Stefna ríkis og sveitarfélaga um upplýsingasamfélagið 2013-2016

Samstarf ríkis og sveitarfélaga um framþróun upplýsingasamfélagsins hefur aukist undanfarin ár sem er mjög jákvætt. Til að unnt sé nota upplýsingatækni til að bæta opinbera þjónustu og hagræða í rekstri þurfa rafræn gögn að geta flætt óhindrað á milli stofnana ríkis og sveitarfélaga og það kallar á samstarf á milli stjórnsýslustiganna. Framþróun upplýsingasamfélagsins krefst fjárfestinga í upphafi sem skila munu hagræðingu til lengri tíma litið. Það sparar opinbert fé að ríki og sveitarfélög hafi samstarf um uppbyggingu á þessu sviði. Fulltrúar sveitarfélaga tóku þátt í mótun tillagna að nýrri stefnu ríkis og sveitarfélaga um upplýsingasamfélagið 2013-2016 sem stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga samþykkti fyrir sitt leyti á fundi sínum 31. maí sl. Sveitarfélögin eiga einnig fulltrúa í verkefnisstjórn sem mun hafa umsjón með innleiðingu stefnunnar.

Í stefnumótuninni er gert ráð fyrir uppbyggingu á grunninnviðum sem nýtast bæði ríkisstofnunum og sveitarfélögum. Það er einnig gert ráð fyrir rafrænum lýðræðisverkefnum á sveitarstjórnarstigi.


Eitt þeirra verkefna sem gert er ráð fyrir í stefnumótuninni er að áfram verði gerðar reglulegar úttektir á vefjum ríkisstofnana og sveitarfélaga. Undirbúningur að úttekt 2013 er nú hafinn og hefur innanríkisráðuneytið gert samning við fyrirtækið Sjá ehf. um að annast verkið. Úttektin mun fara fram í september. Teknir verða út vefir 70 sveitarfélaga en fjögur sveitarfélög eru ekki með vef.

aIMG_0505

aIMG_0506