Fjölbreyttur vinnuskóli í samstarfi við atvinnulífið

Samband íslenskra sveitarfélaga vekur athygli á áhugaverðu samstarfi atvinnulífs og samfélags um vinnuskóla fyrir unglinga. Vikuna 12.-15. ágúst sl. hleypti  Íslenski sjávarklasinn og Codland, sem er fullvinnslufyrirtæki á fisktengdum afurðum sem hefur það markmið að auka verðmæti þeirra, af stokkunum vinnuskóla í samstarfi við Grindavíkurbæ og var nemendum á efstu stigum grunnskóla, fædda 1998 og 1999 gefinn kostur á að taka þátt í því starfi sem var í boði. Nemendur fengu greitt skv. launatöflu vinnuskóla Grindavíkurbæjar.

Codland vinnuskólinn hafði það að markmiði að efla áhuga á sjávarútveginum og sýna nemendum þau víðfeðmu áhrif sem hann hefur á samfélagið og stuðla að auknum áhuga ungs fólks á dýrmætri auðlind. Nemendur fengu fræðslu um íslenskan sjávarútveg, fóru í vettvangsferðir í fyrirtæki og báta og unnu verkefni sem tengdust nýsköpun í sjávariðnaði.

 Fjölmörg fyrirtæki veittu nemendum innsýn í sína starfsemi. Þar á meðal má nefna Þorbjörn, Vísi, Stakkavík, Stjörnufisk og Veiðifæraþjónustuna í Grindavík. Þá var Fisktækniskólinn kynntur fyrir nemendum.

„Þetta er frábært dæmi um samstarf atvinnulífs og sveitarfélags til að gera vinnuskólann meira spennandi og um leið kynna fyrir krökkunum atvinnulífið á staðnum. Frumkvæðið kom frá Codland og Grindavíkurbær styður við verkefnið. Vonandi getum við þróað þetta áfram og boðið upp á samskonar verkefni sem tengjast öðrum auðlindum Grindavíkur, svo sem í ferðaþjónustu eða orkuvinnslu. Þá sé ég fyrir mér að þeir krakkar sem standa sig best í vinnuskólanum framan af sumri eigi forgang í þessi skemmtilegu verkefni. Nokkurskonar hvatning fyrir þau til að ná framgangi í starfi, ef svo má segja.“ - Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Grindavík


codland8