Rétt málsmeðferð – öruggt skólastarf

Nýlokið er námskeiðshring Sambands íslenskra sveitarfélaga og Skólastjórafélags Íslands í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið um rétta máls-meðferð og öruggt skólastarf. Alls voru haldin átta námskeið vítt og breitt um landið og var markhópurinn skólastjórnendur, fræðslustjórar og aðrir starfsmenn sveitarfélaga sem starfa að málefnum grunnskóla auk formanna skólanefnda.  

Markmið námskeiðanna var að auka þekkingu þátttakenda á inntaki stjórnsýslureglna svo þeir geti  beitt þeim af öryggi í daglegu starfi, greint hvenær þær eiga við og hvernig þeir almennt fylgja góðum stjórnsýsluháttum í skólastarfinu. Fjallað var um samspil grunnskólalaga og stjórnsýslulaga, auk  tiltekinna meginreglna í öðrum lögum, svo sem barnalögum, upplýsingalögum og persónuverndarlögum. Þá fengu þátttakendur raunhæf verkefni til úrlausnar í tengslum við afmörkuð álitaefni.

Mikill áhugi og ánægja

Mikill áhugi reyndist fyrir námskeiðunum því alls skráðu sig ríflega fjögur hundruð manns til þátttöku. Þá kom jafnframt fram mikil ánægja þátttakenda með námskeiðin, en allir fengu rafrænt námskeiðsmat til útfyllingar að því loknu. Spurt var t.a.m. um það hvort viðkomandi teldi sig geta hagnýtt sér efnið í starfi, sem flestir töldu óyggjandi, hvernig þeir mátu hæfni leiðbeinenda á námskeiðunum til að miðla efninu, hversu áhugavert efnið var og fleira í þeim dúr. Athyglisvert var að sjá hversu margir tiltóku að mikið gagn hefði verið að þeim raunhæfu verkefnum sem lögð voru fyrir.

Fleiri námskeið fyrirhuguð

Leiðbeinendur á námskeiðinu voru Tryggvi Þórhallsson, lögfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sigríður Thorlacius, lögfræðingur hjá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur, Guðni Olgeirsson, sérfræðingur hjá mennta- og menningarmálaráðuneyti, og Sigurbjörg Sigurjónsdóttir, lögfræðingur hjá mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Stefnt er að því að setja upp námskeið á komandi vetri er lýtur að starfsmannamálum í skólaumhverfinu, hæfisreglum og fleiru af þeim toga fyrir þennan sama markhóp.

Á vef sambandsins eru upptökur frá síðasta námskeiðinu sem fór fram á Hótel Natura í Reykjavík 10. maí 2013.