Athyglisverður dómur

Hæstiréttur kvað upp dóm þann 13. júní síðastliðinn í máli þar sem reyndi á túlkun laga um almannatryggingar. Einkum var tekist á um áhrif ákvæða sem kváðu á um að skerða bæri greiðslur úr almannatryggingum í hlutfalli við búsetutíma. Upphaflega mun hafa verið mælt fyrir um að ríkisborgararéttur veitti fulla tryggingavernd en um langt árabil hefur gilt að greiðslur væru skertar samkvæmt þeirri reglu að lífeyrir greiðist í hlutfalli við lögheimilistíma, sé væntur lögheimilistími skemmri en 40 ár á aldursbilinu 16 til 67 ára.

Stefnandi málsins, íslenskur ríkisborgari, fluttist hingað til lands árið 1998, þá 38 ára að aldri, en greindist síðan eftir komuna með heilaæxli sem leiddi til varanlegrar örorku. Örorkulífeyrir viðkomandi, sem ákveðinn var árið 2007, var hins vegar skertur þar sem væntur lögheimilistími gæti mestur orðið 29 ár á tímabilinu fram til 67 ára aldurs viðkomandi (29/40 = 71,45%). Með málshöfðun sinni vildi stefnandi hnekkja þessari tæplega 30% skerðingu.

Hæstiréttur féllst ekki á kröfur stefnanda og dæmdi skerðinguna lögmæta. Var talið að skerðingin stríddi ekki gegn rétti manna skv. 76. gr. stjórnarskrárinnar til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Var niðurstaða héraðsdóms um þetta efni staðfest.

Athyglisvert er að á báðum dómstigum var vísað til reglna um aðstoð sveitarfélaga við öryrkja. Í málinu vöktu Tryggingastofnun og íslenska ríkið sérstaka athygli á því að almannatryggingar og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð séu ekki eina úrræðið til framfærslu hér á landi heldur séu í lögum ákvæði um framfærsluskyldu sveitarfélaga sem eðlilegt sé að leita til. Bótaþegum séu greiddar þær bætur sem þeim beri lögum samkvæmt. Ef þær dugi ekki sannanlega til framfærslu, sé það hlutaðeigandi sveitarfélags að meta fjárþörf og veita frekari aðstoð sé þess talin þörf.

Niðurstaða málsins vekur umhugsun í ljósi þess að sveitarfélög hafa yfirleitt litið á fjárhagsaðstoð sína sem tímabundið neyðarúrræði m.a. til þess að brúa bilið þar til réttur til örorkulífeyris hefur verið staðfestur. Sú skerðingarregla sem nú hefur verið staðfest gerir hins vegar að verkum að í mörgum tilvikum verður til staðar varanleg þörf fyrir fjárhagsaðstoð sveitarfélags, jafnvel um áratuga skeið.