Framtíðaráskoranir sveitarfélaga

Á lýðræðisdegi sænskra sveitarfélaga var fjallað um  þær geysimiklu breytingar sem orðið hafa á sænsku samfélagi undanfarna áratugi þar sem einstaklingsheimilum hefur fjölgað úr 25% 1970 í 49%, hjónaskilnuðum úr 6% í 22%, og 34% eru nú í hjónabandi í stað 48% 1970. Í Svíþjóð er starfandi sérstök framtíðarnefnd sem hefur nýlega birt lokaskýrslu sína um þær áskoranir sem sænskt samfélag þarf að takast á við næstu áratugi, allt til 2050, sjá  http://www.framtidskommissionen.se/.

Niðurstöður skýrslunnar voru undirliggjandi í mörgum framsögum. Þannig hefur verið áætlað að sænsk sveitarfélög og landsþing muni þurfi að ráða 420.000 nýja starfsmenn fram til ársins 2020 til að takast á við þyngri þjónustuverkefni og að sænsk sveitarfélög muni þurfa að hækka skatta um 13 krónur á íbúa árið 2025 til að geta veitt sömu þjónustu og veitt er 2012. Því er spáð að helmingur þeirra sem fæðist í dag muni verða meira en 100 ára gamlir.  Vegna þessarar þróunar er óhjákvæmilegt að sænsk sveitarfélög muni í vaxandi mæli þurfa að reiða sig á erlent vinnuafl en samkeppni um það á eftir að aukast þar sem lýðfræðileg þróun er svipuð í öllum Evrópuríkjum.  Þess vegna gera Svíar sér grein fyrir mikilvægi þess að þróa vinnumarkaðinn þannig að útlendingum þyki eftirsóknarvert að setjast að í Svíþjóð.