Heimildir til lækkunar eð niðurfellingar fasteignaskatts

IMG_3368Þann 25. júní sl. kvað innanríkisráðuneytið upp úrskurð (IRR 12030363) vegna kæru einstaklings  á hendur Svalbarðsstrandarhreppi. 

Atvik málsins voru þau að kærandi óskaði eftir því með beiðni til hreppsins að felld yrði niður álagning fasteignaskatts á jörð hans og útihús á jörðinni fyrir árin 2008-2012. Vísaði hann  m.a. til þess að samkvæmt 5. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, væri sveitarstjórn heimilt að lækka fasteignaskatt á bújörðum meðan þær væru nýttar til búskapar og af útihúsum í sveitum, ef þau væru einungis nýtt að hluta eða stæðu ónotuð. Sveitarfélagið hafnaði beiðninni og var sú ákvörðun kærð til innanríkisráðuneytisins, m.a. á þeim grund-velli að sveitarstjórn væri skylt að setja sér reglur um beitingu þessarar heimildar en það hefði Svalbarðsstrandarhreppur ekki gert.

Niðurfelling val en ekki skylda

Í umsögn hreppsins um kæruna til ráðuneytisins kemur m.a. fram að sveitarstjórn líti ekki svo á að 5. mgr. 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 feli í sér skyldu til niðurfellingar eða lækkunar fasteignaskatts, né heldur skyldu til að setja reglur um beitingu ákvæðisins, nema að því tilskildu að sveitarstjórn velji að nýta sér þær heimildir sem ákvæðið býður upp á.

Í niðurstöðu ráðuneytisins kemur fram að ákvæði 5. mgr. 5. gr. laganna um lækkun eða niðurfellingu fasteignaskatts verði ekki beitt nema sveitarfélag hafi áður sett sér reglur um slíkt. Af ákvæðinu leiði hins vegar ekki að á sveitarfélögum hvíli fortakslaus skylda til að setja sér reglur af þessu tagi, líkt og kærandi haldi fram, heldur sé það einungis í þeim tilvikum þegar viðkomandi sveitarfélag hyggst nýta sér heimild ákvæðisins sem slík skylda skapist. Þar sem Svalbarðsstrandarhreppur hafi ekki veitt ívilnanir á grundvelli tilvitnaðs ákvæðis á árunum 2008-2012 hafi hann tekið þá afstöðu að nýta ekki heimild til lækkunar eða niðurfellingar á fasteignaskatti á grundvelli umræddrar 5. mgr. 5. gr. laganna. Var því kröfu kæranda, um að hin kærða ákvörðun yrði felld úr gildi, hafnað.

Þrátt fyrir framangreinda niðurstöðu kemur fram í úrskurðinum, að þegar um sé að ræða heimildir til sveitarfélaga til að veita ívilnanir með setningu sérstakra reglna, s.s. um lækkun eða niðurfellingu fasteignaskatts, sé mikilvægt að það liggi fyrir með skýrum hætti, t.a.m. með sérstakri ákvörðun sveitarstjórnar, ef sveitarfélagið kjósi að nýta ekki heimildina. Það sé nauðsynlegt svo íbúar sveitarfélagsins geti gert sér grein fyrir réttarstöðu sinni og hvort umræddar ívilnandi ráðstafanir geti staðið þeim til boða.