Breytingar á stjórn sambandsins

Þær breytingar hafa orðið á stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, að Hanna Birna Kristjánsdóttir og Óttarr Ólafur Proppé hafa misst kjörgengi sitt til setu í stjórn sambandsins frá og með 1. ágúst sl. þegar þau fengu lausn frá setu í borgarstjórn Reykjavíkur. Þau voru bæði kjörin til setu á Alþingi í alþingiskosningunum í apríl sl. Hanna Birna gegnir jafnframt embætti innanríkisráðherra í ríkisstjórn Íslands og er því ráðherra sveitarstjórnarmála.

Á stjórnarfundi sem haldinn var föstudaginn 28. júní 2013 voru þau Hanna Birna og Óttarr Ólafur kvödd og þeim þakkað fyrir störf þeirra í þágu sambandsins og sveitarfélaganna. Hanna Birna tók sæti í stjórninni árið 2006 og Óttarr 2010.

Sæti Hönnu Birnu og Óttars Ólafs í stjórn sambandsins taka varamenn þeirra, þau Júlíus Vífill Ingvarsson borgarfulltrúi og Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi. Eru þau hér með boðin velkomin til starfa á vettvangi sambandsins. Engir varamenn munu vera fyrir þau Júlíus Vífil og Björk, þar sem næsta landsþing sambandsins verður ekki haldið fyrr en haustið 2014 að afloknum sveitarstjórnarkosningum 31. maí 2014, en stjórnarmenn og varamenn þeirra eru kjörnir á landsþingi.
myndir_33

Óttarr Proppé ásamt Halldóri Halldórssyni, formanni sambandsins. Fyrir aftan þá má sjá Jórunni Einarsdóttur stjórnarmann og Magnús Karel Hannesson sviðsstjóra.

myndir_32

Halldór Halldórsson, formaður sambandsins, og Hanna Birna Kristjánsdóttir. Á milli þeirra sést í Magnús Karel Hannesson sviðsstjóra.