Hur Små kan man vara

Sænska sveitarfélagasambandið, SKL,  stendur árlega fyrir lýðræðisdegi sveitarfélaga, „Demokratidagen“. Yfir 400 sveitarstjórnarmenn tóku þátt í „Demokratidagen 2013“, sem var haldinn í Stokkhólmi  24. apríl sl., og ræddu stöðu lýðræðisins,  íbúasamráð, kröfur til pólitískrar stjórnenda í breyttri heimsmynd, hvernig hægt sé að fá borgarana til að taka þátt í samfélagsverkefnum og sýna ábyrgð og hvernig sé hægt skapa traust á milli íbúa og kjörinna fulltrúa.  

Lýðræðisráðherra Svíþjóðar ávarpaði fundinn og vék m.a. að því að bregðast þurfi við því að kjörnir fulltrúar verða í vaxandi mæli fyrir ofbeldi og hótunum í Svíþjóð.  Hin gamalreynda Mona Sahlin, fyrrverandi formaður sænskra „socialdemokrata“, fjallaði um hin lýðræðislegu úrlausnarefni, m.a. hvernig völdin spilla – alltaf!  

Haldnar voru fjölmargar áhugaverðar málstofur. Meðal þeirra var málstofa með yfirskriftina: Hversu lítil geta þau verið?  Hún fjallaði um breytingar á sveitarfélagaskipaninni á Norðurlöndum út frá þróuninni í Danmörku, Finnlandi og Íslandi. Anna G. Björnsdóttir, sviðsstjóri þróunar- og alþjóðasviðs sambandsins, var þar með framsögu. Danir hafa þegar innleitt umfangsmiklar sameiningar sveitarfélaga sem þykja hafa tekist vel og ekki komið niður á lýðræðinu, þar sem stærri sveitarfélög hafa meiri burði til að beita markvissu íbúasamráði. Finnar hyggjast nú fylgja í fótspor Dana en þeir telja að fámennu sveitarfélögin þeirra muni ekki geta staðið undir framtíðaráskorunum vegna öldrunar  íbúa og auknum kröfum um þjónustu. Á Íslandi er aftur á móti annað uppi á teningnum og yfirgnæfandi meirihluti íslenskra sveitarfélaga eru svo örlítil að undrun sætir fyrir utan landsteinana.  

Ein málstofan fjallaði um norrænt samanburðarverkefni sem finnska og sænska sveitarfélagasambandið standa fyrir. Í því eru pólitísk stjórnkerfi og stjónsýsla norrænna sveitarfélaga borin saman. Hafnarfjarðarkaupstaður og Kópavogsbær taka þátt í þessu verkefni og mun afraksturinn birtast fljótlega, m.a. í rafbók sem er nýmæli í útgáfustarfsemi norrænu sambandanna.

Fjölmargar áhugaverðar kynningar frá lýðræðisdeginum má finna hér og á þessum tengli eru gagnlegar upplýsingar um vinnu sænska sveitarfélagasambandsins að íbúalýðræðismálum, en sænsk sveitarfélög eru í fararbroddi í Evrópu og þótt víðar væri í leitað í markvissu íbúasamráði.