuðu laun til muna meira á almenna markaðnum eins og fram kemur á mynd 1.

Laun á opinberum vinnumarkaði hækkuðu meira en á almennum markaði árið 2008 og enn frekar á árinu 2009. Þessi þróun snerist við árin 2010 og 2011, m.a. vegna væntinga um aukin umsvif í efnahagslífinu sem kjarasamningar 2011 byggðu á og aukins aðhalds í opinberum rekstri.

1
Mynd1: Launaþróun á almennum vinnumarkaði og hjá ríki og sveitarfélögum.


Á myndum 3-6 má sjá launaþróun eftir kynjum frá nóvember 2006 til maí 2013. Þar kemur fram að í flestum heildarsamtökum og samningssviðum, þ.e. almenna markaðinum, hjá ríki og hjá sveitarfélögum, hafa laun kvenna hækkað meira en karla á tímabilinu. Á því eru þó tvær undantekningar; annars vegar hækkuðu laun kvenna hjá ríkinu í BSRB um 0,8% minna en karla og hins vegar hækkuðu laun kvenna í aðildarfélögum KÍ hjá sveitarfélögunum um 0,6% minna en karla. Laun kvenna í aðildarfélögum ASÍ hafa hækkað umfram karla á öllum þremur samningssviðunum, mest á almennum vinnumarkaði þar sem munurinn er 5,3%. Konur í aðildarfélögum BSRB sem starfa hjá sveitarfélögum hafa hækkað um 6,6% umfram karla og svipað er uppi á teningnum hjá konum innan aðildarfélaga BHM sem starfa hjá sveitarfélögum.

Vakin er athygli á því að laun kvenna hækka meira en hjá körlum innan aðildarfélaga BSRB milli 2012 og 2013. Þetta gengur þvert á fullyrðingar talsmanna BSRB sem segja að launamunur karla og kvenna hafi aukist á árinu 2013 m.v. árið á undan.

Allar launatölur sem unnið er með koma úr gagnasafni Hagstofu Íslands. Tölurnar eru settar fram með þeim hætti að launavísitölu karla á hverju ári er deilt í launavísitölu kvenna og margfaldað með 100. Þannig fæst vísitala sem tekur gildi hærra en 100 á tilteknu ári ef uppsöfnuð launahækkun er meiri meðal kvenna en karla.

3
Mynd 3. Þróun launa kvenna umfram karla í aðildarfélögum ASÍ


4
Mynd 4. Þróun launa kvenna umfram karla í aðildarfélögum BHM.

5
Mynd 5. Þróun launa kvenna umfram karla í aðildarfélögum BSRB.


6
Mynd 6. Þróun launa kvenna umfram karla í aðildarfélögum KÍ