Heimsóknir á þjónustusvæði um málefni fatlaðs fólks

Samkomulag ríkis og sveitarfélaga um yfirfærslu á þjónustu við fatlað fólk kveður á um að á árinu 2014 fari fram sameiginlegt mat samningsaðila á faglegum og fjárhagslegum árangri verkefnaflutningsins. Undirbúningur endurmatsins er kominn af stað og hafa ákveðnir verkþættir verið skilgreindir sem unnið verður að á yfirstandandi ári.

Heimsóknir á þjónustusvæðin 15 eru liður í undirbúningnum og nú í vor og sumar voru haldnir fundir á Vestfjörðum, Norður- og Austurlandi. Tilgangur þessara funda er að fara almennt yfir stöðu mála á viðkomandi svæði með tilliti til endurmatsins og þess hvort það fjármagn sem fluttist yfir til sveitarfélaga við yfirfærsluna dugir til þess að standa undir þeirri uppbyggingu sem stjórnvaldsaðgerðir kalla á. Er þá sérstaklega horft til fasteignamála og einkum hvað það muni fyrirsjáanlega kosta þjónustusvæðin að tryggja að húsnæðisúrræði samrýmist kröfum í búsetureglugerð og framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðs fólks ásamt aðgengiskröfum í nýrri byggingarreglugerð. Ennfremur er farið yfir það hvernig skilin eru dregin á milli almennrar félagsþjónustu og þeirrar sértæku félagsþjónustu sem flokkuð er sem málefni fatlaðs fólks og hvernig þjónustusvæði vinna með ýmis ólögbundin verkefni í málefnum fatlaðs fólks.

Samhliða heimsóknum verður aflað margvíslegra gagna vegna endurmatsins sem á þessu stigi liggja ekki fyrir hjá samstarfsaðilum um verkefnið, þ.e. Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, Hagstofunni, velferðarráðuneytinu og sambandinu. Þá verður einnig aflað upplýsinga um samspil sértækrar félagsþjónustu fyrir fatlað fólk við önnur þjónustukerfi, þ.e. málefni aldraðra, heilbrigðisþjónustu, barnavernd og skólastigin þrjú (leik-, grunn og framhaldsskóla).

Á næstu vikum verða haldnir fundir á þjónustusvæðum sunnan- og vestanlands. Þjónustusvæðin fá ákveðinn spurningalista í tengslum við heimsóknirnar og er reiknað með að svör við honum berist í októbermánuði.

Thjonustusvaedi_fatladra-(2)


Heimsóknir í maí og júní:

 • Þjsv. Norðurlands vestra
 • Þjsv. Eyjafjarðar
 • Þjsv. Norðausturlands
 • Þjsv. Austurlands
 • Þjsv. Vestfjarða

Þjónustusvæði heimsótt í haust:

 • Garðabær
 • Kópavogur
 • Mosfellsbær
 • Hafnarfjarðarkaupstaður
 • Þjsv. Suðurlands
 • Þjsv. Vesturlands
 • Þjsv. Suðurnesja
 • Sveitarfélagið Hornafjörður
 • Vestmannaeyjabær
 • Reykjavíkurborg og Seltjarnarneskaupstaður