Málþing um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) á Norðurlöndum

Þann 11.–12. apríl 2013 var haldið samnorrænt málþing í Stokkhólmi um stöðu NPA á Norðurlöndunum. Á málþingið var boðið fulltrúum frá velferðarráðuneytum Norðurlandanna, samtökum sveitarfélaga og hagsmunasamtökum í málefnum fatlaðs fólks.

Fulltrúar Íslands voru Þór Þórarinsson, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu, Guðni Geir Einarsson, sérfræðingur í innanríkisráðuneytinu, Bryndís Snæbjörnsdóttir f.h. Landssamtakanna Þroskahjálpar og Gyða Hjartardóttir, félagsþjónustufulltrúi sambandsins.

Málþingið fjallaði um rétt einstaklinga með fötlun til persónulegrar aðstoðar Útgangspunktur umræðunnar var að  umbætur á hefðbundinni þjónustu geti aukið til muna sjálfstæði einstaklinganna og möguleika til þátttöku í samfélaginu. Fulltrúar á málþinginu voru sammála um að samhliða þessu þyrfti að  endurskoða það lagaumhverfi sem löndin hafa sett um NPA; ákvæði þar að lútandi þurfi að vera skýr og aðgengileg fyrir bæði notendur og sveitarfélög. Auk þess sé nauðsynlegt að tryggja bæði gæði þjónustunnar og eftirlit, þannig að NPA geti áfram verið valkostur til framtíðar.

Reynsla Svía mikilsverð

Mikill áhugi var á reynslu Svía af NPA en  með lagasetningu þar að lútandi árið 1993 urðu Svíar brautryðjendur þegar kemur að NPA á Norðurlöndum. Svíar telja NPA vera góðar umbætur á hefðbundinni þjónustu sveitarfélaga sem jafnframt leggur grunninn að nýjum möguleikum fyrir marga til að stjórna eigin lífi. Lögin hafa gefið einstaklingunum aukið frelsi, en breytingarnar hafa þó reynst mun dýrari en löggjafinn hafði reiknað með. Auk hafa umræður um misferli aukist á síðustu árum. Heildarendurskoðun fer nú fram á löggjöfinni sem snýr að NPA í Svíþjóð og fram hafa komið áhyggjur notenda vegna þess.

Fram kom hjá fulltrúa sambands sveitarfélaga í Svíþjóð að það væri krafa þeirra að ríkið tæki alfarið yfir NPA þjónustuformið, þar sem grá svæði milli ríkis og sveitarfélaganna þykja flækja útfærsluna og telja menn þar í landi að í fjárhagslegum samskiptum halli nokkuð á sveitarfélögin.

Breytinga að vænta í Finnlandi

Fulltrúar Finnlands og Íslands töldu sig geta haft mikið gagn af því að nýta reynslu annarra norrænna ríkja við innleiðingu NPA hjá sér, þar sem þau eru skemmst á veg komin með að þróa NPA. Lög um málefni fatlaðra í Finnlandi eru nú í heildarendurskoðun. Þar í landi er stefnan að draga úr stofnanavistun sem enn er við lýði, en lagasetningin miðar m.a. að því að árið 2020 muni enginn einstaklingur eiga heimili á stofnun.

Endurskoðun lokið í Danmörku

Endurskoðun á lögum um NPA er nýlokið í Danmörku, en þar voru engar breytingar gerðar á notendahópnum, sem eins og fyrr takmarkast við þá sem sinnt geta verkstjórn án þess að verulegur viðbótarstuðningur þurfi til að koma. Hins vegar voru miklar breytingar gerðar sem snúa að framkvæmd þjónustunnar, þá einna helst sem snýr að samræmingu. Sveitarfélögin hafa gagnrýnt að framkvæmdin væri of flókin sem gerði það að verkum að erfitt væri að gæta jafnræðis á milli sveitarfélaga. Það hefur breyst við endurskoðunina.

Óvíst með lögfestingu í Noregi

NPA er einnig takmarkað í Noregi við þá sem geta sjálfir stýrt þjónustunni. Þar er NPA þjónustuformið ekki lögbundið, en fyrir liggur frumvarp til Stórþingsins um mögulega lögfestingu. Óvíst er hins vegar á þessari stundu hvort það nái fram að ganga.