Starfsmatssérfræðingar frá Bretlandi í heimsókn á skrifstofu sambandsins

– stefnt að áframhaldandi samvinnu

Tveir starfsmatsráðgjafar frá mannauðs-ráðgjafarfyrirtækinu Pilat í London, heimsóttu Ísland dagana 22. og 23. maí sl. Kjarasvið Sambands íslenskra sveitarfélaga skipulagði heimsóknina í samvinnu við skrifstofu borgarstjórans í Reykjavík.

Haldin var tveggja daga vinnustofa með ráðgjöf og þjálfun fyrir starfsmatsráðgjafa hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og stjórnendur þeirra. Farið var yfir verkferla og framkvæmd starfsmatsvinnunnar. Fræðslu- og upplýsingamál voru fyrirferðarmikil, enda mikilvægur þáttur í að tryggja gæði starfsmatsniðurstöðu. Nauðsynlegt er að ráðgjafarnir njóti reglulegrar sí- og endurmenntunar og að góð fræðsla sé í boði fyrir alla þá sem að starfsmatsferli koma með einum eða öðrum hætti.

Í lok vinnustofunnar fengu starfsmats-ráðgjafar og stjórnendur endurgjöf frá Pilat ráðgjöfunum og tillögur að næstu skrefum að áframhaldandi samvinnu aðila. Sú samvinna felst einkum í að flytja gagnagrunn starfsmatsins yfir á vefútgáfu kerfisins, sem hefur þá kosti að einfalda utanumhald og vinnslu starfsmatsgagna. Ekki er um nýja útgáfu sjálfs starfsmatskerfisins að ræða, heldur bætt hugbúnaðarumhverfi með fjölbreyttari möguleikum við úrvinnslu starfsmatsgagna, sem ættu að einfalda og flýta starfsmatsferlinu. Einnig var haldinn fundur með fulltrúum þeirra viðsemjenda sambandsins og Reykjavíkurborgar, sem samið hafa um starfsmat og þeim kynntar niðurstöður vinnustofunnar.

Á næstu vikum munu sambandið og Reykjavíkurborg vinna sameiginlega úr niðurstöðum vinnustofunnar.