Heimsókn frá embætti umboðsmanns í Eistlandi

Þann 11. september tóku starfsmenn sambandsins á móti sendinefnd frá embætti umboðsmanns í Eistlandi (Chancellor of Justice). Sendinefndin var hingað komin til þess að fræðast um hvernig aðgengi að skyldunámi, heilbrigðiskerfi og félagsþjónustu væri tryggt hér á landi, með sérstöku tilliti til nærþjónustunnar. Auk sambandsins átti sendinefndin fundi með ráðuneytum og stofnunum ríkisins, en jafnframt var Ísafjarðarbær heimsóttur.

Eistland býr að ýmsu leyti við hliðstæða stöðu og er hér á landi, m.a. samspil milli höfuðborgarsvæðis og fjölda smærri sveitarfélaga á landsbyggðinni. Tæplega þriðjungur býr í höfuðborginni Tallinn, en smæstu sveitarfélögin hafa einungis um 60 íbúa. Eistnesk sveitarfélög munu vera 226 talsins og er meðaltalsstærð sveitarfélags álíka og hér hjá okkur. Tvö af hverjum þremur sveitarfélögum hafa færri en 3.000 íbúa og er algengt að þau sameinist um að veita þjónustu og stjórnsýslu.

Í kynningu á íslenska sveitarstjórnarstiginu lögðu starfsmenn sambandsins áherslu á hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, einkum hvað varðar grunnskólann og málefni fatlaðra. Fram kom að tilgangur jöfnunarframlaga væri einkum að tryggja aðgengi að þjónustu, þrátt fyrir dreifbýli og mismunandi stærð og burði sveitarfélaga. Fyrirkomulagið vakti athygli sendinefndarinnar og svöruðu sérfræðingar sambandsins ýmsum spurningum þar að lútandi.

estonia