Samantekt Hringþings og morgunverðafunda um málefni innflytjenda

Á undanförnum 15 árum hefur nemendum með annað móðurmál en íslensku fjölgað jafnt og þétt í íslenskum skólum á öllum skólastigum. Niðurstöður rannsókna hafa sýnt að nemendur með annað móðurmál en íslensku sýna almennt slakari árangur í grunn- og framhaldsskólum en nemendur með íslensku að móðurmáli. Eins sækja hlutfallslega færri nemendur með annað móðurmál en íslensku um nám í framhaldsskólum og brottfall þeirra úr framhaldsskólum er hátt.

Af þeim sökum skipaði velferðarráðuneytið í  mars 2012 vinnuhóp til undirbúnings Hringþings um menntamál innflytjenda í leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum, háskólum og fullorðinsfræðslu.  Að Hringþinginu og undirbúningi þess stóðu: Innflytjendaráð, velferðarráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða, Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, Fjölmenningarsetur, Tungumálatorg, Háskóli Íslands, Þjónustumiðstöð Breiðholts og Samband íslenskra sveitarfélaga. Þingið var haldið föstudaginn 14. september 2012 í Rúgbrauðsgerðinni í Reykjavík.

aIMG_1490

Tildrög þess að ákveðið var að halda málþing um málefni innflytjenda var vinna innflytjendaráðs við nýja framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda þar sem menntamál verða ein af meginstoðunum. Mikilvægt var því að byggja þá framkvæmdaáætlun á traustum grunni og yfirlitsþing sem þetta var talið kjörið til að draga fram helstu þætti sem beina þarf sjónum að á komandi árum, bæði í tengslum við innleiðingu nýrra aðalnámskráa og þróun menntakerfisins almennt.

Á Hringþinginu var gefið yfirlit yfir stöðuna í menntamálum innflytjenda á  mismunandi  skólastigum og fjallað var um  framhaldsfræðslu og kennaramenntun.  Þingið var skipulagt með það fyrir augum að skapa  samræðuvettvang fyrir þá aðila sem koma að menntamálum innflytjenda, bæði  til að ræða og forgangsraða verkefnum, svo og til að kortleggja helstu áskoranir. Þingið fjallaði einnig um helstu hugtök sem notuð eru í orðræðu um innflytjendur og fjallaði á opinskáan hátt um aðkomu og túlkun innlendra fjölmiðla á málefnum þeirra, ásamt því að gefa sýnishorn af fyrirmyndarverkefnum (best practices) í námi og kennslu innflytjenda.

Í kjölfar Hringþingsins voru haldnir fjórir morgunverðarfundir um menntun innflytjenda byggðir á afrakstri þingsins og stóðu sömu aðilar að undirbúning  þeirra og höfðu komið að undirbúningi Hringþingsins. Morgunverðarfundirnir fjölluðu allir um stöðu innflytjenda í skólakerfinu en mismunandi áherslur voru á hverjum fundi fyrir sig. Yfirheiti morgunverðarfundanna voru:

Mennta-og menningamálaráðuneytið mun gera samantekt sem afhent verður innflytjendaráði og/eða velferðarráðuneytinu. Niðurstöður munu væntanlega koma að góðum notum  við undirbúning framkvæmdaáætlunar í málefnum innflytjenda sem nýr velferðarráðherra á skv. 7. gr. laga um málefni innflytjenda, nr. 116/2012, að leggja fram á Alþingi til fjögurra ára.