Ágreiningur um byggingu golfvallar að Minni-Borg

Þann 22. apríl sl. kvað innanríkisráðuneytið upp úrskurð vegna kæru tveggja golfklúbba á hendur Grímsnes- og Grafningshreppi. Töldu golfklúbbarnir að sveitarfélagið hefði farið út fyrir það svigrúm sem því væri veitt í 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, með því að ákveða að halda áfram uppbyggingu golfvallar á landi sem sveitarfélagið keypti eftir að hlutafélag sem stofnað var til að byggja upp golfvöll varð gjaldþrota, og veita til þess samtals 36 milljónum króna úr sveitarsjóði. Kröfðust kærendur ógildingar á þeirri ákvörðun

Kæran byggist m.a. á því að slík framkvæmd geti ekki talist lögmætt verkefni sveitarfélaga með hliðsjón af skýringum við sveitarstjórnarlögin. Ekki sé um að ræða sameiginlegt velferðarmál íbúa sveitarfélagsins enda séu þegar til staðar tveir 18 holu golfvellir í sveitarfélaginu. Um sé að ræða framkvæmd sem ógni rekstrargrundvelli þeirra valla og er af hálfu kærenda einnig vísað til samkeppnislaga til stuðnings sínum sjónarmiðum.

Í niðurstöðu innanríkisráðuneytisins er fallist á þær röksemdir sveitarfélagsins að engin ákvörðun liggi fyrir um að sveitarfélagið hyggist sjálft reka golfvöllinn. Ákvörðun um áframhaldandi uppbyggingu hans hafi haft þann tilgang að bjarga verðmætum og mikill kostnaður hefði einnig hlotist af því að hætta við framkvæmdina og koma landinu í upprunalegt horf, auk þess sem með því væri verðmætum kastað á glæ. Það hafi því verið mat sveitarstjórnar að hagsmunum sveitarfélagsins og íbúa þess væri best borgið með því að klára byggingu golfvallarins og taka síðan í kjölfarið ákvörðun um ráðstöfun landsins, eftir atvikum með sölu golfvallarins eða leigu.

Niðurstaða ráðuneytisins var að ekki verði litið svo á að Grímsnes- og Grafningshreppur hafi tekið að sér sérstakt verkefni í skilningi 7. gr. sveitarstjórnarlaga. Ákvörðun sveitarstjórnar feli í sér matskennda ákvörðun fjármuna, sem ekki sæti endurskoðun af hálfu ráðuneytisins auk þess sem ekki verði séð að hún fari í bága við ákvæði 64. gr. laganna (65. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011) um ábyrga meðferð fjármuna sveitafélagsins. Var kröfunni því hafnað.

Athygli vekur að rúmlega 17 mánuðir liðu frá því kæra barst ráðuneytinu þar til úrskurður lá fyrir.


Minniborg2012