Fjölbreytt flóra evrópskra sveitarfélaga en sameiginlegir hagsmunir


Það er stór munur á sveitarfélögum innan Evrópu. Með nokkurri einföldun má greina a.m.k. fjögur evrópsk sveitarfélagamódel. Þessi módel hafa mótast út frá mismunandi landfræðilegum aðstæðum, af sögulegum ástæðum og pólitískum hefðum.

Norrænu sveitarfélögin hafa mesta sjálfsforræðið og flest verkefni. Íslensk sveitarfélög þó fæst verkefni af þeim. Innan Norðurlandanna eru tvenns konar stærðarmódel. Í Svíþjóð og Danmörku er hefð fyrir lögþvinguðum sameiningum og þar eru sveitarfélögin fjölmenn og öflug. Í Finnlandi og Noregi, sem eru með strjálbyggða landsbyggð, hefur hins vegar verið pólitísk andstaða gegn lögþvinguðum sameiningum, eins og hér á landi. Þar eru því töluverður fjöldi fámennra sveitarfélaga. Finnska ríkisstjórnin vinnur nú að stórfelldum sameiningum sveitarfélaga. Hún telur að litlu sveitarfélögin muni ekki geta ráðið við að veita þyngri velferðarþjónustu fyrir minni tekjur vegna öldrunar íbúa og of langt hafi verið gengið í að heimila samstarfsverkefni sveitarfélaga.  

Á Bretlandseyjum eru sveitarfélögin stór og búa við mikla stýringu af hálfu ríkisvaldsins. Skosk sveitarfélög eru þau fjölmennustu í Evrópu og óttast nú að skoska þingið muni setja lög til að fækka sveitarfélögum enn frekar.

Í Suður Evrópu er staðan hins vegar allt önnur. Þar er mikil fjöldi fámennra sveitarfélaga sem hafa ekki mörg verkefni og stjórnkerfið er flókið vegna fjölda lagskiptra stjórnvalda og samstarfsverkefna.  Það er athyglisvert að bera Bretland og Frakkland saman þar sem löndin hafa svipaðan íbúafjölda. Í Bretlandi eru 433 sveitarfélög en í Frakklandi 36.700.  Það er líka athyglisvert að bera saman kosningaþátttökuna í sveitarstjórnarkosningum í þessum löndum. í kosningum 2008 kusu 66% í Frakklandi en bara 31% í Bretlandi í kosningum 2012. Það er þó varhugavert að draga þá ályktun að stærð sveitarfélaga hafi úrslitaáhrif á kosningaþátttökuna. Hæsta kosningaþátttaka á sveitarstjórnarstigi á Norðurlöndunum og þótt víðar væri leitað er í Svíþjóð, 82% í síðustu kosningum. Þar eru kosið samtímis til sveitarstjórna og Þjóðþings og það er talið hafa áhrif. Almennt er meiri þátttaka í kosningum til þjóðþinga en á sveitarstjórnarstigi. Í Svíþjóð verða sveitarstjórnarkosningar á næsta ári eins og hér á landi. Svíar tala um Superkosningaár því það er kosið samtímis til sveitarstjórna, til þjóðþingsins og til Evrópuþingsins.

Í Austur Evrópu var sveitarstjórnarstigið að mestu aflagt undir stjórn kommunísta en það hefur verið lögð áhersla á að endurreisa sveitarstjórnarstigið eftir að lýðræðislegt stjórnskipulag var tekið upp. Löndin hafa farið nokkuð mismunandi leiðir. Sum eins og t.d. Tékkland endurvöktu gömlu sveitarfélögin sem voru fjölmörg og fámenn meðan önnur skilgreindu ný og stærri sveitarfélög.  Í Þýskalandi eru sveitarfélögin mismunandi að stærð eftir fylkjum. Sveitarfélögin þar eru um 11.500 og meðaltal þeirra er nálægt evrópska meðaltalinu sem er 5.000-6.000 íbúar.

En þrátt fyrir að evrópsk sveitarfélög séu svona ólík þá hafa þau svipaðra hagsmuna að gæta gagnvart lagasetningarvaldi ESB og vinna vel saman innan evrópskra hagsmunasamtaka sinna. Lagasetningarvald ESB hefur að miklu leyti sömu áhrif á sveitarfélög í EFTA/EES-ríkjunum og í ESB ríkjunum. Aðalhagsmunamál sveitarfélaga í ESB og EFTA/EES ríkjunum er að standa vörð um að þau hafi forræði á því hvernig þau skipuleggja þjónustu sína við íbúa út frá staðbundnum aðstæðum og pólitískum áherslum og hindra órökstuddar stjórnsýslubyrðar af hálfu ESB. Nánar má lesa um hagsmunagæslu sveitarfélaga gagnvart ESB í nýjasta riti Brusselskrifstofu sambandsins „Frá Brussel til Breiðdalshrepps“ sem kom út núna í júlí.

Hlutverk-svf-028---Copy