Um gjaldtöku af ferðamönnum

Mikil umræða á sér nú stað um fyrirkomulag gjaldtöku af ferðamönnum. Skýrsla sem unnin var að frumkvæði Ferðamálastofu  var til kynningar og umræðu á fundi skipulagsmálanefndar sambandsins 23. ágúst sl. og vakti hún fjörugar umræður. Í skýrslunni er gerð grein fyrir nokkrum af þeim fjölmörgu leiðum sem aðrar þjóðir hafa farið til þess að afla tekna til uppbyggingar og viðhalds ferðamannastaða. Skýrslan er mjög áhugaverð en leiðir í raun í ljós að Íslendingar verða, líkt og aðrar þjóðir að velja þá leið til gjaldtöku sem best hentar miðað við aðstæður hér á landi.

Í skýrslunni er sérstaklega fjallað um hugmyndir um svonefnda náttúrupassa, sem valkost við almenna skattheimtu af ferðamönnum eða beina gjaldtöku á einstökum ferðamannastöðum, og rætt um hugsanlega útfærslu þeirra. Niðurstaða skýrsluhöfunda er að frekari útfærsla þeirra hugmynda sé nauðsynleg áður en hægt er að taka afstöðu til þess hvort þær séu framkvæmanlegar. Skýrslan er að þessu leyti nokkuð frábrugðin annarri skýrslu sem kynnt var í september, og unnin er af Boston Consulting Group, að beiðni Icelandair Group og fleiri aðila á sviði ferðaþjónustu og samgöngumála.

Í umfjöllun skipulagsmálanefndar um skýrsluna kom fram að sveitarfélög telja sig þurfa að öðlast beina hlutdeild í þeim tekjum sem aukin gjaldtaka kann að skila til hins opinbera. Sveitarfélögin verða óhjákvæmilega fyrir miklum kostnaði við umhirðu ferðamannastaða bæði í þéttbýli og dreifbýli, svo sem vegna hreinlætismála, skipulagsmála o.fl. án þess að fá endilega tekjur á móti þeim útgjöldum. Einnig telja nefndarmenn að leggja þurfi stóraukna fjármuni til uppbyggingar og viðhalds vega að vinsælum ferðamannastöðum.

Nefndarmenn voru efins um hugmyndir um náttúrupassa og var niðurstaða umfjöllunar skipulagsmálanefndar að frekar væri ástæða til að beina sjónum að því að því hvernig nýta mætti skattkerfið á skilvirkari hátt til tekjuöflunar, í samræmi við þær ábendingar sem fram koma í skýrslunni. Jafnframt verði að leggja áherslu á að tryggja sveitarfélögum hlutdeild í þeirri hugsanlegu tekjuaukningu ásamt því að stuðla að meiri dreifingu ferðamannastraumsins um landið til að draga úr álagi á vinsælustu ferðamannastöðunum.

Fundargerð skipulagsmálanefndar  var til umfjöllunar á fundi stjórnar Sambandsins 13. september 2013.  Stjórnin tók í öllum meginatriðum undir framangreinda niðurstöðu skipulagsmálanefndar. Starfsmenn sambandsins munu á næstunni fylgja málinu eftir gagnvart ráðuneytum og stofnunum sem fara með málefni ferðaþjónustunnar.

ferdamenn