Upplýsingatækni í grunnskólum

Á vormánuðum 2013 var könnun um upplýsingatækni í grunnskólum send á alla skóla landsins. Könnunin var unnin af sambandi íslenskra sveitarfélaga að beiðni samtaka áhugafólks um skólaþróun, en samtökin héldu ráðstefnu 14. ágúst s.l. um UT í grunnskólum og hvernig hagnýta megi hana til að þróa skólastarf.

Markmiðið með könnuninni var að kortleggja stöðu og stefnumótun er varðar þróun upplýsingatækni í grunnskólum nú þegar ný námskrá kemur til framkvæmda. Spurt var m.a um hvað skólarnir eiga af tölvubúnaði til afnota fyrir nemendur, hvaða áætlanir eru uppi um uppbyggingu búnaðar og stuðning við kennara á þessu sviði.

107 grunnskólar tóku þátt í könnuninni og svarhlutfall því 64%.

Meðal annars var spurt um meðalaldur tækjabúnaðar í skólunum. Kom þar fram að meðalaldur yngri helmings tölvubúnaðar var 3-4 ár og meðalaldur eldri helmings tölvubúnaðar var 6-7 ár.

Meðalfjöldi nemenda á hverja borð-/fartölvu árið 2013 var 4,6 og má segja að borð- og fartölvueign í grunnskólum sé nokkuð almenn. Meðalfjöldi nemenda á hverja spjaldtölvu var 33,6.

Þá var spurt hvaða áætlanir sveitarfélagið hefði um uppbyggingu tölvubúnaðar og tækni í skólanum og raða skyldi svarmöguleikum í forgangsröð. Svarmöguleikarnir voru 14 og því dreifðust svör nokkuð. Í 26 skólum var það að fjölga spjaldtölvum fyrir nemendur í mestum forgangi, 21 skóli svaraði því til að engin áætlun væri til staðar og 12 skólar nefndu uppbyggingu þráðlauss nets. Í 16 skólum var það að fjölga spjaldtölvum fyrir kennara næstefst á forgangslistanum, í 13 skólum var fjölgun spjaldtölva fyrir nemendur næstefst á lista og 10 skólar nefndu endurnýjun eldri borðtölva fyrir kennara.

Einnig var spurt hvernig stuðningi við kennara og leiðsögn í upplýsingatækni væri háttað. Flestir skólar (63) nefndu jafningjaleiðsögn, 48 nefndu námskeið sem kennarar sækja á eigin spýtur og 35 námskeið á vegum skóla/sveitarfélags.