• Arbok

Árbók sveitarfélaga komin út


Auk allra rekstrar- og efnahagsstærða sem settar eru fram í árbókinni er þar umfjöllun um þjóðhagslega stöðu sveitarfélaganna og fjárhagslegt umhverfi þeirra.

Í árbókinni kemur m.a. fram að fjármálakreppan komi jafnvel meira við sveitarfélögin en aðra margháttaða starfsemi í samfélaginu, því afleiðingar þess erfiða ástands sem er víða til staðar, kemur beint inn á borð þeirra í tengslum við fjölmörg lögskipuð verkefni þeirra. Má þar nefna aukna þörf á félagslegri aðstoð, afleiðingar mikils og viðvarandi atvinnuleysis, almennar verðhækkanir, auknar álögur ríkisvaldsins og mikinn brottflutning fólks af landinu.

Við bankahrunið stöðvuðust mjög víða framkvæmdir við húsnæði sem var í byggingu en síðustu tvö ár hefur orðið vart við aukinn vöxt í byggingu íbúðahúsnæðis. Fasteignaviðskipti hafa aukist og hafa t.a.m. fjöldi kaupsamninga aukist um 47% frá árinu 2010.

Afkoman fer batnandi

Í bókinni er farið yfir nokkur helstu atriði er varðar afkomu sveitarfélaganna á árunum 2002-2012. Afkoma sveitarfélaganna batnaði heldur í heildina tekið á árinu 2012 og varð þannig framhald á þróun síðustu ára. Afkoma sveitarfélaganna er þó æði misjöfn, skuldsetning er í nokkrum tilvikum það mikil að viðkomandi sveitarfélög eiga fyrir höndum vandasama vegferð. Hjá öðrum skilar reksturinn of litlum afgangi svo erfitt er að standa undir afborgunum og vöxtum enda þótt skuldir séu ekki óhóflega miklar sem hlutfall af tekjum. Hjá enn öðrum er afkoman góð og skuldir hógværar.

Líkt og undanfarin ár annaðist Jóhannes Á. Jóhannesson, sérfræðingur á hag- og upplýsingasviði sambandsins, alla vinnslu talnaefnis úr ársreikningum og uppsetningu á töflum.

Unnt er að panta bókina hjá Sigríði I. Sturludóttur í gegnum netfangið sigridur@samband.is eða í síma 515 4900 og kostar hún 3.700 krónur.