Samspil laga um almannatryggingar við lög um félagsþjónustu sveitarfélaga

Á síðastliðnu vorþingi Alþingis var lagt fram frumvarp til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning, 636. mál, en það varð ekki að lögum. Frumvarpið er að nýju til umfjöllunar á sumarþingi í nær óbreyttri mynd. Með frumvarpinu er m.a. lögð til sameining laga um almannatryggingar nr. 100/2007 og laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007. Jafnframt verði sá kafli sem fjallar um slysatryggingar færður í sérstök lög um slysatryggingar almannatrygginga. Með frumvarpinu er leitast við að styrkja stöðu aldraðra og þeirra sem búa við skerta starfsgetu, meðal annars með því að einfalda löggjöf um lífeyrisréttindi almannatrygginga og tengdar greiðslur eins og segir í inngangi greinargerðar með athugasemdum við frumvarpið.

Samband íslenskra sveitarfélaga skilaði umsögn um frumvarpið. Í umsögninni kemur fram  að það sé álit sambandsins að með frumvarpinu komi fram margar góðar tillögur um breytingar á löggjöfinni sem miði að einföldun og auknum skýrleika. Hins vegar eru gerðar nokkrar athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins. Meðal þeirra er athugasemd við það ákvæði frumvarpsins um að sett verði 50.000 kr. hámark á framfærsluuppbót á lífeyri, sbr. 4. mgr. 60. gr. Í skýringum með frumvarpsgreininni segir orðrétt: „Hafi einstaklingur heildartekjur sem nema lægri fjárhæð en framfærsluviðmið laganna, þrátt fyrir að fá greidda hámarksfjárhæð samkvæmt þessu ákvæði, kemur til kasta grunnöryggisnets þjóðfélagsins, sem er félagsþjónusta sveitarfélaga.“ Sambandið gerir í umsögninni athugasemd við framangreint orðalag og bendir á með því sé mælt fyrir um auknar skyldur félagsþjónustu sveitarfélaga án samráðs við sveitarfélögin. Vísað er til þess að í skýringum með frumvarpinu komi ekki fram hve margir bótaþegar fái nú framfærsluuppbót umfram fyrirhugað hámark og því liggi ekki fyrir upplýsingar um fjárhagsleg áhrif þessarar breytingar.

Samráð er nauðsynlegt

Í umsögn sambandsins er gerð athugasemd við að ekki hafi verið haft samráð við sambandið við frumvarpsgerðina. Þá sé skylt samkvæmt sveitarstjórnarlögum að kostnaðarmeta lagafrumvarp ef fyrirsjáanlegt er að það muni hafa fjárhagsleg áhrif á sveitarfélögin. Framangreint ákvæði um hámark framfærsluuppbótar á lífeyri er skýrt dæmi um hve nauðsynlegt er að samráð sé haft milli ríkis og sveitarfélaga í þessum efnum, og má þar einnig hafa í huga nýlegan dóm Hæstaréttar sem rakinn er í næstu opnu.